Penni: Embla Waage

Öll eigum við það sameiginlegt að eiga stundum vandræðinleg samskipti. Ekkert getur stöðvað þögnina sem fylgir eftir örstuttum samtölum um kulda herbergisins og þreytuna sem verulega er farin að láta sjá sig. Þetta er það sem aðgreinir kunningja og vini. Umræðuefnin klárast hraðar en sleip sápa rennur niður stigann. Þó finnast bjargvættir á þessum grimmu, myrku dögum. Bjargvættir sem fela sig í skuggunum en valda endanlega sólarupprásinni. Þetta eru verur sem vekja hatur og viðbjóð. Þetta eru kennararnir sem koma illa fram við nemendur.

Þótt sumir þeirra neiti að svara spurningum nemanda og draga þá niður um fjörtíu augastig á prófi, skapa þeir skemmtilegar umræður. Að vísu varstu opinberlega niðurlægður fyrir þann glæp að geispa í tíma. Eftir það hélst þú að engin maður yrði svo óvitur að láta sjá sig þér við hlið. Einn bekkjarfélagi þinn horfði furðulega á þig. Þú horfðir skömmustulega á námsbókina, sú sem er hulin tárum. Hann snýr sér að þér. Hann opnar munninn og hvíslar að þér: ,,Jesús, sú er í vondu skapi.“ Þín innri sál dansar gleðidans. Í þessari viðbjóðslegu þolraun fannstu svarið. Svarið við öllum þínum vanda tengdum kunningjum. Þú munt aldrei framar þurfa að mæta í stuttermabol í þeim eina tilgangi að tala um hve kalt þér er. Loksins getur þú talað um hið augljósa; að kennari þinn sé ömurlegur.

Í þessu dæmi má glöggt sjá kosti þess að eiga skelfilega kennara. Þótt gallarnir séu að sjálfsögðu enn til staðar. Þekktar aukaverkanir þess að eiga slæma kennara eru til dæmis:

  1. Ekkert sem þú gerir er nóg. Þú reynir og rembist síendurtekið en færð aldrei viðurkenninguna sem þú þráir svo heitt. Þetta minnir þig á fortíðarsambönd við fólk sem þú reynir helst ekki að hugsa um.
  2. Þú segir hluti sem eru of dónalegir til þess að setja á blað. Kennari þinn er pirrandi, ekki Satan endurfæddur. Hann á ekki skilið að þú kallar hann herfu.
  3. Á einhverjum tímapunkti gefstu upp á náminu. Metnaður þinn leysist upp í hvert skipti sem prófið samanstendur einungis af orðaleikjum.

Þrátt fyrir þessu smávægilegu ókosti skapa slæmir kennarar mörg tækifæri. Það fyrirfinnast fjölmörg tækifæri þar sem góðlátlegt einelti er meira en velkomið. Hvernig hefðir þú kynnst Smára ef kennari ykkar hefði ekki haldið ykkur fimm mínútur eftir tímann? Þökk sé hvatvísri hatursræðu getur þú nú rætt um körfubolta við bekkjarfélaga þinn. Því þótt slæmir kennarar geti hrellt ykkur í eftirlífinu, geta þeir sameinað heilu samfélögin.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search