Má ég segja þér leyndarmál?

,,Mundu að í einhverjum hliðstæðum heimi lengst í burtu erum við enn saman og verðum saman um alla tíð.”

Nú eru komnir þrír dagar síðan ég heyrði frá henni. Þrír endalaust langir og sársaukafullir dagar sem einkennast af myrkri, sorg og sígarettum. Ég sem var hætt að reykja. Ég hef beðið með símann í hleðslu, starandi á skjáinn. Ég passaði að vera með kveikt á netinu og hljóðinu og kíkti þrisvar hvort það væri slökkt á flugvélastillingunni. Ég hrekk í kút við hvert einasta smáhljóð sem kemur frá símanum og finn fyrir vonbrigðum þegar það er bara enn ein tilkynning frá einum af allt of mörgu samfélgsmiðlunum sem ég eyði tíma mínum í. Koddinn minn er tárvotur og grár og herbergið er farið að lykta illa en ég hef það ekki í mér að standa upp, ekki enn. Eftir langan tíma reisi ég mig við, dreg gluggatjöldin frá og opna gluggann eins mikið og ég get. Ég stari lengi út í haustið sem hefur læðst upp að okkur eins og gömul og löngu gleymd minning. Ég leyfi svölum vindinum að leika um andlit mitt og þerra vætuna af kinnum mínum. Laufin gul og brún feykjast upp í haustgolunni og fljúga burt frá öllum vandræðum sem hér eru. Það er kalt, mun kaldara en í fyrra um þetta leyti. Ég hef verið að hugsa um síðasta haust og allt sem því fylgdi, leiðina sem ég fór nákvæmlega hingað. Ég var hamingjusöm. Haustið táknaði alltaf endurfæðingu og nýja möguleika fyrir mér en núna minnir það mig bara á allt sem hefur farið úrskeiðis. 

Ég man þegar við hittumst fyrst. Ég man hvert einasta smáatriði. Það var í desember, rétt fyrir jólin í fornbókabúðinni við Klapparstíg. Hún var í hvítri og einstaklega stórri dúnúlpu, með þykkan, lillabláan trefil og úfið hár. Mér var heitt og ég var óörugg. Það var lítið að gera, enda farið að líða á kvöldið. Það átti að loka bráðum. Við vorum saman í skóla svo við könnuðumst við hvor aðra, nóg til að spjalla vandræðalega saman í bókabúð fyrir jólin svo ég fór upp að henni og heilsaði. „Hefuru lesið þessa?“ spurði hún og brosti. „Já, ég las hana í skólanum einhvern tíma, hún er ótrúlega góð“, ég brosti líka. Mér fannst ég kjánaleg en einnig einstaklega heppin. Ég var líka í úlpu og varð orðið ótrúlega heitt inni í loftlausri búðinni. „Ég er að hugsa um að rölta aðeins. Kaupa kannski kaffibolla eða kakó og fylgjast með jólastressinu í öllum. Viltu koma með?“. Ég var vongóð en skíthrædd. „Já, auðvitað!“. Ég andaði léttar og brosti enn breiðar, hún brosti líka. Við renndum upp í háls, vöfðum treflunum utan um okkur og héldum saman af stað út í myrkrið. Þetta virðist svo óralangt í burtu núna, allar þessar minningar. Ég sakna hennar, rétt eins og ég sakna vetrarins.

Fyrst ég hef ekki enn heyrt frá henni ákveð ég að fara í göngutúr. Ég passa samt að hafa hleðslukubb meðferðis til öryggis. Ég klæði mig allt of vel, fer í sömu gömlu úlpuna, set á mig gula trefilinn og hvítu vettlingana. Þegar ég kem út úr götunni horfi ég ráðvillt og hugsunarlaust til beggja hliða, það virðist öruggt að hlaupa yfir götuna. Það er reyndar ekki mikil umferð enda klukkan orðin allt of margt. Ég stoppa ekki hinu megin en hleyp áfram og nem staðar einhvers staðar í mýrinni. Mig dreymdi einu sinni um þennan stað, um sumarið, sólina, tónlistina og hana. Aðallega um hana. Nú er komið haust, draumurinn orðinn að martröð og ég bíð óróleg eftir því að vakna. Mig grunar þó að það gerist ekki bráðlega. Það á enginn von á mér, það er enginn sem bíður eftir því að hitta mig eða eftir nýjum fréttum. Hvað er ég að gera hérna? Ég geng rösklega um háskólahverfið, fylgist með himninum dökkna smátt og smátt og sólinni hverfa ofan í litlaus húsþökin. Þessi sjón róar mig, himinninn minnir mig aðeins á hana, skýjastelpuna og allt sem eitt sinn var. 

