Hvað merkja gráðurnar í háskólum?

Penni: Elís Þór Traustason

Ég fór að velta fyrir mér háskólanámi fyrir ári síðan. Meðan ég skoðaði áfangana rakst ég á alls konar skammstafanir, heiti og merkingar sem ég kannaðist við en skildi ekki, t.d. diplóma, B.A., Ph.D., M.B.A., bachelor og M.Ed. Smám saman tókst mér að púsla saman kerfinu með því að lesa mér til og spyrjast fyrir um. Ég er viss um að fleiri hafi lent í svipaðri stöðu og þess vegna langaði mig að setja upp einn laufléttan leiðarvísi fyrir þá sem eru að velta fyrir sér háskólanum. Þetta gildir samt aðallega um nám við íslenska skóla og er sérstaklega miðað við HÍ og HR.  

Hvað merkja þessar skammstafanir?

Í afar stuttu máli má setja upp helstu skammstafanirnar á þennan hátt. 

Helstu prófgráðurnar:

B.=bachelor/bakkalársnám

M.=Master/meistaranám

Ph.D.= doktorsnám

Helstu svið:

A.=arts 

S.=sciences

Ed.=education 

Fyrri stafurinn er prófgráðan (hér B. eða M.) og seinni fyrir námssvið (hér A., S. eða Ed.). Arts stendur samt venjulega inn fyrir hugvísindi og sciences fyrir raunvísindi, sem er í raun og veru skipting úr latínu (artes, scientiae) og var notuð um þessi tvö svið. Þá eru bókmenntir og lögfræði B.A. eða M.A. gráður en verkfræði B.S. eða M.S. Hins vegar stendur Ed. fyrir menntavísindi, þ.e. nám til þess að verða kennari. Til að kenna í framhaldsskóla þarf t.d. M.Ed. gráðu. Það eru samt til fleiri skammstafanir sem falla ekki í kerfið fyrir ofan, t.d. M.B.A. fyrir master of business administration. Diplómur og Ph.D. standa sér og námsvið gráðunnar oftast ekki tekið fram.

Hvað er B-gráða?

B-gráða, stundum kallaðar bachelor eða bakkalár, telst vera grunnnámið í háskólanum. Yfirleitt þarf að klára B-nám áður en  haldið er áfram í námi. Á Íslandi er B-nám í að minnsta kosti þrjú ár (180 einingar) en getur verið lengra í öðrum löndum. Venjulega er B-nám 180 einingar í sama fagi en stundum er hægt að taka 120 einingar í aðalvali og 60 einingar í aukavali, t.d. 120 einingar í lögfræði og 60 alþjóðasamskiptum. Oft þarf að skrifa bakkalársritgerð í lok námsins. 

Hvað er M-gráða?

M-gráða, stundum kallað master eða meistari, telst vera almennt framhaldsnám. Oft eru inntökuskilyrðin þau að það þurfi að klára B-nám í svipuðu fagi til að fara í M-námið. M-nám býður oft upp á meiri sérhæfingu. Það er yfirleitt styttra, um tvö ár (120 einingar) í stað þriggja. Náminu lýkur yfirleitt með meistararitgerð. 

Hvað er Ph.D. nám?

Ph.D. nám, betur þekkt sem doktorsgráða, er efsta stig prófgráðu. Það getur tekið mörg ár að taka doktorsnám sem krefst þess oft að nemandinn taki að sér rannsóknarverk. Doktorsritgerðir þarf líka að verja í sérstakri athöfn fyrir dómnefnd. 

Hvað er diplómanám?

Diplómanám er oftast hagkvæmt viðbótarnám sem er auðvelt að taka með vinnu/námi. Yfirleitt aðeins 30-60 einingar. Diplómur eru sjaldan mjög fræðilegar heldur ætlaðar til þess að fólk öðlist ákveðna þekkingu og hæfni sem mun nýtast því seinna í starfi.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search