Ljóð eftir Ingibjörgu Ramos

Hvítt hús 

ól mig upp

kenndi mér

að efast

kenndi mér 

að hættan 

er handan

hvers horns

kenndi mér

að líkaminn

er til þess eins

að hylja

kenndi mér 

að lífið

er ljósglæta

milli þrumuskýja

hvíta húsið 

kenndi mér 

að þó húsið gráti

þýði það ekki

að ég megi það.

Bankastræti

HÖFUNDUR: Ingibjörg Ramos

Ég hugsaði til þess á meðan ég gekk niður Bankastrætið. Ég hugsaði til baðherbergisins og ég hugsaði til tónanna sem smugu til mín milli dyrastafa alveg einsog reykur frá manneskju að fela sig inni á baði einsog ég og ég hugsaði til táranna sem runnu niður kinnarnar og svo niður hálsinn og svo niður bringuna. 

Ég er ekki viss hvað olli þessu. Kannski var það rödd hans að hughreista mig, að leiðrétta mig, að hugga mig. Kannski var það óttinn, óttinn við þau, óttinn við aðstæður eða óttinn við hann. Kannski var það óöryggi, óöryggi sem hrjáði mig, óöryggi sem hrjáir mig greinilega enn. Hvað sem það var þá vissi ég það ekki þá og ég veit það ekki núna. Ég veit það ekki. Hef ekki hugmynd. Ekki eina einustu. 

Ég mundi eftir þessu þegar ég gekk niður Bankastrætið. Eftir óttanum og honum og öllu. Þetta blandaðist ábyggilega saman eins og kássa eða pottréttur eða súpa. Allt þetta rann saman, tónarnir sem smugu, tárin sem runnu og hugleiðingin sem fylgdi. Allt rann þetta saman í fjarstæða minningu sem flaug til mín í Bankastrætinu.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search