Penni: Embla Waage 


Það eina sem veitir manni lífsvilja er að gera lítið úr fólki sem þú eitt sinn varst. Lítil börn? Fávitar sem ekkert geta gert. Á meðan er fátt sterkari sameiningartákn fullorðinna einstaklinga en að hneykslast á ungmennum. Það er fyrirbæri sem þekkir engin trúarbrögð, kynþætti eða pólitískar skoðanir. Sannarlega byggir þessi alþjóðlegi menningarviðburður á einhverjum rökum. Margir halda því jafnvel fram að ungmenni eigi þessi hallmæli skilið. Helstu kennimerki ungmennanna eru skapsveiflur, leti og höfnun aðstoðar forráðamanna sinna. Þessu er gjarnan lýst sem “unglingaveiki”; uppspunnið hugtak fyrir erfiða hegðun. Að sjálfsögðu eru þetta veikindi sem ungmennin vaxa hratt upp úr. En hvað gerist þegar hegðunin verður varanleg?

Unglingaveikin:

“Hvergi í sjúkdómkerfinu finnst sjúkdómurinn Unglingaveiki en er hann engu að síður oft notaður til að útskýra hegðun eða líðan ungmenna á kynþroska- og unglingsaldri (Guðmundsdóttir, Jónína. “Unglingaveikin.” Velferð, 10 Des. 2018)” Margar breytingar eiga sér stað á táningsárunum og er því ósköp venjulegt að ungmenni sýni áður óþekktar hliðar á sér. Það eitt og sér að unglingurinn taki slæmar ákvarðanir, sofi mikið og upplifi sterkar tilfinningar er ekki áhyggjuefni. Ennisblaðið (sem stýrir ákvarðanatöku) er ekki tengt við restina af heilanum jafn vel og síðar á ævinni. Það skýrir því áhættusama hegðun ungmenna. Auk þess er líkamlega klukkan stillt öðruvísi og þvingar ungmennin í hálfgert svefnleysis ástand. Ef fylgt yrði þessarri klukku svæfu flest ungmennin frá eitt á nóttu til tíu á morgnanna. Breytingar á andlegu og líkamlegu ástandi unglingsins væri nóg útskýring fyrir þessari hegðun. Það mætti trúa því, að með þessar upplýsingar í huga, mætti loksins láta orðstír ungmenna vera. Svo virðist ekki. Sem fyrrverandi meðlimur þeirra sem ekki bera virðingu fyrir unglingum og núverandi ungmenni; biðst ég formlega afsökunar. Öll högum við okkur kjánlega á þessum árum. Það er nauðsynlegt að rekast á veggi og læra hvar mörkin liggja.

Vandamálið við þetta er að mörg alvarleg ummerki fara framhjá fólki. Þau eru einfaldlega túlkuð sem “unglingaveiki”. Ef fullorðinn einstaklingur einangrar sig frá fólki og virðist gera lítið annað en að sofa mun fólk hafa áhyggjur af þeim. Ungmenni sem gerir hið sama gæti verið að glíma við alvarleg vandamál. En hvernig getur maður þekkt muninn á eðlilegum sveiflum unglinga og alvarlegra veikinda? 

Skapsveiflur:

Eins og áður hefur komið fram; eru skapsveiflur mjög eðlilegur hluti þess að verða fullmótaður einstaklingur. Oft verða táningar pirraðir, reiðir eða komast í uppnám yfir minnstu hlutum. Þetta getur skapað spennuþrungið andrúmsloft á heimilinu. Auk þess að vera afar algengt fyrirbæri sem skrifast auðveldlega á hórmónabreytingar ungmenna gæti verið að sannleikskorn fyrirfinnist í orðum táningsins. Einfalt er að skrifa öll rifrildi á ungmennið. Þótt möguleiki sé að þú ættir að líta í eigin barm. Oft er unglingurinn að leita að sérstökum viðbrögðum eða orðum fá forráðamönnum sem honum vantar. Heilbrigð samskipti eru afgerandi hluti í bata “unglingaveikinnar”. 

