Af hverju eigum við að láta það ganga?

Penni: Ísold Saga Karlsdóttir

Flest höfum við ábyggilega orðið vör við auglýsingaherferð stjórnvalda og atvinnulífs þar sem fjögurra manna hljómsveit spilar lag um að láta það ganga. 

En hvað er það eiginlega sem við eigum að láta ganga og hvers vegna? 

Blaðamaður Framhaldsskólablaðsins ræddi við aðila sem standa á bakvið herferðina til að skilja út á hvað allt þetta gengur. 

„Herferðin gengur út á að fá fólk til að skilja hvers vegna það skiptir máli að við eigum viðskipti við fyrirtæki á Íslandi, en verslum t.d. ekki bara á netinu frá útlöndum, sérstaklega núna í heimsfaraldrinum,” segir Þóranna K. Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri SVÞ, sem er eitt af þeim samtökum sem standa að herferðinni ásamt stjórnvöldum. „Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að þessum faraldri fylgir kreppa, fólk er að missa vinnuna, fyrirtæki eru að loka o.s.frv. og herferðin minnir okkur á að við getum öll gert okkar til að bæta úr því, með því að hugsa um hvar við eyðum peningunum okkar.” 

Þar sem við lærum ekki öll hagfræði, hvorki í grunnskóla eða framhaldsskóla, er ekki víst að við áttum okkur öll almennilega á því hvernig þetta virkar. Blaðamaður gróf þess vegna betur ofan í það svo að við getum öll áttað okkur betur á því hvað átt er við með herferðinni. Einfalt dæmi, sem við getum flest samsamað okkur við, útskýrir þetta ansi vel. 

Ef að við förum í fataverslun hér á Íslandi og kaupum okkur föt, þá verður heilmikið af þeim peningum sem við borgum fyrir fötin eftir hérlendis, og býr til meiri peninga fyrir þjóðina. Hinsvegar, ef við kaupum fötin t.d. á netinu frá erlendum aðilum sem senda þau beint hérna heim, þá verður lítið sem ekkert af peningum eftir og býr til lítið sem ekkert fyrir þjóðina. 

OK, segjum að þú kaupir sömu erlendu peysuna annars vegar á netinu erlendis frá og hinsvegar í innlendri verslun. Þegar þú kaupir peysuna frá útlöndum í gegnum netið fara peningarnir beint í vasana á erlendum framleiðendum og söluaðilunum í útlöndum sem selja þér peysuna. Ekki nóg með það að allur peningurinn fer bara til útlanda að þá ertu einnig að með hlutfallslega hærri flutningskostnað fyrir einn lítinn böggul sem inniheldur bara peysuna þína. Kolefnisfótsporið þitt verður einnig mun meira við þessi kaup. Hinsvegar ef þú kaupir þessa sömu peysu úr innlendri verslun fer hluti af verðinu í að borga starfsfólkinu hér á landi laun. Þau fara svo t.d. út að borða fyrir launin sín, sem skapar störf á veitingastaðnum og svo koll af kolli. Ekki nóg með það heldur fer skattur til ríkisins, bæði af verðinu á peysunni (virðisaukaskattur) og af launum sem verið er að greiða. Þeir peningar fara í ríkissjóð og borga m.a. fyrir menntakerfið okkar og heilbrigðiskerfið. Þannig er þetta allt partur af sama kerfinu og það er mikilvægt að láta þetta kerfi ganga. Og þetta er ekki allt. Flutningskostnaðurinn fyrir hverja peysu verður mun lægri vegna stærðarhagkvæmni við að flytja inn meira í einu og kolefnisfótsporið verður hlutfallslega lægra. Þarna sérðu að það er mikilvægt að við látum það ganga, fyrir okkur öll.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search