SÍF er Samband íslenskra framhaldsskólanema. Meginmarkmið sambandsins er að gæta að og standa vörð um hagsmuni og mannréttindi nemenda á framhaldsskólastigi.

Hlutverk SÍF eru að:

 • Verja réttindi framhaldsskólanema
 • Hafa forystu í hagsmunamálum framhaldsskólanema
 • Vera málsvari og milliliður í ágreiningsmálum
 • Vera upplýsandi um hvað standi nemum til boða
 • Hafa forystu í félagsstarfi og félagsmálafræðslu
 • Vera leiðandi í upplýsingagjöf um nám á framhaldsskólastigi
 • Styðja við bakið á aðildarfélögum sínum
 • Standa vörð um gæði náms
 • Stuðla að jöfnu aðgengi til náms
 • Vera sameiginlegur grundvöllur fyrir framhaldsskólanema til að koma saman og ræða stöðu sína og tengd málefni

Markmið SÍF eru að:

 • Gæta hagsmuna og réttinda framhaldsskólanema, stuðla að bættri menntun og jöfnu aðgengi til náms
 • Styrkja rödd ungs fólks í baráttu fyrir bættum kjörum framhaldsskólanema
 • Styðja við bakið á aðildarfélögum sínum í baráttumálum þeirra
 • Að fá réttindayfirlýsingu framhaldsskólanema virta af yfirvöldum í menntamálum
 • Halda úti opinni skrifstofu og virkri upplýsingaveitu
 • Styðja og efla framhaldsskólanema í félagsstarfi þeirra og stuðla að auknum þroska
 • Vinna markvisst gegn fordómum í iðnnámi
 • Virkja Sífara

Stefna Sambands íslenskra framhaldsskólanema

Samþykkt á aðalþingi 17.9.2017

Inngangur

Stefna Sambands íslenskra framhaldsskóla (SÍF) 2017-2021 leggur línurnar í starfi sambandsins á komandi árum. Stefnan er ekki tæmandi verkefnalisti enda starfið fjölbreytt og lifandi og koma ýmis tilfallandi verkefni inn á borð SÍF sem mikilvægt er að sinna í þágu framhaldsskólanema. Stefnan er byggð á almennum markmiðum og hlutverki SÍF.

Aðgengi að SÍF

Allir framhaldsskólanemendur landsins eru meðlimir SÍF og því mikilvægt að þeir hafi gott aðgengi að sambandinu. SÍF hefur ekki verið nægilega sýnilegt undanfarin misseri sem aftur getur haft áhrif á þjónustu félagsins. Sem liðir í því að auka sýnileika þess hefur verið útbúið kynningarmyndband, sett upp ný heimasíða og Framhaldsskólablaðið, málgagn framhaldsskólanema, verið gert rafrænt svo auðveldara sé að dreifa stökum greinum úr því.

Nemendafélög sem hagsmunafélög

Í 39.gr laga  um framhaldsskóla stendur: ,,Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendafélag. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda…’’. Samkvæmt þessum lögum er nemendafélögum landsins skylt að vinna að hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Til að auka vitundarvakningu nemenda um rétt sinn þurfa nemendafélög að sýna fram á að þau eru ekki einungis skemmtanafélög heldur líka hagsmunafélög. Það má meðal annars gera með því að auka sýnileika SÍF innan skólanna, senda fulltrúa á sambandsstjórnarfundi SÍF þar sem hann öðlast meiri þekkingu á hagsmunum framhaldsskólanema sem hann síðan miðlar áfram til samnemenda sinna. Nauðsynlegt er að SÍF eigi eigi gott samstarf og bakland hjá nemendafélögum skólanna þegar kemur að því að gæta hagsmuna nemenda.

Mannréttindamálefni

Mikilvægt er að jaðarhópar innan menntakerfisins, s.s. LGBTQI, innflytjendur og nemendur sem glíma við fötlun af einhverju tagi, fái sömu tækifæri og aðrir nemendur, bæði innan veggja skólanna og í félagslífi þeim tengdum. SÍF metur það svo að þessir hópar eigi það á hættu að gleymast og oft ekki tekið nægilegt tillit til þeirra. Því vill sambandið beita sér fyrir því í samvinnu við fleiri hagsmunaaðila að aðgengi verði tryggt fyrir alla nemendur og fræðsla um málefni minnihlutahópa verði bætt til muna.

