Dreifing er hafin

Post-dreifing er hópur ungra listamanna í Reykjavík. Þau hafa það að markmiði sínu að auka sjálfbærni, sýnileika og samvinnu í listsköpun. Þetta er fyrsta félagið hér á landi sem hefur birst í þessari mynd og náð svona langt. Vonandi er þetta þó ekki það síðasta. Hreyfingin á rætur sínar að rekja aftur til desember mánaðar 2017 og hefur blómstrað síðan. Það er óhætt að segja að Post-dreifing er orðin partur af samfélagi reykvískra ungmenna í dag, en hvernig gerðist það?

Tekið var viðtal við Snæbjörn Jack, einn af stofnaðilum hreyfingarinnar. Hann sagði okkur frá sinni upplifun af stofnuninni. „Ég fékk símtal frá Aroni Bjarklind, vini mínum. Hann sagðist hafa kynnst strák sem heitir Atli Finnsson og þeir ætluðu að skapa list saman. Við fengum Atla í hlaðvarpið sem við Aron vorum með og þannig kynntumst við honum. Á þessum tíma var Atli að mynda mikið af tónlistartengingum. Hann var í listarými úti á Granda og ákvað að skella í stóra tónleika þar.“ Þetta voru tónleikarnir Lovely Great Time haldnir þann 16.desember árið 2017. Það voru 12 hljómsveitir sem komu fram þetta kvöld og á milli 100 og 130 tónleikagestir sem komu. Eftir þetta hittust nokkur þeirra ungmenna sem spiluðu á tónleikunum á kaffihúsi. Það var þá sem það var rætt fyrir alvöru að stofna einhverskonar kollektívu. „Eftir tónleikana sáum við hversu auðvelt þetta væri, hversu auðvelt það er að hringja í nokkra vini sína og láta eitthvað gerast,“ segir Snæbjörn.

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Snæbjörn segir að það sé engin ein leið til að komast inn í félagið. Krakkarnir mæla með því mæta á viðburði og að tala við þau, senda félaginu skilaboð á netinu og sýna almennan áhuga. Áhuginn og viljinn þarf að vera til staðar. 

Post-dreifing gagnast ekki bara ungum listarmönnum, heldur ungu fólki almennt. Ungmenni eiga ekki endilega efni á að mennta sig menningarlega né gerast menningarneytendur í samfélagi þar sem listsköpun er misbeitt sem tækifæri fyrir útgáfufyrirtæki til að græða. Kapítalískt módel getur ekki haldist í hendur við ríka og fjölbreytta tónlistarmenningu og menningarlíf. Þannig má segja að Post-dreifing séu hagsmunasamtök ungrar menningar, ekki einungis ungs listafólks. Með því að auka sjálfbærni og sýnileika fjölbreyttrar menningar, þá aukum við líka listaflóruna, tjáningu og frelsi. Þannig hefur Post-dreifing þróast úr því að vera vinahópur sem hjálpast að með list og allskyns viðburði í það að vera samfélag og skjól fyrir ungmenni í Reykjavík. 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Post-dreifing manifesto:

„post-dreifing er hópur af sjálfstæðu listafólki á stórreykjavíkursvæðinu, sem hefur það að markmiði að auka sýnileika og sjálfbærni í listsköpun í krafti samvinnu.
við afneitum eindregið markaðs- og gróðahyggju í vinnu okkar; við stefnum á að búa til vettvang fyrir sjálfstætt listafólk til að halda áfram að skapa, burtséð frá fjárhagslegri stöðu hvers og eins, og án hvers kyns gróðasjónarmiða.
við afneitum allri stigskiptingu og vinnum alltaf á jöfnum grundvelli innan post-dreifingar.
okkar lýðræði er ekki fulltrúalýðræði, þar sem meirihlutinn ræður, heldur raunverulegt lýðræði, þar sem allir hafa eitthvað að segja. 
við forðumst tilbrigðaleysi í listsköpun.
DREIFING ER HAFIN.“

PENNAR: Jana Björg Þorvaldsdóttir og Árni Dagur (sérstakar þakkir til Snæbjörns Jack, Post-dreifingar og Örnu Tryggvadóttur)

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search