Hvað telst þá ekki eðlileg hegðun? Hvenær þarf að leita til aðstoðar fyrir hegðunarvanda? Margt getur bent á slæmt andlegt ástand. Ef ungmennið síendurtekið ræður ekki við fullkomlega eðlilegar aðstæður gæti hann átt við vandamál að stríða. Það er, að hann verður óhemju reiður, kvíðinn eða æstur við daglegar athafnir. Þetta er atriði sem hægt er að túlka mismunandi. Oft er hægt að sjá hvort þetta sé einmitt tilfellið ef skapsveiflurnar versna með hverju skipti. Það fer að hindra ungmennið í daglegum samskiptum og athöfnum. Auk þess þarf að fylgjast vel með hvernig hann bregst við í streituvaldandi aðstæðum. Ef hegðunin er ofsafengin eða jafnvel ofbeldisfull er mjög mikilvægt að leita sér aðstoðar. Hvernig tæklað er vandan á unglingsárunum gæti haft gríðarleg afköst til frambúðar.

Heiðarleiki:

Á þessum árum fer einkalíf unglingsins að segja til sín. Mögulega fá forráðamenn færri upplýsingar um tengsl táningsins við félaga sína. Hann fer jafnvel að taka ákvarðanir án þess að ráðfæra sig við fullorðinn einstakling fyrst. Að veita ungmenni ráðrúm og virðingu hjálpar þeim að treysta þér. Alls ekki hnýsast um eigur og einkalíf; það hrindir unglingnum enn lengra frá þér.

Sumir taka þó “einkalífið” of langt. Einstaklingur fer að fela áhættusama hegðun eins og vímuefnaneyslu, hraðakstur eða endurtekin lögbrot. Í þessum aðstæður hefur eitthvað gengið úrskeiðis. Mikilvægt er að finna rótina á þessum vanda.

Námsgeta:

Mikið álag er sett á unga nemendur. Margir upplifa kvíða fyrir prófum eða kynningum. Þessar tilfinningar geta verið afar óþægilegar fyrir nemandan og er því mikilvægt að gera ekki lítið úr þeim. Margir tengja jafnvel sjálfsmynd sína við einkunnir og umsagnir. Það liggur margt á veði í huga margra. Aðrir hafa lítinn áhuga á námi yfirhöfuð. Þeim finnst fögin bæði gagnslaus og leiðinleg. Helst ættu þessar tilfinningar ekki að hamla nemendum í námi eða í öðrum sviðum lífs síns. 

Um leið og námserfiðleikar halda nemendum vöku á nóttinni eða hræðir þau frá námi er vafalaust að um sé að ræða vandamál. Fyrst og fremst á skólakerfið að bjóða upp á tækifæri og kunnáttu til námsmanna. Ef nemandi upplifir kennsluna öðruvísi getur verið gott að upplýsa skólastjórn um vandan. Nú, eða leita til sálfræðings.

Félagslíf:

Á einni nóttu verða fullorðnir leiðinlegir; þetta er staðreynd. Ungmenni hefur ákveðið að samþyki jafnaldra skiptir meiri máli en samvera með forráðarmönnum. Þetta er mikilvægt í félagsþroska ungmenna. Því er eðlilegt að táningar fái að njóta lífsins með vinum og vandamönnum sem gera líf þeirra bjartari. Ungmenni sem einangrar sig til lengri tíma er því oft að stríða við vandamál. Rétt eins og ungmenni sem ekkert sést til heima þarf frekari jarðbindingu.

Aðstoð:

Ef þú telur þig eða nærkomið ungmenni glíma við eitthvað stærra en “unglingaveiki” skaltu ekki hika við að leita aðstoðar. En hvar? Hvernig? Eftirfarandi eru dæmi um úrræði sem bjóða upp á aðstoð. Þó finnast að sjálfsögðu mörg önnur.

Rauði krossinn býður upp á hjálparsímann 1717 sem alltaf er opinn öllum. Þar er hægt að ræða um nánast hvað sem er: andleg veikindi, ofbeldi, önnur heilsufarsleg vandamál og margt fleira. Auk þess býður félagið upp á netspjall. Hvort tveggja er nafnlaust. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á raudikrossinn.is.

Bergið er stuðnings- og ráðgjafasetur sem býður upp á alls konar fræðslu og ráðgjöf. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á bergid.is.

Heilsugæslan í þínu hverfi býður einnig upp á ýmsa þjónustu. Þar er hægt að nálgast aðstoð við heilsufarslegum vandamálum og fjölskylduvernd.

Unglingsárin eru jafn fjölbreytt á milli manna og þau eru mörg. Því borgar sig ekkert að bera sín ár við annarra. Reynum af bestu getu að sýna hvert öðru skilning og vera vakandi fyrir ummerkjum veikinda. Þó er þessi lína oft loðin. Eina verkefni ungmennis er að vaxa úr grasi og öðlast skilning á sig sjálft og aðra. Þetta er nánast ógerlegt ef einstaklingur fær ekki aðstoðina sem hann þarfnast. 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search