Ég veit ekki hvenær ég fylltist af þessari flóttahyggju og fortíðarþrá. Kannski var það um leið og mjúki dúnninn skreið af himninum og gráu regnskýin tóku við, eða þegar ég flutti. Þá fyrst hafði ég eitthvers til að sakna. Svo lengi sem ég var inni í herberginu við sjóinn með rúmið, myndirnar og tónlistina gat ég lifað mig inn í minningarnar, látið sem þær væru allt líf mitt og það eina sem skipti máli. Raunin er samt sú að hún var það eina sem skipti máli. 

Þegar við vorum nýbyrjaðar að kynnast fór ég á tónleika með hljómsveit sem hún var í, þau voru frekar vinsæl. Ég kláraði hálfa hvítvínsflösku í strætó á leiðinni og þurfti tvo vini með mér til þess eins að þora inn. Ég horfði á hana í gegnum þokuna í huga mínum og lét mig dreyma um allt það sem gæti orðið, allt sem ég gæti orðið. Ég fann hana brosa til mín. Ég fann brosið streyma úr hjartanu, af andlitinu, frá sviðinu og til mín. Ég man að ég dáðist að því hvernig sæta stelpan á sviðinu brosti alltaf svo einlæglega, ólíkt sjálfri mér sem notar brosið frekar til að verjast spurningum sem ég vil síður svara. Klukkan var ekki orðin það margt og ég vissi vel að ég mætti vera þarna en leið samt eins og ég væri að stelast, fá útrás fyrir prakkarann í mér sem ég geri sjaldan. Nánar tiltekið gerði ég það bara þegar ég vissi að sæta stelpan á sviðinu myndi brosa til mín, eða þegar ég vissi að það væri möguleiki á því að ná henni einni, henni og brosinu, einlægu og tæru. Það var brosið hennar og andlitið sem ég hugsaði um þegar ég settist niður til að skrifa ljóð eða sögur, andlitið sem ég hugsaði um þegar mér leið illa eða bara þegar mig langaði til. 

Ég fann bassann dynja í eyrunum og titra um allan líkamann í takt við öskrin í salnum. Eftir því sem leið á kvöldið áttaði ég mig á því að ég vildi ekki vera þarna lengur, mig langaði burt, en ekki heim. Heima var síðasti valkosturinn eins og flest önnur kvöld reyndar. Húsið var kalt, litlaust, stórt og drungalegt, þar var ekkert og enginn sem saknaði nærveru minnar. Það var eitthvað öðruvísi þetta kvöld. Eitthvað sem bærðist inni í mér, braust um og heimtaði athygli. Það var ekki lengur nóg að sæta stelpan brosti bara úr fjarlægð, að við næðum einstaka sinnum augnsambandi eða yfirborðskenndu spjalli á reykingasvæðinu. Ég þurfti meira. Ég fann hvernig allt innra með mér togaðist nær henni og áður en ég vissi af stóðum við andspænis hvor annarri og brostum áfram, báðar hálfvandræðalegar en samt öruggar á einhvern hátt. Hún heilsaði mér kurteisislega og knúsaði mig. Svart, axlasítt hárið glitraði í ljósunum og augun skinu í gegnum myrkrið.

„Hvernig fannst þér tónleikarnir?“ Í örstutta stund var ég ekki viss um hugarástand mitt og efaðist raunveruleikann í allri sinni mynd. „Ég fílaði þá, þið eruð áhugavert band“. Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja, ekki bara vegna þess að ég var einmitt þarna, á myrkum skemmtistað í hjarta borgarinnar með stelpunni sem ég horfði svo oft á úr fjarlægð og hugsaði svo mikið um heldur líka vegna þess að allt í kringum mig varð loðið og mjúkt, allt virtist vera vafið í bleikar bómullarábreiður sem dúðuðu einnig hverja einustu hugdettu sem rann í gegnum mig. Ég fann hvernig allt í heilanum flæktist, fyrst hægt en svo hraðar og hraðar þar til allt sem ég taldi mig vita og þekkja spíralaðist ofan í niðurfallið. Smá líkt því sem ég upplifi núna. Ég veit að ég virtist samt sem áður yfirveguð og svöl, eins og ævinlega. Sæta stelpan minntist á það en ég var fljót að útskýra klaufalega og hálf brussulega fyrir henni að svo væri ekki, ég kynni bara vel að fela hvirfilbylina innra með mér. 

