„Það er kominn tími til þess að láta hvítu fólki líða óþægilega.“

Fyrir nokkur mánuðum stofnuðu 5 svartar stelpur instagram síðu í því skyni að fræða íslensku þjóðina um rasisma á íslandi. Við hjá framhaldsskólablaðinu tókum stutt viðtal við þær Johönnu Haile, Valgerði, Önnu Maríu og Kristínu. Einnig með þeim í umsjón á síðunni er hún Tamara.

Stelpurnar eru með um 4000 fylgjendur á Instagram og eru langflestir fylgjendur þeirra á aldrinum 18-24.  Þær segja síðuna ganga vel og að þær finni fyrir ágætlega miklum meðbyr, sérstaklega þá frá öðrum minnihlutahópum.

Þegar þær voru spurðar um kynþáttafordóma í framhaldsskólum var ljóst að það er töluvert mikið af þeim. „Það hefur verið sagt N-orðið svona 1000 sinnum í bekknum mínum og kennarar kannski taka ekkert endilega eftir því.“ Þeim finnst óþægilegt hversu mikið kennarar nota n-orðið og nefndu þær bókina To Kill a Mockingbird, þar sem n-orðið er mikið notað. „Kennararnir taka því bara sem daglegt brauð og segja n-orðið hægri vinstri og það er ekkert gert í því.“ Eitt sinn hafði ein þeirra farið til kennarans og beðið hann um að segja ekki þetta orð og þá hafi hann brugðist við með því að reyna að réttlæta notkun sína á því og snúa út úr, í stað þess að hætta bara að segja orðið. Þær sögðu hvíta samnemendur þurfa að taka meiri ábyrgð og krefjast breytinga. „Þegar skólafélagar heyra þetta, þá er ekki það fyrsta sem þeir eiga að gera að snúa til okkar og vera eitthvað; hey, þessi kennari sagði n-orðið, heldur frekar að hugsa, okei ég veit að þetta er rangt þannig ég ætla að segja eitthvað.“ Þannig geti þeir sýnt að þeir séu hvítir bandamenn. „Það þarf að gera sér grein fyrir að þetta sé vandamál og það þarf að tala um þetta, ekki bara segja hluti eins og „hann vissi ekki betur.“ Þær segja vanta að fleiri nemendur setji pressu á kennara og skólastjórnendur til þess að eitthvað breytist, það sé ekki nóg að það séu bara 5 svartar stelpur að segja eitthvað. „Hvítir bandamenn verða að stíga upp og nýta forréttindin sem þeir hafa, þeir þurfa að standa með minnihlutahópum innan skólans, ekki bara pósta á instagram af því það hentar þeim. Um leið og eitthvað er utan þægindarammans, þá er fólk ekki tilbúið að berjast.“ Þær sögðu það pirra sig mikið þegar hvítir segja það vera þreytandi að berjast, þær séu búnar að berjast í 15 til 18 ár. Það sé svo létt að segja bara við kennarann, „hey þetta er ekki í lagi það sem þú varst að segja núna.“

Þær sögðu eldri kynslóðir ekki vera með meiri fordóma en að sú kynslóð sé samt ekki jafn falin og að rasisminn komi skýrt fram þar á meðan yngri kynslóðin sé meira að segja brandara eða t.d. fikta í hári þeirra. „Fólk ber líka enga virðingu fyrir hárinu mínu, það er svo oft sem hvítir einstaklingar koma upp að okkur og snerta hárið. Það er eins og maður sé einhver dýragarður. Hári mínu hefur bókstaflega verið líkt við kind.“

Svo bæta þær við varðandi kennara að það sé óþægilegt þegar þeir nýti sér valdastöðu sína. „Það er svo oft sem þeir nýta sér sína stöðu til þess að t.d. vera að snerta hárið okkar.“ Kennarar tali oft við þær barnalega eins og þær tali ekki íslensku. „Það er ógeðslega erfitt að svara fyrir sig þegar þessi manneskja gefur manni einkunnir og eiginlega sér um framtíðina manns og maður þarf oft bara að taka þessu því þær hafa svo mikil áhrif á líf okkar.“ Kennarar þurfi að líta í sinn eigin barm og passa sig, þeir séu í forréttinda stöðu, bæði út af kynþætti og starfi.

Það sem komi líka í veg fyrir að þær svari fyrir sér er staðalímyndin að svartar stelpur séu alltaf reiðar. „Það er svo erfitt fyrir okkur að við þurfum alltaf að passa okkur og passa það sem við segjum af því við megum ekki hljóma of reiðar, af því að þá erum við komnar inn í staðalímyndina og þá geta þau notað hana gegn okkur.“ Þegar þær segi eitthvað séu þær reiðar en þegar hvítir segja eitthvað þá séu þeir ástríðufullir. Þetta komi í veg fyrir að þeirra upplifanir séu teknar gildar. Þær sögðu kennara oftast taka hlið hvítra stelpna, það sé litið á þær sem fórnarlambið en á meðan það sé oftast litið á svartar stelpur sem árásaraðilann. 

Þær nefna einnig salsa ball Fjölbrautaskólans í Garðabæ. „Þarna er fólk að setja á sig tonn af brúnkukremi, fara í ljós, og dressa sig upp sem Mexíkanar. Þessi staðalímynd er ótrúlega leiðinleg og þegar maður kíkir á myndir af þessu balli þá er fólk með sama hörundslit og ég, og það er alveg hægt að skemmta sér á balli án þess að láta eins og maður sé annar kynþáttur en maður er. Það ætti að vera löngu búið að sniðganga þetta ball. Fordómarnir sem við höfum gengið í gegnum er ekki eitthvað sem þú getur klætt þig upp sem fyrir eitthvað ball. FG ætti að hætta með þetta ball. Svona böll koma aldrei vel út, það er allt í lagi að hafa tropical þema en ekki fara að leika eitthvað þjóðerni eða kynþátt. Hafið bara rave ball eða eitthvað í staðinn.“

“Skilaboð okkar til þeirra sem telja sig vera hvítir bandamenn eru þessi: að baráttan sé meðal annars að mynda samtal um rasisma og að mikilvægt sé að lyfta röddum minnihlutahópa. Er það aðalhlutverk þeirra, að hlusta á þær og beita skilaboðum okkar í daglegu lífi enda er það eitt stærsta sem manneskja getur gert til að spyrna gegn rasisma. Það er eins og við höfum enga rödd og það ógildir upplifanir okkar þegar sagt er að það sé enginn rasismi á Íslandi. Það þarf að skapast umræða og það er kominn tími til þess að láta hvítu fólki líða óþægilega.“

María Árnadóttir | Neminn.is Anna
María Árnadóttir | Neminn.is Jóhanna
María Árnadóttir | Neminn.is Kirstín
María Árnadóttir | Neminn.is Valgerður

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search