Í lýðháskóla í Noregi

Hekla María Arnardóttir, var svo heppilega til á landinu í nokkurs konar miðannarfríi og datt höfundi greinarinnar í hug að ná viðtali við hana áður en hún færi aftur til Noregs. Hún er í skólanum Folkehøgskolen 69° Nord (ísl. Lýðháskólinn 69 gráður norður) sem hann heitir það vegna þess að hann er staðsettur á 69. breiddargráðu. Sá skóli sérhæfir sig í útivist, siglingum og fjallgöngum.

Hvað fékk þig til að fara í lýðháskóla?

Mig langaði að taka mér ár í pásu og einbeita mér að sjálfri mér, ekki að vera að hafa áhyggjur af næsta verkefni eða lokaprófi. Ég hef alltaf haft áhuga á því að fara í lýðháskóla og að fá að einbeita mér að mínu helsta áhugamáli, útivist, í heilan vetur. Svo fann ég þennan skóla og ég hugsaði að þetta er akkúrat málið.

Hvernig var fyrsta vikan/dagurinn?

Það var alveg smá erfitt. Ég grenjaði aðeins fyrsta kvöldið því það var svo erfitt ferðalagið út. Ég missti af fluginu mínu og annað flugið féll niður svo fyrstu dagarnir á leiðinni þangað voru erfiðir. Ég hugsaði alltaf „Þetta er að verða búið, Þetta er að verða búið“ en þegar ég kom í skólann fattaði ég að þetta var bara rétt að byrja. Það var erfitt en

Hvernig er námið?

Okkur var dáldið hent út í djúpu laugina. Það er mikið af sameiginlegum ferðum hjá öllum brautunum. Það er mikið um léttar dagsferðir upp á fjöll hjá bara minni braut. Í annarri vikunni var fimm daga siglingaferð á seglbáti. Ég er mjög stolt að segja frá því að ég var sjóveik alla leiðina.

Þetta er byggt upp þannig að það fer ein vika í að undirbúa ferð og svo er næsta vika ferðin sjálf. Þá ertu úti í náttúrunni nokkra daga vikunnar og hina vikuna ertu að undirbúa á milli þess að vera í stuttum dagsferðum. Það er sex daga vika og frí á sunnudögum og við erum búin um 2 eða 3 um daginn. Oftast er einhver kvöldvaka eða eitthvað prógramm eftir kvöldmat. Við skipuleggjum líka spilakvöld eða bíómyndir.

Hvaða brautir eru í boði?

Það er 3 brautir. Ég er á skíða- og siglingabraut, þar sem við erum mikið að skíða og sigla. Svo eru hundasleða- og útivistarbraut og útivistarbraut en hún er bara fyrir harðhausa. Þau taka ekki með sér prímus eða neitt í útilegu, heldur höggva þau greinar í eldivið og búa til bál. Þau nota ekki einu sinni eldspýtur heldur tinnu. Ég stakk upp á að nota kveikjara í fyrstu ferðinni og það var ekki tekið vel í það.  

Er þetta mjög alþjóðlegur skóli? Hvernig er aldurinn og hvað eruð þið mörg?

Nei, þetta eru mest Norðmenn, svo ég og tveir Danir. Það eru líka nokkrir aðstoðarkennarar, ein af þeim er frá Svíþjóð en hin er frá Frakklandi. Langflestir 02 (nýbúin með menntaskóla) en nokkur aðeins eldri eða yngri. Mjög margir fara þangað eftir að hafa verið í norska hernum. Við nemarnir erum svona 30 til 40. Við búum nokkur saman í litlum húsum, mitt hús er það stærsta með níu manns.

Ertu með herbergisfélaga? Hvernig er að búa þarna?

Ég er með herbergisfélaga en þú getur verið einn í herbergi og borgað meira. Við erum níu saman í einhvers konar sumarbústað. Eiginlega nákvæmlega eins og þú myndir ímynda þér íslenskan sumarbústað. Svo sjáum við um að þrífa húsið tvisvar í viku og svo erum við í mat í mötuneyti í skólanum.

Hvernig er að búa með níu manns?

Það er ótrúlega skemmtilegt. Það er alltaf eitthvað í gangi í húsinu, alltaf einhver að baka eða elda eða gera eitthvað. Fyrstu vikurnar vorum við svolítið út af fyrir okkur út af COVID-reglum  svo við vorum bara saman að spila og horfa á bíómyndum. Það verður samt alveg þreytandi að deila baðherbergi og þvottahúsi með átta öðrum.

Hvernig var með COVID og COVID-reglurnar?

 Það var allt mjög strangt fyrstu vikurnar. Þá var hvert hús eins og sitt eigið sóttvarnarhólf. En eftir það er allur skólinn orðinn eitt sóttvarnarhólf. Og svo erum við í pínulitlum bæ, það eru nánast engar líkur á að það komi upp smit í bænum og enn síður í skólanum.

Er eitthvað annað sem þú vilt að komi fram?

Aðstoðarkennarar eða kennaranemar (e. teachers assistants) eru rosa flott konsept. Það er þannig staða í öllum lýðháskólum í Noregi og spila sérstaklega stórt hlutverk hérna. Þetta eru nemendur sem hafa verið þar áður en koma svo aftur sem nokkurs konar kennarar. Það er einn aðstoðarkennari á hverri braut, svo einn fyrir allar brautirnar, einn sem sér um hundana og einn sem sér um alla samfélagsmiðla. Þeir eru þarna til að halda uppi móralnum og passa að öllum líði vel og að enginn sé útundan. Það er ótrúlegt hvað það hjálpar, það hafa ekki myndast neinar klíkur og allir geta verið með öllum. Þeir passa upp á að stemningin sé svona góð.

 Penni: Elís Þór Traustason

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search