Nennir ungt fólk ekki að kjósa?

Ungt fólk nennir ekki að kjósa. Nei ok, kannski ekki beint. Það liggur þó fyrir að kosningaþátttaka ungs fólk hefur farið lækkandi á Íslandi síðastliðin ár, þróun sem má sjá víða á Vesturlöndunum.

Fram að þessu hafa tölur bent til þess að kosningaþátttaka ungs fólks rétti sig af og hækki til jafns á við eldri hópa þegar ungt fólk fullorðnist. Efasemdir hafa vaknað um hvort það sé enn raunin, og bent hefur verið á að lág kosningaþátttaka ungs fólk skilji eftir sig „fótspor“ af lágri kosningaþátttöku í framtíðinni. Kosningaþátttaka er mikilvæg af ótal ástæðum, en tilgangur þessarar greinar er ekki að reyna sannfæra ungt fólk um mikilvægi kosningaþáttöku og hvetja það til að fara út og kjósa (þó svo ég voni að hún geri það). 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar á kosningaþátttöku á Íslandi renna stoðum undir að myndast hafi svokallað kynslóðabil í kosningaþátttöku á Íslandi, þar sem yngsta kynslóð samtímans er ólíklegri til að kjósa samanborið við yngri kynslóðir fyrri tíma. Enn sem komið er, er ekki vitað hvort að lág þátttaka yngstu kynslóðarinnar muni halda sér út æviskeið hennar og skilja eftir sig fótspor lágrar þátttöku. Það vekur upp spurninguna hvers vegna þessi kynslóðabreyting sé til komin og hvers vegna ungt fólk í dag er ólíklegra til að nýta kosningarrétt sinn.

Skýringar sem hafa verið settar fram afhverju yngri kynslóðir eru ólíklegri til að kjósa eru til dæmis að ungt fólk sé minna upplýst um stjórnmál og að þau skipti yngra fólk minna máli. Því hefur verið haldið á lofti að ungt fólk hafi minni áhuga á stjórnmálum en þeir sem eru eldri, en því hefur verið svarað með því að ungt fólk leggi áherslu á annars konar stjórnmálaþátttöku en að kjósa. Ungt fólk hallist þannig að þátttöku í stjórnmálum á víðtækari forsendum en hefðbundnum flokkastjórnmálum, og séu í fararbroddi „nýrra stjórnmála“. 

Pólitískur áhugi ungs fólk hefur í auknum mæli þróast í kringum málefni eins og réttindi dýra og umhverfismál, og bent hefur verið á að stjórnmálamönnum virðist mistakast að takast á við þessi málefni. Yngri kynslóðir virðast því vera gagnrýnni á kjörna fulltrúa, finnist ekki vera hlustað á þau og að þau geti ekki haft áhrif á stjórnmál. Vandamálið gæti þá að hluta til legið hjá pólitískum fulltrúum og stjórnmálaflokkum, sem þurfa að aðlaga sig að breyttu landslagi og kröfum nýrra kynslóða. Þetta eru aðeins nokkrir af ótal skýringarþáttum sem hafa verið settir fram til að útskýra þessa kynslóðabreytingu.

Í framhaldi af niðurstöðum um kynslóðabreytingu í kosningaþáttöku ungs fólk voru greindar tvær mögulegar skýringar á lækkandi kosningaþátttöku ungs fólks á Íslandi, sem voru flokkshollusta og áhugi á stjórnmálum. Niðurstöðurnar sýndu að ungt fólk í dag hefur svipaðan áhuga á stjórnmálum og bæði eldra fólk og ungt fólk fyrri tíma. Því er ekki hægt að skýra lækkandi kosningaþátttöku með minni stjórnmálaáhuga ungs fólks. Aftur á móti, þá hafa áhrif flokkshollustu á kosningaþátttöku ungs fólk breyst og hefur flokkshollusta minna vægi í því að hvetja ungt fólk til að kjósa heldur en hún hafði áður fyrr. Hægt er að túlka flokkshollustu sem vísir á hefðbundna þátttöku í stjórnmálum. 

Þessar niðurstöður er hægt að túlka sem svo að að ungt fólk á Íslandi hallist að víðtækari þátttöku í stjórnmálum, og hallist að annars konar þátttöku en hefðbundnu flokkastarfi og að kjósa (en er ekki bæði betra samt?). Ungt fólk þarf að halda áfram að þrýsta á stjórnvöld að bregðast við þeim kröfum sem það hefur. Stjórnmálamenn þurfa að hlusta á kröfur yngri kynslóða og ungt fólk má ekki hætta að láta í sér heyra. Samfélagið breytist með tímanum, og pólitískir fulltrúar og stjórnmál þurfa að breytast í takt við það.

PENNI: Eiríkur Búi Halldórsson

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search