Það er dimmt úti og það verður sífellt kaldara. Vindurinn er hvass og miskunnarlaus. Ég þakka sjálfri mér hljóðlega fyrir að hafa klætt mig vel. Ég er komin að sjónum, ég stend á gangstéttinni við hvíta húsið og horfi yfir Ægisíðuna. Þetta var partur af draumnum líka, húsið, garðurinn, útsýnið, fjaran og sjórinn. Matarboð, gæludýr, listaverk og vinir, endalaus straumur fólks í gegnum framtíð okkar saman. Framtíðina sem ég horfi nú á hverfa ofan í öldurnar. Ég geng rólega niður að gömlu fiskiskúrunum og sest niður á lítinn stein sem er í skjóli frá vindinum. Ég dreg pakka af bláum Camel sígarettum upp úr vasanum og hlæ lítillega. 

Bara ef hún sæi mig núna, grátbólgna og rauða með veikar sígarettur í höndunum. Hún myndi sennilega gera endalaust grín að mér en kyssa mig svo til að bæta upp fyrir það um leið og ég færi í fýlu. Ég færi samt bara í fýlu svo hún myndi kyssa mig. Ég reyki þrjár sígarettur áður en ég stend upp og geng í áttina heim. Enn hefur ekkert heyrst í símanum svo ég geng lengri leiðina heim, framhjá gamla húsinu mínu, framhjá öllum gömlum minningum mínum og fyrri hamingju. Ég stend hinum megin við brúnt húsið og stari inn um eldhúsgluggann. Minningarnar birtast mér eins og bíómynd eða sjónvarpsþættir, ítarlegar og skýrar. Ein sú allra uppáhalds er kvöldið sem við áttum tvær einar heima, ég og hún undir hlýrri sæng að fela okkur frá kuldanum sem úti var. Við töluðum um allt milli himins og jarðar, flissuðum og kysstumst. Ég vissi að hún þyrfti að fara heim en ég hélt utan um hana áfram og hvíslaði ofurlágt í eyra hennar „Má ég segja þér leyndarmál?“ Hún svaraði ekki en kinkaði kolli og horfði djúpt í augun mín. „Ég er dáldið skotin í þér“. Ég hélt niðri í mér andanum á meðan ég beið eftir viðbrögðum sem virtust aldrei ætla að koma. Loksins snéri hún sér að mér og sagði: „Ég er líka dáldið skotin í þér, dáldið mikið“. Ég andaði frá mér og reyndi að róa taugarnar, ég brosti einlægasta og sannasta brosi sem ég átti til og kyssti hana áfram, meira og meira, ákafar og ákafar. Við áttum margar vikur saman í þessari hamingjubólu. Við lokuðum okkur af og vorum glaðar, svo ótrúlega glaðar og það endaði ekki, þar til það gerði það. 

Stór jeppi keyrir framhjá mér og kippir mér aftur í raunveruleikann. Það skvettist buna af vatni á mig af götunni, ég er rennvot en tók ekki eftir því þegar það byrjaði að rigna. Rigning er uppáhaldið mitt. Rigningin getur skolað burt öllu ef maður bara leyfir henni það, meira að segja þessu. Þegar ég kem heim hendi ég öllum fötunum mínum á gólfið og leggst á bolnum og nærbuxunum einum upp í rúm. Ég passa að hafa símann hjá mér. Ég kveiki á tölvunni og set á einhverja lélega jólamynd. 

Það heyrist píp í símanum mínum: „Mér líður ekki vel, viltu koma til mín á morgun?“. Það losnar um þrýstinginn í brjóstkassanum og ég anda léttar. „Auðvitað, ég kem seinnipartinn“. Ég loka tölvunni og augunum og sofna í fyrsta skipti í þrjá daga. 

Þetta er smá göngutúr úr strætó en ég er ekki að drífa mig eins og svo oft áður. Ég hef aldrei viljað stoppa tímann eða lengja hann áður en núna gæfi ég hvað sem er. Ég geng áfram í gegnum hverfið sem ég elskaði eitt sinn svo heitt. Ég er með hvítu heyrnatólin í eyrunum og tárast við lagið sem spilast aftur og aftur í hæsta hljóðstyrk. Ég sest á bekk rétt hjá húsinu og reyki eina sígarettu, gula í þetta skiptið. Það er komið að hinu óumflýjanlega. Ég er komin á áfangastað. Ég geng út stíginn og niður þrepin sem liggja niður í kjallaraíbúðina. Ég hef komið hingað áður, oft, en ég verð alltaf jafn stressuð, það myndast alltaf sami hnúturinn í maganum og ég finn kaldan svita myndast í lófunum. Ég stend fyrir utan hurðina í dágóða stund og horfi á spegilmynd mína í glerinu. Ég lít alveg eins út og ég geri alla aðra daga. Ljósbrúnt hárið rennur í liðum niður á axlir og gleraugun sitja á nefinu. Eftir nokkra djúpa andardrætti tek ég loks í húninn og stíg inn fyrir. Eftir allan þennan tíma veit ég betur en að banka. Ég klæði mig hljóðlega úr skónum og kápunni og held inn dimman ganginn. Ég stend í dyragættinni í nokkrar mínútur áður en ég læðist upp í rúmið við hlið stelpunnar. Ég vildi að hún tæki ekki eftir mér. Ég vildi óska þess að ég myndi bara sofna við hlið hennar og liggja þar um ókomna tíð.

