Ekki sjálfsagt að geta séð Parasite í bíó

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Bíó Paradís stefnir enn á að loka 1. maí, þrátt fyrir mikinn stuðning almennings og ýmissa aðila við bíóið. 

Fyrir tæplega mánuði kom í ljós að Bíó Paradís mun loka þann 1. maí vegna þess að Karl Mikli ehf., félagið sem á húsnæðið, ætlar að hækka leiguna um 150%. Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdarstjóri Bíó Paradísar, segir að stjórnendur séu á fullu að reyna að leysa málið. Hún vonast til þess að ríki og borg stígi inn með fjárhagsaðstoð. ,,Þetta bíó hefur alltaf verið samstarfsverkefni ríkis og borgar. Við stöndum frammi fyrir svona risavöxnu verkefni sem er fjárhagslega langt ofar okkar getu til að leysa.” Hrönn segir að stuðningur frá ríki og borg hefur alltaf verið í mun lægra hlutfalli í samanburði við önnur menningarhús sem hafa þegið stuðning frá hinu opinbera. ,,Við höfum þurft að merja þetta á því sem við höfum með tilheyrandi kostnaði, því höfum við aldrei getað sett neinn pening í viðhald eða endurbætur. Við stöndum því ekki bara frammi fyrir margfalt hærri leigu heldur líka brýnni viðhaldsþörf. Þetta verkefni er of stórt fyrir óhagnaðardrifið menningarfélag til að leysa á eigin spýtur.”

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Aðsóknarmet slegið

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Hrönn segir að stjórnendur Bíó Paradís séu á fullu í viðræðum við þá sem eiga hlut að máli. ,,Það hafa allir lýst yfir miklum vilja til að leysa málið og við höfum lagt fram ýmsar tillögur.” Hins vegar hefur lítið borið á svörum um hvað væri hægt að gera og á meðan líður tíminn. ,,Það kaldhæðnislega er að við erum að slá aðsóknarmet. Það hefur aldrei verið meira að gera.” Parasite sem vann í ár bæði óskasverðlaun sem besta mynd og besta erlenda mynd, hefur verið í sýningu hjá Bíó Paradís í 19 vikur. ,,Hún er núna í fjórða sæti aðsóknarlistans yfir vinsælustu myndir á Íslandi,” en 1563 sáu myndina í Bíó Paradís í þarsíðustu viku.

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Bæði Háskólabíó og Kringlubíó hafa lýst yfir vilja til að aðstoða Bíó Paradís með þeim hætti að bjóða bíóinu aðsetur í sínum sölum. ,,Auðvitað reynum við allt til að halda bíóinu lifandi, en sú starfsemi sem við höfum byggt upp hér á Hverfisgötu byggir mikið á því að vera í hringiðu mannlífsins og í alfaraleið, í námunda við aðra listastarfsemi, veitingastaði og bari. Bíó Paradís er ekki bara salur sem sýnir kvikmyndir, þetta er líka lifandi samfélag í miðbænum þar sem fólk sækir í menningu og afþreyingu. Það væri allt öðruvísi starfsemi sem þyrfti að hugsa upp á nýtt ef bíóið væri í skólastofum í Háskólabíó eða í Kringlunni. Við þyrftum að endurskoða mikið af því sem við gerum með tilliti til þess.”

Stuðningur yljaði um hjartarætur

Þrátt fyrir lítinn stuðning frá ríki og borg í samanburði við stuðning við önnur menningarhús, segist Hrönn finna fyrir því að Bíó Paradís hefur öðlast ríkan sess í menningarlífi þjóðarinnar frá opnun árið 2010. ,,Hópurinn sem kemur í Bíó Paradís er alltaf að stækka og verða fjölbreyttari.” Hrönn segir þó að það hafi komið henni á óvart hve mikill stuðningur barst frá ólíkum áttum eftir að fréttir bárust um að bíóið væri að loka. ,,Það yljaði okkur um hjartarætur að finna það. Það er eins og allir sem hafa einhvern tímann komið í Bíó Paradís höfðu orðið ástfangnir af bíóinu, að við höfðum sigrað hjörtu allra sem hafa stigið hér inn. Það er mjög góð tilfinning.”

