Gufusteiktir grænmetis-dumplings sem fá þig til að slefa

Það er fátt betra en að borða það góða máltíð að þú haldir í stutta stund að þú hafir dáið og farið til himna. Þessi uppskrift er ein af þeim máltíðum. Þessi uppskrift gaf mér 10 á öllum prófunum mínum. Þessi uppskrift læknaði bakvandamálin mín. Þessi uppskrift fékk mig jafnvel til þess að gleyma því í 10 sekúndur að jörðin er bókstaflega að deyja. Ekki láta þessa uppskrift fram hjá þér fara. Drífðu þig í eldhúsið og týndu þér í undralandi asískrar matargerðar. Afhverju? Af því þú átt það skilið.

Hráefni og aðferð

Deigið:

  • ca. 300g hveiti + eftir þörfum til þess að strá yfir
  • ½ teskeið salt
  • 150 ml af heitu vatni
  1. Blandaðu hveitinu og saltinu saman í skál. Bættu vatninu við, og hnoðaðu svo deigið í 3-5 mínútur þangað til það er orðið mjúkt og slétt. Settu deigið í skál og matarfilmu yfir, og láttu hefast inni í ískáp í 30 mínútur.
  2. Skiptu deiginu í tvo hluta, stráðu hveiti yfir borðið og flettu deigið út í u.þ.b. 2mm þykkt. 
  3. Notaðu glas (8cm í þvermál) til þess að skera út þunna hringi í deigið. Settu hveiti á milli hringja svo þeir límist ekki saman.

Fylling:

  • 1-2 matskeiðar sesamolía
  • 2 hvítlauksrif, kramin
  • 1 matskeið af engifer, kramið
  • 1 fínt skorinn laukur
  • 100g rifnar gulrætur
  • 200g fínt skornir sveppir
  • 60g fínt skorinn blaðlaukur
  • 200g rifið hvítkál
  • 2 matskeiðar sojasósa
  • 1 matskeið hrísgrjónaedik
  • Salt og pipar eftir þörfum
  • 1 teskeið sriracha sósa, valfrjálst
  1. Skerðu grænmetið í fína bita og hitaðu olíu á stórri pönnu. 
  2. Steiktu sveppina, laukinn og gulræturnar í 2-3 mínútur, þangað til grænmetið er orðið gulllitað. Bættu svo við blaðlauknum og hvítkálinu, ásamt salti og eldaðu það í 7-8 mínútur til viðbótar þar til grænmetið er orðið mjúkt. Hægt er að bæta við vatni ef þörf er á. Að lokum skaltu bæta við engiferinu, hvítlauknum og kryddi og elda í nokkrar mínútur í viðbót. 
  3. Kældu blönduna.
  4. Settu  u.þ.b. 1 teskeið af fyllingu í miðjan deighringinn. Bleyttu endana með vatni og brjóttu bitann saman. Passaðu að þú lokir hringnum alveg. (Ef þú kannt ekki að brjóta saman dumplings þá er um að gera að finna svoleiðis  kennslumyndband á Youtube). 

Endurtaktu leikinn þar til allt deigið er búið. 

Sósa: 

  • 3 matskeiðar sojasósa
  • 1 matskeið hrísgrjónaedik
  • 1 matskeið agavesýróp
  • ¼ teskeið sesamolía
  • ½ teskeið sriracha sósa, valfrjálst
  1. Hitaðu olíu á pönnu við miðlungshita. Bættu bitunum á pönnuna og steiktu þá í 2-3 mínútur, þar til botninn er orðinn fallega gullinn. Bættu þá við ¼ bolla af vatni á pönnuna og settu lok á hana. Leyfðu bitunum að sjóða í 7-8 mínútur þar til vatnið hefur gufað upp.

Penni: Jana Björg Þorvaldsdóttir

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search