Bifrastarglampinn

Viðtal við Margréti Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst

Þegar nýútskrifaðir framhaldsskólanemar taka af sér húfuna og skima í kringum sig í leit að réttum skóla finnst þeim kannski ekki margt í boði. Mörgum dettur líklega aðeins í hug Háskóli Íslands eða Háskólinn í Reykjavík. En það er mikið og fjölbreytt úrval háskóla, þar á meðal einn framsæknasti atvinnuháskóli landsins, Háskólinn á Bifröst. 

Margrét er vel þekkt af mörgum framhaldsskólanemendum fyrir Mundo, ferðaskrifstofan sem sérhæfir sig í skiptinámi og hefur haldið uppi árlegum spænskusumarbúðum fyrir ungmenni. Margrét er nú rektor Háskólans á Bifröst. 

Hver er saga Háskólans á Bifröst?

Hún byrjar árið 1918 og hann stofnaður 1. desember, á sjálfan fullveldisdaginn. Maðurinn bak við stofnun skólans var enginn annar en Jónas frá Hriflu, einn litríkasti stjórnmálamaður sem Framsóknarflokkurinn hefur átt, skaphundur og þá menntamálaráðherra. Stefna Jónasar var að gera menntun aðgengilega alþýðunni og að allir hefðu sama rétt til menntunar. Fólk á landsbyggðinni átti erfitt með að komast í skóla og þegar það fór að heiman í nám snéri það jafnvel ekki heim aftur. Jónas vildi stofna skóla út á landi. Skólinn var samt fyrst um sinn við Sölvhólsgötu í húsinu þar sem menntamálaráðuneytið er nú og var nátengdur ráðuneytinu. Skólanum var alltaf ætlaðað vera skóli fyrir verslunareigendur og fólk sem vildu reka litlar búðir og fyrirtæki. Skólinn var fluttur í Norðurárdal í Borgarfirði árið 1955 þar sem hann stendur í dag. 

Hvað er það helsta sem hægt er að læra á Bifröst?

Í skólanum eru kenndar margar nytsamlegar greinar eins og t.d. lögfræði og hagfræði. Svo erum við með nám sem er mjög vinsælt hjá ungu fólki og er ekki í boði við annan háskóla á Íslandi. Þetta nám kallast HHS sem stendur fyrir hagfræði, heimspeki og  stjórnmálafræði. Þetta er frábært nám fyrir leiðtoga og fólk sem ætlar sér í pólitík. Auk þess eru margir 19 ára unglingar sem útskrifast úr menntaskóla og vita ekkert hvað þau ætla að gera. Þau geta komið til okkar í samfélagsmiðlun eða markaðsfræði. Það þurfa allir að kunna það í heiminum eins og hann er í dag svo það getur einfaldlega ekki klikkað. Við bjóðum líka upp á sérstaklega skemmtilega námsleið sem heitir Skapandi greinar. Það er diplóma-nám þar sem nemendur vinna að tilteknu verkefni, t.d. skrifa bók, stofna fyrirtæki eða hanna app. Það er þá verkefnið þann veturinn og nemendur fá hjálp kennaranna til að gera hugmynd sína að veruleika. 

Hvernig er með fjarnám?

Það kom í ljós í faraldrinum að Bifröst var eini Covid-klári skólinn. Þarna voru kennarar sem kunnu á þetta og vildu kenna svona. Það breytir miklu í fjarnámi. 

Í Bifröst kemur námið til þín, ekki öfugt. Þú getur hlustað á fyrirlestrana eftir vinnu eða hvenær sem þér hentar. Svo eru nokkrar vinnuhelgar á hverri önn þar sem þú mætir upp í Norðurárdal. Námið sjálft er svo byggt upp af Teams-fundum, fyrirlestrum, myndböndum, umræðuþráðum og fleiru. Á hverri önn eru tvær lotur á önn, hvor lota er í sex vikur, auk námsmatsvikunnar sem er sú sjöunda. Oft eru fundir í byrjun og lok lotu, með fyrirlestrum og slíku á milli. 

Þetta er líka mjög gott fyrir umhverfið, þar sem lítið þarf að ferðast eða að koma sér á staðinn. 

Hvernig er með staðnám?

Þau sem vilja geta búið í mjög ódýru húsnæði hér á Bifröst. Eftir sem áður er um að ræða en búseta á Bifröst býður samt upp á meira návígi auk þess sem staðsetningin hér í Norðurárdal í Borgarfirði er alveg stórkostleg. Ég segi að þetta sé fallegasta svæði landsins. Og svo er tilvalið að skella sér í fjallgöngu og hlusta á einn fyrirlestur á meðan. 

Hvernig er félagslífið á staðnum?

Það er heilmikið félagslíf í skólanum. Nemendaaðstaðan er einstaklega flott og það er mjög góð samheldni meðal nemenda. Það er alltaf sagt að fólk fái þennan Bifrastarglampa í augun. Þá sér maður ljóma á andlitum nemenda, það eru allir svo ánægðir. Skólalífið er allt mjög persónulegt, maður er ekki bara kennitala á blaði í risastóru batteríi. 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search