Bergmál og hin mállausa myndavél

Leikhúsiðnaðurinn er samofinn íslenskri kvikmyndagerð í alla staði. Leikararnir eru flestir með leikhúsbakgrunn líkt og leikstjórarnir. Það dregur fram ýmsa þætti í íslenskri menningu sem varðar auglit listamannsins. Á sviði hefur þú ekki sömu stjórn á umhverfi, lýsingu og staðsetningu áhorfenda og við kvikmyndagerð, þannig unnið er aðeins með tilfinningalegan trúverðugleika frekar en raunveruleika, eða reynslu sem slíka. Í kvikmyndum er sú stjórn á innihaldi rammans nauðsynleg og sumt getur þú aðeins tjáð með myndavél ef þú þekkir upplifunina í raun og veru; leikstjóri horfir alltaf með þeim augum sem hann horfir með í daglegu lífi, þegar hann skapar kvikmyndir. Bergmál er nýjasta mynd leikstjórans, Rúnars Rúnarssonar og er hún ein af fáu vignettumyndum sem gerðar hafa verið á Íslandi. Hún sýnir almenning Íslands kljást við hversdagsleikann yfir hátíðirnar.

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is


Vitaskuld er Bergmál metnaðarfull og vel gerð, frá lýsingu niður í framleiðsluhönnun, og leik- og persónusköpun sem er ekkert auðvelt fyrir vignettumynd af þessu tagi. Hver vignette er kyrr, óhreyfð mynd af atburði á Íslandi um jólin en persónur og atburðir tengjast aðeins í gegnum umhverfið, þema og ýmsa miðla eins og í gegnum sjónvarpsræðu Katrínar Jakobs.

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Áhersla er lögð á sviðsetningu og myndin er að því leiti eins og leiksýning, en að sama skapi má sjá hvernig sú áhersla dregur fram málleysi og vanbeitingu myndavélarinnar og hljóðhönnunar. Gott dæmi má finna í kaflanum þar sem menn frá útlendingastofnun mæta til að handtaka hælisleitendur og vísa úr landi, þegar þeir strunsa inn í kirkjuna er það dæmi um heilaga reglu sem hefur verið brotin, að ekki megi ráðast á menn sem veitt hafa verið heilagt skjól. En hvað er myndavélin að segja? Hvergi má finna þær tilfinningar eða merkingu sem ég lýsti í kvikmyndatöku né hljóðhönnun. Hefði myndavélin fylgt hælisleitendunum og verið staðsett innan kirkjunnar, hefði mátt sjá þögn, kyrrð og frið sem svo er rofinn. Auk þess er samúð okkar þá frekar með hælisleitendunum heldur en góða, hvíta manninum sem kaus að verja þá. Hér má sjá átök milli þess hvar reynsla og einlægni leikstjórans liggur og hvar hún liggur ekki. Ætlun myndarinnar er greinilega að færa áhorfandann í hversdagslega og óvenjulega tilveru Íslendinga um hátíðirnar, en til að takast það er einlægni nauðsynleg. Heimssýn myndarinnar kemur að mestu leyti frá forréttindastöðu og vanþekkingu. Því miður er lífið á Íslandi mun erfiðara og flóknara en nokkur vignette getur sýnt í þessari mynd, til dæmis hversu kindarleg pólítisk umræða í myndinni er. Til eru þó fjölmargar undantekningar, til dæmis fannst mér mikil sorg og þroski í því hvernig birtingarmynd drykkju og fíknar var; enginn kemur fram sem skopmynd, heldur sem alvöru manneskja. Einmanaleiki og elliglöp eru sterk þemu og kyrrð myndavélarinnar tekur vel undir þau. Það sama get ég ekki sagt um öll skotin og að vissu leyti finnst mér það hamlandi að hvert einasta skot sé læst niður, til dæmis fyrrnefndur atburður við kirkjuna. Gallinn liggur í því að ekki öll skot eru sköpuð jöfn og að mínu mati hefði mátt klippa út allavega helming þeirra, þar sem mörg skot eru einfaldlega tilgerðarleg og gera ekkert fyrir myndina nema að sýna blinda punkta framleiðenda og leikstjóra.

Um notkun tónlistar, mér finnst það eiga vel við að í myndinni er engin tónlist nema í byrjun og enda, en ég er næstum viss um að myndin þurfi enga tónlist, að mínu mati var óviðeigandi að nota fjórða hluta Der Klang der Offerbarung des Göttlichen eftir Kjartan Sveinsson í byrjun og enda myndarinnar. Lagið er fjórði hluti úr stærra verki sem á rosalega lítið við þessa mynd. Eina ástæðan fyrir því að lagið er þarna er því það hljómar fallega en hvorki myndin né lagið styðja við hvort annað á nokkurn dýpri hátt.

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Allir þeir ókostir sem ég nefndi tel ég vera ummerki gegnumgangandi vanda í íslenskri kvikmyndagerð, það vantar alla einlægni. Ég er þreyttur og pirraður á því að sjá hverja mynd eftir annarri sem vilja frekar vera í sýndarmennsku og fagurfræði frekar en persónulegri frásögn. Þú verður að vinna út frá ást og reynslu í öllum listum því annars færðu ekkert nema dauft bergmál þess veruleika sem þú hefur kynnst í miðlum frekar en upplifun.

MYNDAKREDIT: Nimbus Iceland, Pegasus Pictures 2019

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

PENNI: Óðinn Jökull Björnsson

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search