Fimmta frumefnið og feminísk kvikmyndafræði

The Fifth Element er ein af mínum uppáhalds kvikmyndum og hefur verið frá barnæsku. Í mínum augum er hún erkitýpískur, bjartsýnn vísindaskáldskapur sem vekur upp myndefni og heimsbyggingu retro sci-fi með litríkum búningum, geimverum, borgum, geimskipum og svo framvegis. 

Beinagrind sögunnar skrifaði leikstjórinn Luc Besson í barnæsku en hann var aðdáandi vísindaskáldskapar þess tíma. Þar má finna hjarta myndarinnar, kvikmyndin sýnir jákvæða mynd af framtíð mannkynsins þar sem raunveruleiki átaka og illsku er það sem ógnar barnslegum tærleika. Heimur myndarinnar byggist á þessari tvískiptingu þar sem heimurinn og mannfólkið eru náttúrulega falleg en súrna er þau eldast og verða fyrir átökum. 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Saga hennar Leeloo byggist á því að hún sé tær og barnsleg en verður örvæntingarfull þegar átökin harðna. Eina leiðin til að finna hamingju í slíkum heimi er að finna ástina. Myndin leikur sér mikið með kyn, vitrustu persónurnar í myndinni eru Leeloo og óperusöngkonan Plavalaguna, sem eru báðar ævafornar og kvenlegar geimverur. Þær eru viðkvæmar og líflegar en karllægur heimur ofbeldis og átaka vill tortíma þeim. Skýr mörk eru dregin milli þess kvenlæga og karllæga í efni myndarinnar.

Hinsvegar er helsti galli myndarinnar sá að þó hún noti birtingarmyndir kynjanna til að fjalla um átök og lífið, þá er myndavélin kynjuð og horfir mun karllægari augum á Leeloo í samanburði við karlmenn sögunnar. Í því samhengi má nefna hugtakið ‚,male gaze” (Mulvey, Laura. 1975). Í myndmáli sögunnar er lína dregin milli líkamlegs útlits Leeloo í augum karlmanna og prýði hennar sem bjargvætti alheimsins, með hætti sem gefur fyrri hluta myndarinnar perralegan  undirtón. Ég trúi að það sé ómeðvitað en þessi undirtónn er til staðar ef þú fylgist vel með. 

Seinni hluti myndarinnar er töluvert betri hvað þetta varðar. Ástarsamband karlhetjunnar Korben og Leeloo verður ljúfara, þar sem minni áhersla er lögð á líkamlega hrifningu en á sama tíma er erfitt að horfa framhjá hversu óþægileg viðbrögð mismunandi karlmanna eru þegar þeir sjá hana fyrst. Þessi þematíska þverstæða er ennþá undarlegri ef litið er til þess hve barnsleg kveikja liggur á bak við sögunna. Myndin er bókstaflega sköpuð út frá skissum úr barnæsku leikstjórans. Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að mynd um hvernig barnslegt sakleysi súrnar vegna átaka mannfólksins innihaldi ákveðna spillingu á sakleysislegum skissum Luc Besson þegar hann er orðinn fullorðinn maður.

Kveikja þessarar greinar var fyrst og fremst að hvetja lesendur til að horfa gagnrýnum augum á list og afþreyingu sem þeir njóta og að gera sér grein fyrir því hvaða öfl eru á bak við menningu sem ríkjandi hugmyndafræði skapar, í þessu tilviki ríkjandi karlmennska. Það að gagnrýna list og afþreyingarefni sem þú neyttir í barnæsku er sérstaklega krefjandi og krefst þess að skoða hvernig menningin hefur mótað þig. En fegrun á list og menningu úr barnæsku þinni er eitt það hættulegasta sem þú getur gert ef þú vilt að listin nái framförum í samfélaginu.

HÖFUNDUR: Óðinn Jökull Björnsson

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search