Kynjafræði

SÍF berst fyrir því að kynjafræði verði gerð að skyldufagi á öllum námsbrautum til stúdentsprófs sem og á iðn- og verknámsbrautum. Kynjafræði stuðlar að jafnrétti milli kynja og annara hópa ásamt því að sporna gegn fordómum. Kynjafræði skal vera kennd með það að markmiði að fræða nemendur um jafnréttisbaráttuna og stöðu kynjanna, á sem víðtækastan máta, frá upphafi baráttunnar til dagsins í dag en einnig skal líta til framtíðar.

Málefni ungs fatlaðs fólks

Í 7. gr. laga um málefni fatlaðs fólks segir: ,,Fatlað fólk skal eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögum þessum.’’
Menntakerfið, skólarnir og nemendafélögin í landinu þurfa að vera aðgengileg öllum og nemendur eiga ekki að þurfa að velja sér skóla út frá aðgengi, leyfi fyrir hjálpartækjum í kennslustofum eða öðrum úrræðum. SÍF ætlar að kanna stöðu fatlaðra nemenda í öllum framhaldsskólum landsins og þrýsta á skólastjórnendur og stjórnvöld að bæta það sem betur má fara að mati nemenda.


Málefni innflytjenda og flóttamanna

Á ári hverju flyst stór hópur fólks til landsins innflytjendur, flóttamenn og hælisleitendur. Margir koma í von um betra líf en þegar kemur að menntun og að fá menntun metna er oft lítið komið til móts við þá. Afar takmarkað framboð er af áföngum kenndum á ensku og lítur SÍF svo á að nám í framhaldsskólum sé því í flestum tilvikum einungis ætlað fólki með íslensku sem móðurmál. Dæmi eru um að skólar bjóði nemendum af erlendum uppruna upp á íslenskukennslu og hvetur SÍF fleiri skóla til að feta í fótspor þeirra. Það getur reynst nemendum með annað móðurmál og litla kunnáttu í íslensku erfitt að koma sér inn i samfélagið og er mikilvægt að komið sé til móts við þá.

Eðli málsins samkvæmt er upplifun innflytjenda, flóttamanna og hælisleitenda af menntakerfinu misjöfn en SÍF þekkir dæmi þess að nemendur af erlendum uppruna eigi oft á brattan að sækja bæði námslega og félagslega og þeir því oft ekki virkir þátttakendur í samfélaginu.

Aðgengi að námi

Í 2.gr laga um framhaldsskóla segir: „Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.Allir eiga að hafa jafnt aðgengi að framhaldsskólanámi óháð aldri, kyni, fötlun, fjárhagsstöðu og öðru. Mikilvægt er að gæta þess að engum sé synjað um framhaldsskólanám og að það sé öllum aðgengilegt.


Nemendur með námsörðugleika

Nemendur með námsörðugleika eiga að fá þá aðstoð sem þeir telja sig þurfa þegar kemur að námi. Í flestum skólum er boðið upp á sérúrræði fyrir nemendur með námsörðugleika en aðgengi að þeim sérúrræðum er ábótavant. Oft þarf sérgreiningu, sem erfitt er að fá til að hafa aðgang að t.a.m. lengri próftíma, lituðum blöðum, hljóðbókum og því um líkt. SÍF vill bæta aðgengi að þessum sérúrræðum og þeim greiningum sem nemendur þurfa svo nemendur geti stundað sitt framhaldsskólanám án vandkvæða.

Fjárhagslegt jafnræði til náms óháð aldri

Fólk á öllum aldri á að geta stundað nám/hafið nám í framhaldsskóla án þess að því sé mismunað fjárhagslega vegna aldurs. Ástæður þess að fólk flosnar upp úr námi geta verið margvíslegar og mismunandi, s.s.veikindi, fjárhagsvandræði, barneignir o.fl. Telur SÍF að eldri nemendur eigi ekki að þurfa að sækja nám utan framhaldsskólanna til að eiga þess kost að ljúka stúdentsprófi, nám sem oftar en ekki er mun dýrara en skráningargjöld í framhaldsskóla. Allir eiga að hafa sama aðgang að framhaldsskólum, óháð aldri og fjárhagi.

