Leikritið Ef ég gæti flogið bar sigur úr býtum í handritakeppni Menntaskólans við Hamrahlíð á síðustu önn. Verkið er frumraun Hrafnhildar Orradóttur í leikritaskrifum og leikstjórn, en það var frumsýnt í svonefndum Undirheimasal MH þann 9.október síðastliðinn. Alls tóku tíu leikarar þátt í sýningunni, sem var sýnd sex sinnum.
Skrifaði handritið á einum degi
,,Ég skrifaði handritið á síðustu önn í leikhúsbókmenntaáfanga í MH,“ segir Hrafnhildur. ,,Þetta var lokaverkefnið mitt í áfanganum, en síðan leitaði það mjög á mig í sumar, svo að ég ákvað að pússa það til og senda það í handritakeppnina.“
Hrafnhildur segist lengi hafa gengið með hugmyndina að handritinu í maganum.
,,Svo skrifaði ég það á einum degi í vor og skilaði því inn. Ég hef áður skrifað tvö handrit að bíómynd í fullri lengd en ekki gert neitt við þau. Ég skrifa líka oft ljóð, lög og rapptexta, en þetta er í fyrsta skipti sem ég skrifa leikrit.“
Ef ég gæti flogið fjallar um fimmtán ára strák sem heitir Daði og bestu vinkonur hans, Elsu og Kríu. ,,Í fyrri helming verksins er kafað inn í líf þeirra frá sjónarhorni Daða. Honum þykir virkilega vænt um vinkonur sínar, þó þær sýni eineltistilburði og hafi nokkuð slæm áhrif á hann. Við fylgjumst með viðbrögðum fjölskyldu hans við þeim ,,hættulega unglingaheimi“ sem Daði gengur inn í, en í miðju verksins breytist sagan algjörlega. Þar kemur í ljós að vinir Daða eru ímyndaðir og hann hefur einn verið að stela áfengi, skrópa í skólann og taka töflur. Þá sjáum við í fyrsta sinn raunverulegt sjónarhorn foreldranna, sem hafa áhyggjur af veikum syni sínum.“
Í miðju verksins skilja áhorfendur allan fyrri helminginn skyndilega öðruvísi og púsla brotunum saman. ,,Í einni senu situr Daði við matarborðið ásamt Elsu, Kríu og foreldrum sínum, en stemningin virðist óeðlilega óþægileg. Foreldrarnir bregðast aldrei við neinu sem stelpurnar segja, enda er Daði þá að tala við sjálfan sig,“ segir Hrafnhildur.
Að sögn Hrafnhildar vísar titilinn Ef ég gæti flogið í þroskasögu Daða í gegnum verkið.
,,Í byrjun flýgur fiðrildi inn á sviðið og Kría, annar ímyndaði vinurinn, kremur það, en um leið kremur hún gleði Daða,“ segir hún. ,,Út allt verkið er hann svolítið kraminn af vinum sínum, en það er ekki fyrr en í lokin þegar honum tekst að eignast nýjan vin sem fiðrildin fara að fljúga aftur. Um leið verður hann frjáls.“
Leikstýrði í fyrsta sinn
Við uppsetningu verksins spreytti Hrafnhildur sig í leikstjórn í fyrsta sinn. ,,Mér fannst handritið ekki ná utan um allt sem ég vildi fá út úr verkinu. Það var svo margt sem var ekki skrifað og þurfti að koma fram í gegnum tilfinningar og leik. Ég hafði mjög sterka sýn á það hvað hver persóna ætti að sýna og vildi því leikstýra sjálf. Ég fékk samt Júlíu Karín Kjartansdóttur til að aðstoðarleikstýra sem var ótrúlega gott, þá fékk ég líka annað álit.“
Undirbúningur fyrir verkið stóð yfir í rúmar fjórar vikur með áheyrnarprufum og æfingum, auk undirbúnings leikmyndar, ljósa, búninga og hljóðmyndar.
,,Kjarni leikmyndarinnar var tré sem á héngu myndir,“ segir Hrafnhildur. ,,Leikhópurinn teiknaði þær, en í sýningunni áttu þær að hafa verið teiknaðar af Daða. Þær leiddu áhorfendur inn í hans hugarheim, en voru hluti af sviðsmyndinni allan tímann, svo að áhorfendur voru alltaf staddir í huga hans. Ef vel var skoðað mátti líka finna vísbendingar í teikningunum.“
Viðtökurnar við leikritinu voru góðar, en sökum smæðar Undirheima komust fáir á hverja sýningu. ,,Það voru þrjátíu manns í sætum og það var mjög þröngt,“ segir Hrafnhildur. ,,Fyrir vikið varð stemningin samt öðruvísi, á jákvæðan hátt. Við gátum leikið okkur með samspil leikara og áhorfenda því Daði gat talað við áhorfendur vegna þess hve nálægt þeir sátu. Maður gat ímyndað sér að áhorfendurnir væru líka ímyndaðir vinir.“
Gefandi ferli
Að sögn Hrafnhildar var undirbúningsferlið skemmtilegt og gefandi. ,,Allir í leikhópnum voru frábærir, glaðir og góðir. Það gaf mér líka mikið að fá að leikstýra og koma minni sýn til skila, sjá eitthvað sem ég hafði skrifað verða að veruleika á sviði. Sumir sögðust jafnvel hafa farið að gráta. Mér fannst magnað að heyra að verkið hafi vakið tilfinningar hjá fólki. Öll karaktersköpunin var líka ótrúlega skemmtileg, og að finna út úr öllum tækniatriðum, ljósum, leikmynd og búningum.“
Margir leikararnir höfðu aldrei leikið á sviði áður. ,,Það var svo gaman að geta unnið með nýju fólki, þau stóðu sig ótrúlega vel,“ segir Hrafnhildur. ,,Ég þurfti að komast í gegnum margar hindranir, stutt æfingaferli og mjög takmarkaðan búnað. Það tókst samt, og þetta varð eins og ég vildi hafa þetta.“
Hrafnhildur útskrifaðist úr MH síðastliðinn desember en segist ekki búin að ákveða hvað tekur við. ,,Mig langar svolítið út í leiklistarnám og síðan kannski í mastersnám í leikstjórn, en það er allt óákveðið. Ég finn samt að þessi reynsla af leikstjórn mun nýtast mér ef ég fer í leiklist.“
PENNI: Melkorka Gunborg Briansdóttir