Ljóð eftir Jönu

TITILL: Konan í glugganum

HÖFUNDUR: Jana Björg Þorvaldsdóttir

Það er kona í blokkaríbúð á þriðju hæð

Í Vesturbænum

Hún stendur í eldhúsglugganum

Eins og öll fimmtudagskvöld

Augu okkar mætast

Hún stendur kyrr

Og ég geri það líka

Við störum báðar

Ég og konan í blokkaríbúðinni á þriðju hæð í Vesturbænum

Það kemur maður inn í eldhúsið

Hann læðir stæltum handleggjunum utan um mitti hennar

Við störum enn

Hann kyssir hana á kinnina

Og vinnur sig niður hálsinn 

Að viðbeinunum

Hún skrúfar fyrir vaskinn

Vatnið hefur verið að renna allan þennan tíma

Sennilega hefur hvorug okkar tekið eftir því

Maðurinn losar um dökkbláa bindið sitt

Og hneppir frá ljósbláu skyrtunni sinni

Hann reynir að snúa henni við

En hún haggast ekki 

við störum enn

Maðurinn fjarlægir svuntuna hennar

Og hneppir frá henni peysunni

Hún stendur berbrjósta í eldhúsglugganum

Og við störum enn 

Hann rennir höndunum eftir útlínum hennar

Og niður fyrir buxnastrenginn

Á sekúndubroti teygji ég mig í gluggatjöldin og dreg fyrir

Ég stari enn, gerir hún það líka?

TITILL: Ittala

HÖFUNDUR: Jana Björg Þorvaldsdóttir

Ég sendi riddarann áfram á c3

Ég þekki ekki reglurnar í skák

Hann skammar mig stundum fyrir það

En andstæðingurinn er ekkert sérlega málefnalegur

Það er ég sjálf

Fyrst við kunnum hvorug reglurnar

Gleymi ég tilgangi leiksins fljótt

Er ekki tilgangslaust að berjast við sjálfan sig?

Kannski er betra að gefast upp

Hvort á svartur og hvítur að byrja aftur?

Ég dreg eldspýtu úr stokknum sem hún stal

Og kveiki á kerti

Það lýsir upp leikborðið

Það birtir til og mig langar að vinna

TITILL: Einn af þessum dögum

HÖFUNDUR: Jana Björg Þorvaldsdóttir

,,Í dag er bara einn af þessum dögum” segi ég við sjálfa mig um leið og ég panta mér risastóran kaffibolla (þann fjórða í dag) og sest niður. ,,Einn af þessum erfiðu dögum sem koma inn á milli þó svo að maður sé hamingjusamur.” Planið var að reyna að læra en ég er eitthvað utan við mig. Ég er að hlusta á tónlist sem aftengir mig við raunveruleikann og gerir allt draumkenndara. Það eru ekki margir á kaffihúsinu sem er bara fínt, ég kann vel við það svona. Það er rólegri stemning og ég fæ frið til þess að hugsa. Það er þó kannski ekkert sniðugt að hugsa of mikið. Það koma nokkrir eldri krakkar úr skólanum og setjast niður rétt hjá mér. Ég kannast við þau og þau brosa til mín. Hægt og rólega átta ég mig á hópnum og byrja að pakka saman dótinu mínu. Ég veit alveg hver er á leiðinni og ég vil ekki einu sinni reyna að takast á við það, það er betra að flýja bara. Einmitt þegar ég held að ég sé sloppin gengur hún inn. Hugurinn minn fer strax á milljón, hann reynir að halda heilanum í skefjum og víkja burt vondum hugsunum. Það virkar ekki. Af öllum þeim tilfinningum sem ég get upplifað finnst mér þessi vera ein af þeim allra verstu. Konan dregur úr sjálfsáliti mínu með því einu að vera til, með því að vera hún sjálf. Hún er allt sem ég vil vera: Klár, falleg og góð, hún er óhrædd. Ég er bara lítil í mér og veit í raun ekki neitt. Ég hræðist návist hennar og forðast hana eins og heitan eldinn. 

Mér finnst ekki gaman að líða svona en þetta gengur allt upp, þetta eru staðreyndir: Hún er betri en ég. Ég verð aldrei jöfn henni. Ég hendi í flýti öllu dótinu mínu í skítuga, græna bakpokann minn, dríf mig í snjáða jakkann hans pabba, hækka tónlistina í botn og hleyp út á meðan ég geri mitt besta að forðast augnaráð hennar. Ég er byrjuð að anda hraðar. Sennilega blanda af stressi og kaffidrykkju. Ég skildi samt bollann minn eftir, ég drakk næstum því ekkert, ég var að flýta mér svo mikið út. Ég reyni að róa mig niður og labba í áttina heim. ,,Þetta er bara einn af þessum dögum.”

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search