Iðnnemar

Samfélagsviðhorf á iðnnámi einkennist oft af neikvæðum blæ og grunnskólanemendum er oftar en ekki beint í átt að bóknámi fremur en iðnnámi. SÍF vill bæta viðhorf á iðnnámi þar sem skortur er á iðnmenntuðu fólki á vinnumarkaði sem getur haft róttækar afleiðingar þegar til lengri tíma er litið. Með því að efla ímynd iðnnáms gæti samfélagsviðhorfið breyst til hins betra, dregið gæti úr brottfalli og vinnuafl landsins orðið öflugra.

Lýðræði

Í sveitastjórnarkosningunum 2014 var kjörsókn í fyrsta sinn skráð eftir aldri og kom þá í ljós að ungt fólk mætir síður á kjörstað en eldri kynslóðir, aðeins 45% 18-19 ára ungmenna greiddu atkvæði og 42% ungs fólks á aldursbilinu 20-24. Ljóst er að ábyrgð stjórnvalda og skólayfirvalda er mikil og vill SÍF að lýðræðiskennsla verði aukin til muna í framhaldsskólum landsins, bæði sem formlegt nám og aukinn stuðningur við skuggakosningar en einnig í gegnum nemendafélögin.

Umhverfismálefni

Þekkingu á umhverfismálum er ábótavant og mikilvægt að hún aukist meðal framhaldsskólanema. Vitundavakning þarf að eiga sér stað innan framhaldsskólanna til að mæta þeim breytingum sem eiga sér stað í umhverfinu. Rafvæðing námsgagna er einn liður í því en auk þess að draga úr umhverfissóun myndi það meðal annars lækka útgjöld nemenda og draga úr burði þungra skólabóka.

Kynfræðsla

Kynfræðsla á að hefjast á fyrri stigum skólagöngunnar en mikilvægt er að henni sé viðhaldið í gengum framhaldsskólastigið. Mikilvægt er að kennsla í kynfræðslu sé fjölbreytt, beinist að öllum kynjum og hópum. Kynfræðsla skal kennd með það að  markmiði að fræða nemendur um allt það sem við kemur kynjunum. SÍF ætlar að vinna að því að fá kynfræðslu sem séráfanga á framhaldsskólastigi.

Sálfræðiþjónusta

Samkvæmt nefndaráliti fjárlaganefndar Alþingis um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022 stendur eftirfarandi: ,,…Því síður munu fjárveitingar hrökkva til til að auka þjónustu innan framhaldsskólanna, til að mynda efla sálfræðiþjónustu í skólum….’’.
SÍF sér sig skyldugt að halda áfram að beita sér fyrir gjaldfrjálsri og aðgengilegri sálfræðiþjónustu fyrir nemendur í öllum framhaldsskólum. Fyrir liggur að slík þjónusta hefur skilað góðum árangri í Verkmenntaskólanum á Akureyri og sýnt verið fram á að dregið hefur úr brottfalli innan skólans. Dæmi VMA gefur sterkt til kynna hversu fast andleg heilsa og nám haldast í hendur og er því nauðsynlegt að vinna að þessu málefni.

Framkvæmdaáætlun SÍF til 4 ára

 2018-2019 2019-2020 2020-2021 2021-2022
Málefni fatlaðra  Nemendafélög sem hagsmunafélög Nemendur með námserfiðleika Kynfræðsla
Fjárhagslegt jafnræði til náms óháð aldri  Kynfræðsla Umhverfismál Nemendur með námserfiðleika
Kynjafræði Lýðræði (forsetakosningar) Lýðræði (forsetakosningar) Lýðræði (alþingiskosningar) Framtíðarvæddir framhaldsskólar
 Iðnnemar Fjárhagslegt jafnræði til náms óháð aldri
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search