Mörg fyrirtæki og stofnanir vilja vera með fræðslu fyrir sitt starfsfólk um ýmiskonar hinsegin málefni til að fræða fólkið sitt um slík málefni.
Á síðustu önn var haldinn fyrirlestur frá Samtökunum ‘78 í kynjaviku FÁ og það sem ég tók eftir á þeim fyrirlestri er að eingöngu var talað um HVAÐ er að vera trans en ekkert um HVERNIG það er. Til þess að almenningur skilji transmálefni er mikilvægt að hægt sé að setja sig í spor þeirra einstaklinga sem eru trans og viti aðeins um hvernig það er að vera trans.
Ég hef áður útskýrt fyrir fólki sem ég hef unnið með nákvæmlega hvernig það er að vera trans og sagt var við mig að þau hafa aldrei fengið að vita jafn mikið um það hvað og hvernig það er að vera trans. Það eru alls ekki margir trans einstaklingar opnir. Margir þora ekki að segja öðrum hvernig þeim líður, einfaldlega vegna þess að aðrir halda oft að það snúist allt um þá og að þeim líði vel. Transfólk hefur ekki það að markmiði að endilega líða vel á hverjum einasta degi heldur hefur frekar það að markmiði að líða eðlilega. Transfólk vill finna fyrir nákvæmlega sömu tilfinningum og þeir einstaklingar sem fæðast í sínu rétta kyni.
Að vera trans er ógeðslega sárt. Það er sársauki sem maður lifir með á hverjum einasta degi og þá sérstaklega þegar maður hefur ekki farið í neina aðgerð til leiðréttingar á kyni sínu. Það er erfitt að lýsa þessum sársauka vegna þess að það er ekki hægt að bera hann saman við neitt annað. Þetta er sársauki sem felur í sér gífurleg höft í daglegu lífi. Maður sér kannski ógeðslega flott föt sem mann langar í en getur ekki klæðst vegna þess að þá sjást hlutir sem maður vilji ekki að sjáist. Sem dæmi má nefna að transstelpur sem ekki hafa farið í aðgerð geta ekki klæðst leggings vegna þess að þá kemur til með að sjást í karlmannlega eiginleika hennar. Eins getur transfólk ekki klæðst hvaða toppum sem er vegna þess að hjá transstelpum gæti verið að toppurinn haldist ekki almennilega á þeim og á transstrákum gæti sést í brjóstin á þeim. Þetta á við þegar ekki er búið að fara í neina aðgerð.
Sársaukinn felst líka í verulegum kvíða og þunglyndi sem getur síðan leitt til alvarlegra sjálfsvígstilrauna. Transeinstaklingar eru í 70% meiri áhættu á að fremja sjálfsvíg vegna þess að margir þeirra einstaklinga fá ekki samþykki frá vinum eða fjölskyldu. Þá getur transfólk upplifað að það sé aldrei nógu gott, manni finnst maður vera að særa aðra með því að fara í sitt rétta kyn. Sem dæmi má nefna að einn trans vinur minn fær hnúta í magann í hvert einasta skipti sem hann fer að hitta fjölskyldu sína vegna þess að fjölskyldan hans sættir sig ekki við hans fornafn og þess vegna þarf hann að vera ,,hún” þegar hann er í kringum fjölskylduna sína. Einnig hef ég heyrt dæmi um að sumir transstrákar geti ekki farið út úr húsi án þess að binda niður brjóstin sín og ég persónulega get ekki farið út úr húsi án þess að raka skeggrótina mína þrátt fyrir að það sjáist ekkert að ég sé með skeggrót. Ef ég sé hana eða finn fyrir henni þá líður mér hræðilega illa.
Áður en ég kom út sem trans hafði ég byggt upp gífurlegt sjálfstraust. Ég gat gert nánast hvað sem er og hvenær sem er og hafði engar áhyggjur af því hvað öðrum fannst um mig. Svo þegar ég kom út sem trans og fór að pæla í öllum mismunandi einkennum stelpna og stráka og hversu strákaleg ég var á alla vegu, þá byrjaði sjálfstraustið mitt að brotna niður. Sjálfstraustið mitt fór niður í ekki neitt. Ég þorði ekki lengur að tala fyrir framan hóp af fólki. Hormónagjöf hefur áhrif á dýptina á röddum transstráka en hún hefur engin áhrif á raddir transstelpna. Áhrifin sem hormónagjöf hefur á raddir transstráka eru ekkert svakalega mikil og því þurfa bæði transstrákar og transstelpur að æfa röddina sína með raddæfingum. Transstrákar þurfa að huga að því að dýpka röddina sína og tala úr kokinu á meðan transstelpur þurfa að hækka röddina og færa hana fram á við. Þegar ég æfi röddina mína (sem er ekki eins oft og ég ætti að gera) þá hugsa ég um að tala í kinnarnar mínar og þannig næ ég að færa röddina fram.
Eigin líkami transfólks særir ógeðslega mikið. Það er erfitt að horfa í spegil, fara á klósettið og meira að segja að fara í sturtu einfaldlega vegna þess að það er ógeðslega sárt að sjá vitlausan líkama. Brjóstin á transstelpum stækka ekki jafn mikið og á þeim sem fæðast sem stelpur. Það er dæmi um það sem særir mig verulega þegar ég geri mig tilbúna fyrir sturtu. Einnig má nefna að kynfærin særa töluvert og mig hefur langað að taka hníf og lagfæra þau sjálf, en vitandi hversu virkilega hættulegt það er hef ég ekki gert það.
Fyrsta opinbera transstelpan dó eftir aðgerðina á kynfærunum sínum vegna þess hve litla þekkingu fólk hafði á þessum tíma, það vissi ekki hversu margar æðar eru á þessu svæði. Hún missti allt of mikið blóð í aðgerðinni vegna þess að æðarnar voru skornar í sundur og ekki notaður heitur hnífur til að loka æðunum um leið. Þrátt fyrir það er þessi transstelpa talin hetja í dag, (hún er það að minnsta kosti fyrir mér), vegna þess hversu miklu hún hefur komið af stað fyrir nútíma samfélög.
Þegar fólk kynjar transmanneskju vitlaust þá finnur manneskjan fyrir þessum sársauka sem ég nefndi hér áður. Í kringum svoleiðis fólk líður manni eins og maður sé að labba í leðju. Maður finnur fyrir dofa í líkamanum og á erfitt með að hreyfa sig. Maður finnur sjálfstraustið brotna niður og oft ríkur upp veruleg reiði gagnvart því fólki.
Að vera transeinstaklingur er ekki eitthvað sem maður kýs. Margir fela það að vera trans til þess að koma í veg fyrir þessa vanlíðan. Mjög margir transeinstaklingar reyna einnig að fela þetta til þess að særa ekki þá sem þeim þykir vænst um. Aðal markmiðið hjá transfólki er að fá að vera það sjálft þrátt fyrir að það er ekki auðvelt að vera trans.