„Ertu vakandi ástin?“ Röddin mín skelfur eins og restin af líkamanum. „Núna, já.“ Hún snýr bakinu að mér og þykist sofa enn. „Hvernig hefurðu verið?“ Spyr ég og renni fingrum mínum í gegnum hárið hennar. Hún sest ótrúlega varlega upp og horfir á mig fremur tómlega. Við sitjum þarna þar til við byrjum báðar að gráta. Einmitt hér, í þessu herbergi er allt sem ég elska. Hvít gluggatjöldin, heimagerðu hillurnar, allar bækurnar, blómamynstruð rúmfötin og hún. Ég elska hana meira en allt, meira en sjálfa mig. „Er þetta þá bara búið?“ Orðin kreistast upp úr henni á milli ekkasoga. Ég horfi á hana og græt enn meira. „Ég held að það verði að vera það, að minnsta kosti í bili.“ „En ég elska þig og þú elskar mig, hvenær hætti það vera nóg?” Þessu get ég ekki svarað. Ég veit að ég gerði allt fyrir hana en því ég elska hana svo heitt þá verð ég að sleppa henni núna. Ég veit að sársaukinn sem við upplifum núna er skárri en sá sem við upplifum eftir 6 mánuði, ár eða fleiri. Við vissum alltaf að það kæmi að þessu en nú þegar stundin er runnin upp virðist allt óraunverulegt og vont. Nú segjum við ekkert en sitjum andspænis hvor annari og grátum enn. Ég legg hönd mína á vanga hennar og kyssi hana. Ég veit að okkur finnst þetta allt saman svo viðkvæmt, okkur báðum. Eins og við séum að henda á milli okkar blómavasa úr postulíni. Við kyssumst, fyrst hægt og mjúkt en svo af meiri ákafa og ástríðu. Við sofum saman, rétt eins og við höfum gert nákvæmlega hér svo ótal oft áður. Þegar það er búið liggjum við hlið við hlið og grátum enn. Þegar það sem virðist heil eilífð hefur liðið stend ég upp, klæði mig í dökkrauðu gallabuxurnar mínar og bolinn og horfi á stelpuna sem sefur í rúminu. Ég horfi í kringum mig, yfir íbúðina, kveð hana hljóðlega og þakka fyrir mig. Ég klæði mig í stígvélin og kápuna og lít snöggt aftur fyrir mig áður en ég held út. Ég geng upp tröppurnar og niður stíginn frá húsinu í síðasta skipti.

,,Mundu að í einhverjum hliðstæðum heimi lengst í burtu erum við enn saman og verðum saman um alla tíð.”

Höfundur: Jana Björg Þorvaldsdóttir

Eftirfarandi styrktu útgáfu Framhaldsskólablaðsins:

Akrahreppur

Alþýðusamband Íslands

Apótek Vesturlands

Bifreiðaverkstæði KS 

Fellabær

Fjölbraut Garðabæ 

Fjölbrautarskóli Suðurnesja 

Framhaldsskólinn á Laugum

Garðabær

Góa Linda

Kaupfélag Skagfirðinga

Menntakólinn á Ísafirði

Menntaskóli Akureyrar

Menntaskóli Borgarfjarðar

Menntaskólinn Laugarvatni

Menntaskólinn við Sund

Netto

Samhentir

Samstaða stéttarfélag

Síldarvinnslan

Sólrún ehf

Stofnun Árna Magnússonar

Sveitafélagið Ölfus

Verkfræðingafélag Íslands  

Bakkaflöt River Rafting

Bolungarvíkurkaupstaður

DMM Lausnir

Dýralæknirinn

Fagtækni

Fljótdalshérað

Flugger ehf

Fossvélar ehf

Framhaldsskólinn á Húsavík

Friðrik Jónsson ehf

Hnýfill

Höfðakaffi

Litlalón ehf

Menntaskólinn Egilsstöðum

Norðurpóll

Promes Dalvík ehf

Rúnar Óskarsson

Set

Trésmiðja Helgi Gunnarssonar

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search