Sögur á einföldu máli

Árstíðir er fyrsta frumsamda skáldverkið fyrir þá sem tileinka sér íslensku sem annað mál. Sögurnar eru örsögur, stuttar og nútímalegar. Þær fjalla meðal annars um loftlagsvandann, stefnumótamenningu og jafnrétti kynjanna.

Karítas Hrundar Pálsdóttir skrifaði bókina Árstíðir, sem samanstendur af 35-500 orða löngum örsögum. Karítas lauk meistaraprófi í ritlist frá Háskóla Íslands (HÍ) en hefur lagt stund á tungumálanám frá því hún var í Menntaskólanum við Hamrahlíð (MH). ,,Ég var á málabraut í MH,“ segir hún. „Auk íslensku, ensku og dönsku lærði ég frönsku og spænsku, síðan tók ég nokkra kúrsa í japönsku og arabísku sem var mjög skemmtilegt.” Eftir menntaskólann hélt Karítas í BA-nám í íslensku með japönsku sem aukagrein. Sem hluta af því námi var hún eitt ár í Tókýó að læra japönsku. „Það hefur reynst mér vel að lesa léttlestrarbækur í mínu tungumálanámi, sögur með orðaforða, setningagerð og málfræði á réttu getustigi. Ég man til dæmis eftir að hafa lesið stuttar glæpasögur, svo las ég „Litla prinsinn“ á frummálinu frönsku.”

Vantar fullorðinslegar en einfaldar sögur 

,,Það var svo seinna þegar ég kom að kennslu íslensku sem annars máls að ég sá að það vantaði sögur á einfaldri íslensku. Það vantaði sögur sem eru á réttu getustigi, stuttar og áhugaverðar svipaðar þeim sem ég hafði lesið í mínu tungumálanámi.” Hingað til hafa einu bækurnar á slíku getustigi verið barnabækur. ,,Það getur vissulega verið gagnlegt að lesa barnabækur þegar maður er að læra tungumál,“ segir Karítas, „en eftir því sem maður eldist stækkar reynsluheimurinn og því fannst mér þörf á að til væru sögur á einföldu máli skrifaðar sérstaklega með eldri lesendur í huga.”

Sögurnar í bókinni Árstíðir eru stuttar og skýrar, Karítas segist hafa passað að textinn væri hnitmiðaður og umfjöllunarefnið skýrt. ,,Ég passaði að nota auðskiljanleg orð frekar en flókin orð, svo notaði ég stuttar og einfaldar setningar. Að þessu leiti samræmist getustig sagnanna viðmiðum um auðlesið efni samanber kennslurit á vefsíðu Þroskahjálpar. Sögurnar gætu því líka nýst nemendum á starfs- og sérnámsbrautum framhaldsskólanna.”

Ein um Tinder og önnur um ömmu

Það er fjölbreyttur hópur af fólki sem lærir íslensku sem annað mál. Karítas lagði því mikið upp úr því að sögurnar væru allskonar og höfði til ólíkra lesenda. ,,Líklega þykir framhaldsskólanemum áhugavert að ein sagan heitir Tinder. Hún fjallar um íslenska stefnumótamenningu, hvernig Íslendingar nota Tinder og fletta upp í Íslendingabók. Svo er saga um ástarsorg og önnur um unglingaslangur og það hvernig kynslóðir eiga stundum erfitt með að skilja hvor aðra því tungumálið er alltaf að breytast. Svo er ein saga sem heitir Amma unglingur fjallar um ömmu mína sem var í Kvennaskólanum í Reykjavík á árunum 1935-1937. Hún fékk einu sinni bróður sinn, sem var 20 árum eldri, til að koma með sér sem dansherra á skólaball. ,” það þótti ekki skrýtið í þá daga. ,,Hann hefur verið jafngamall kennurunum. Það er allt annar veruleiki en hjá okkur í dag.”

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is Ljósmyndari: Ólafur Hrafn

Sögur um loftslagsvána

Karítas lagði líka mikið upp úr því að vera með nútímalegar sögur sem endurspegla gildi jafnréttis og virðingar. ,,Sögurnar endurspegla til dæmis jafnrétti kynjanna og virðingu fyrir ólíkri kynhneigð fólks,“ segir Karítas. Hún nefnir einnig að persónurnar í sögunum séu allskonar. Sumar séu íslenskar en aðrar erlendar, sumar gagnkynhneigðar, aðrar samkynhneigðar og sumar ungar en aðrar aldraðar. ,,Mig langaði að sýna fjölbreytileikann í samfélaginu. Ein sagan er sögð frá sjónarhorni kynsegin manneskju sem er skáld og kýs að nota kynhlutlausa fornafnið hán.” Tvær sögur fjalla um loftslagsvána og eru innblásnar af umræðunni um plastumbúðir, innfluttar matarvörur, flugviskubit og svo framvegis. ,,Þær fjalla um fólk sem er að reyna að bæta sig og taka umhverfisvænar ákvarðanir.” 

Örsögur, bókmenntaform framtíðarinnar?

Karítas veltir fyrir sér hvort örsögur séu bókmenntaform framtíðarinnar. ,,Það er svo mikill hraði í samfélaginu sem við lifum í. Örafþreying hefur verið mjög vinsæl upp á síðkastið, svo ekki sé minnst á vinsældir Instagram og Snapchat. Örsögur henta vel í tungumálanámi en þær geta líka hentað þeim sem eiga í erfiðleikum með lestur og einbeitingu. Ég held að stuttar sögur á einföldu máli geti hentað öllum.”

HÖFUNDUR: Sólrún Freyja Sen

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search