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Bíó Paradís hefur stutt við bakið á ungum kvikmyndagerðarmönnum, við íslenska kvikmyndagerð og stuðlað að menningarlæsi grunnskólanemenda og framhaldsskólanemenda. ,,Við hýsum kvikmyndasögutíma og útskriftarsýningar Kvikmyndaskólans, útskriftarsýningar frá Stúdíó Sýrlandi og Borgarholtsskóla, kvikmyndahátíð framhaldsskólanna og allskonar verkefni sem tengjast fræðslu og kvikmyndamenningu framhaldsskólanema.” 

Í samstarfi við Töfralampann sem er félag í eigu Oddnýjar Sen hefur Bíó Paradís haldið sýningar fyrir grunnskólanemendur í þeim tilgangi að efla kvikmyndarýni, að kynna kvikmyndir sem hafa haft mikla þýðingu í kvikmyndasögu og að sýna þeim kvikmyndir um samfélagslega erfið málefni í tengslum við forvarnarfræðslu. Sambærilegt prógram var í boði fyrir framhaldsskólanemendur frá árinu 2013, en samkvæmt Hrönn neyddist Bíó Paradís til að hætta með þær sýningar árið 2019 sökum fjárskorts. ,,Við höfðum þá ekki fengið greitt með því verkefni síðan árið 2015, en það prógram var í boði fyrir kennara og nemendur þeim algjörlega að kostnaðarlausu.” 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Eina aðgengið var VHS spólan

Bíó Paradís hefur alltaf sýnt myndir sem er ekki hægt að sjá í öðrum bíóhúsum hér landi. ,,Við sýnum til dæmis heimildarmyndir, listrænar myndir, stuttmyndir og útskriftarmyndir. Bíó Paradís er eini vettvangurinn fyrir þannig sýningar. Þegar ég var unglingur þá var aðgengi að helstu perlum kvikmyndasögunnar og nýjustu myndunum af kvikmyndahátíðum, túbusjónvarpið og VHS spólan. Í gamla daga voru einhverjar vídjóleigur sem fólk gat farið á, leigt slíkar myndir og horft á þær með lélegu hljóði og myndgæðum. En með tilkomu Bíó Paradís fórum við að sýna þessar myndir í fullkomnum gæðum eins og á að horfa á þær. Nú hefur önnur kynslóð fengið aðgengi að þessum myndum í bíó sem var ekki sjálfsagt þegar ég var krakki. Ekki bara nýjustu listrænu myndirnar, heldur líka klassísku myndirnar. Ef Bíó Paradís hverfur á braut þá eru þessar myndir hvergi aðgengilegar. Ekki í kvikmyndahúsum, ekki á vídjóleigum og ekki heldur á VOD-inu,” en Bíó Paradís hefur sinnt því eftir sýningu mynda að texta þær og gefa svo út fyrir sjónvarp. ,,Ef við hættum að gera það þá verða þessar myndir ekkert aðgengilegar.” 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Hrönn segir bíóið ekki bara mikilvægt fyrir þá sem hafa áhuga á kvikmyndagerð og kvikmyndum, heldur er Bíó Paradís líka mikilvægur þáttur í menningarlæsi þjóðarinnar. ,,Þó við búum hér á hjara veraldar, landfræðilega einangruð, þá þurfum við ekki að vera algjörlega menningarlega og hugmyndafræðilega einangruð líka.” Hrönn heldur að þeir sem vilja vera hluti af menningarlífi heimsins hljóti að skynja að Bíó Paradís sé mikilvægur hlekkur í því. Á meðan Evrópubúar eiga auðveldara aðgengi að kvikmyndahátíðum og listrænum bíóhúsum á meginlandinu, þá er ekki sjálfsagt að stökkva í næstu flugvél til að geta séð Parasite í bíó. Bíó Paradís veitir Íslendingum aðgengi að kvikmyndum sem þeir hefðu annars ekki, og yrði mikill missir fyrir menningarlífið ef það hyrfi á brott.

PENNI: Sólrún Freyja Sen

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search