Ert þú alltaf staurblankur? Viltu gera eitthvað í því? Hér eru tíu atriði sem þú getur byrjað á strax í dag!
- Ef þú virðist eyða öllum þínum fjármunum á netverslunum í hluti sem þú endar á að nota aldrei og sérð eitthvað sem þú virkilega verður að eignast, ekki kaupa það strax. Vistaðu linkinn og bíddu í viku. Ef þig langar ennþá í vöruna eftir þennan tíma, endilega keyptu hana! En oftast endar það þannig að þú fattar að þú virkilega hefur engin not fyrir hana
- Nýttu þér útsölur í nóvember og desember til að versla gjafir út allt árið!
- Stofnaðu lokaðan reikning hjá bankanum þínum og leggðu inn ákveðin hluta af laununum þínum inn á þennan reikning. Þetta er frábær valkostur ef þú ert að safna þér fyrir einhverju ákveðnu eins og t.d bíl eða utanlandsferð (kynntu þér einnig viðbótarlífeyrissparnað og séreignarsparnað).
- Fara mánaðarlaunin öll í skyndibita? Lærðu að elda! Þú getur bakað rúmlega 5 pizzur fyrir sama verð og að kaupa þér eina á dominos! Fáðu vini þína með þér og gerið það að skemmtilegu hópefli. Ekki að minnast á það að heimalagaður matur er langbestur.
- Geymdu allar einnota flöskur og dósir og farðu með í sorpu! Fín leið til þess að redda sér nokkrum aukakrónum!
- Framhald á fyrra ráði: Nestaðu þig í skólan! Hentu í djúsí samlokur kvöldið áður og gríptu með þér um morguninn eða taktu með þér leifar af kvöldmatnum og hitaðu upp í hádeginu
- Frosinn matur endist endalaust! Þú getur keypt brauð, álegg og kjöt á síðasta séns og geymt í frysti. Eins er óopnuð matvara sjaldan orðin slæm þó hún sé orðin ,,útrunninn” notaðu nefið og dómgreindina!
- Ertu svangur og nennir ekki að elda? Kíktu í heimsókn til ömmu! Hún á pottþétt eitthvað að borða fyrir þig og eins verður hún örugglega himinlifandi að fá að sjá þig.
- Djammið gefur en djammið tekur líka. Það er miklu ódýrara að djamma í heimapartýum heldur en niðri í bæ. Gakktu þó hægt gegnum gleðinnar dyr!
- Fer allur peningurinn í bensín? Fjárfestu í góðu hjóli, eða fáðu gefins hjá einhverjum sem er hættur að nota sitt. Gott fyrir heilsuna, umhverfið og budduna!
Penni: Ingveldur Samúelsdóttir