„Við þurfum að vera til staðar fyrir börn sem eru beitt ofbeldi”

Eflaust hafa flestir heyrt um Instagram síðuna „Fávitar”. Markmið síðunnar er að fræða og vinna gegn kynferðisofbeldi, stafrænu og annars konar ofbeldi. Sólborg Guðbrandsdóttir, stofnandi síðunnar, hefur lagt mikla vinnu í að fræða fólk á öllum aldri, bæði á síðunni sinni og með fyrirlestrum fyrir alla sem hafa áhuga. Sólborg byrjaði með Fávita síðuna árið 2016 og þar ræðir hún meðal annars um samþykki, ofbeldi, kynlíf og fjölbreytileika.

Fyrrum grunnskólakennari hennar kom upprunalega með hugmynd til hennar að setja af stað Instagram síðu sem varpaði ljósi á hversu mikil kynferðisleg áreitini ætti sér stað á netinu.  „Við fórum saman af stað með þetta og vildum fræða fólk um kynferðisofeldi, þar sem normalíseringin á kynferðislegri áreitni á netinu var rosalega mikil,” sagði Sólborg. Sólborgu finnst miklivægt að tala um þessi málefni því að hennar mati varða þau okkur öll á einn hátt eða annan. „Við þurfum ekkert endilega öll að tala um þessa hluti en það er mikilvægt að við hlustum á þau sem vilja eða þurfa að tala um þessi málefni.” 

Ein af megin málefnunum sem Sólborg berst fyrir er femínismi. „Femínismi snýst um að styðja jafnrétti kynjanna og reyna að gera það sem maður getur til að tryggja það að umhverfið manns sé femínískt,” svaraði Sólborg þegar hún var spurð að því hvað femínismi væri fyrir henni.

Sólborgu finnst mikilvægt að geta verið aðili sem fólk getur leitað til. Hún segir svo rosalega margar spurningar brenna á ungu fólki um öll þessi málefni og það skipti máli að það sé einhver tilbúin að reyna að svara þeim, hvort sem það sé hún eða einhver annar. „Það skiptir máli að fólk geti deilt svona erfiðri lífsreynslu með einhverjum sem er tilbúinn að hlusta.” Sólborg fær endalaust af skilaboðum dagsdaglega. Þau eftirminnilegustu skilaboð sem Sólborg hefur fengið í gegnum Fávita síðuna sína voru frá ellefu ára stúlku. Stelpan fékk óumbeðnar typpamyndir sendar frá ókunnugum karli á netinu. „Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvað kynfræðsla er mikilvæg. Við þurfum að vera til staðar fyrir börn sem eru beitt ofbeldi,” segir Sólborg.

Sólborg segir einn af kostunum við að reka síðuna sé að hún geti haft jákvæð áhrif á fólkið sem fylgist með henni, með vitundarvakningu um hin ýmsu málefni og fræðslu. „Þetta verkefni hefur kennt mér margt um mig sjálfa og samfélagið og þroskað mig heilan helling.” Hinsvegar segir hún ákveðinn galla að fólk hafi svona greiðan aðgang að henni sjálfri og geti sagt við hana hvað sem því sýnist, hvenær sem þeim sýnist. Aftur á móti finnst henni það þroska sig að taka á móti gagnrýni og það gerir hana sterkari.

Sólborg segir mikilvægt að við unglingarnir séum til staðar fyrir hvert annað. Við þurfum að reyna að grípa inn í aðstæður þegar við erum vitni af einhverju sem er í ólagi. „Hafið trú á ykkur sjálfum. Þið getið haft mun meiri áhrif en ykkur grunar, þó þið séuð ung.”

Í vetur kemur svo út bók eftir Sólborgu sem heitir einfaldlega „Fávitar”. Bókin er samantekt á spurningum sem hún hefur fengið sendar til sín frá ungu fólki, bæði á fyrlestrum hennar og á samfélagsmiðlum. Þær fjalla m.a. um blæðingar, kynlíf, kynfæraheilsu, ofbeldi, sambönd, hinseginleika og getnaðarvarnir. Bókin er væntanleg í nóvember og er frábær jólagjöf fyrir unga fólkið í lífi ykkar.

Penni: Ísold Saga Karlsdóttir

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search