Hágæða Bachelor, drama á sterum

Fyrir aftan Dominos í Hjarðarhaganum leynist lítill danssalur sem kemur rækilega á óvart. Við fyrstu sýn er eins og maður hafi jafnvel farið húsavillt (það þarf nefnilega að finna bakdyrnar til þess að komast að), en þegar inn er komið verður ljóst að Frúardagur ætlar sér að heilla mann upp úr skónum. 

Fyndin og fagmannleg paródía

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Leikritið Bachelorið er það sem mætti kalla interaktívt, þá er áhorfendum boðið að taka virkan þátt í sýningunni og Frúardegi tekst nokkuð vel til ef marka má viðtökur samáhorfenda minna í salnum. Í fyrstu er í raun ekki greinilegt hver er leikari og hver ekki, hópurinn einfaldlega flæðir svo vel saman. En smám saman áttar maður sig á því að allir á sviðinu eru í raun leikarar, þótt sumir þeirra eigi í beinum samskiptum við áhorfendur. Boxið er þannig brotið upp á áhugaverðan hátt sem skilar sér algjörlega.

Boðið er upp á hnitmiðað grín á kostnað hinna raunverulegu Bachelor þátta, en allir sem hafa horft á meira en 10 mínútur af þeim vita hversu hlægilegir þættirnir eru. Fyrir utan það kafa höfundar leikritsins einnig djúpt ofan í kjarna raunveruleikaþátta og sýna fram á hversu fjarstæðukenndir þeir eru í raun og veru. Grínið virðist ganga út á það að enginn þátttakenda virðast gera sér grein fyrir fáránleika Bachelor hugmyndafræðinnar og neita svo að hlusta þegar einhver utanaðkomandi bendir þeim á hann. Sýningin tekur drama á annað level og hermir þannig vel eftir fyrirmyndinni.

Of mikið að gerast í einu

Þrátt fyrir mikið skemmtanagildi er eitt og annað sem mætti bæta í leikritinu. Ef til vill er það bara reynsluleysi, eða kannski ofmetnaður, en manni fannst oft eins og endalaust væri verið að bæta við nýjum og nýjum fléttum í söguþráð sem var þegar orðinn flókinn. Það var of mikið að gerast hjá ótalmörgum persónum og þó svo að sum atriði hafi verið fyndin þá voru þau stundum algjörlega ónauðsynleg fyrir þróun atburðarásinnar. 

Nútímaleg nálgun

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Stærsti kostur sýningarinnar er að mismunandi kynhneigðir sem eru til í raunverulegu samfélagi en birtast alltof sjaldan á sviði, eru sýndar í jákvæðu ljósi. Framleiðendur leggja augljósa áherslu á að allir keppendur í ,,Bachelorinu”, bæði strákar og stelpur, eru stödd þar vegna þess að þau hafi áhuga á báðum einstaklingum, sama af hvaða kyni þeir eru. Þar að auki er tæknin nýtt á skemmtilegan hátt með upptökum og ,,beinni útsendingu”. Þar má sérstaklega nefna síðasta hluta leikritsins sem bindur söguþráðinn saman með einskonar upprifjun á atburðum kvöldsins. 

Bachelorið er bráðfyndið leikrit sem hentar öllum. Það er hressandi að sjá sýningu sem leitast við að brjóta upp hefðbundna formið sem leikhúsið virðist oft festast í, og enn skemmtilegra að sjá það gert á fagmannlegan hátt af svo ungu og óreyndu fólki. Þar að auki er greinilegt að teymið hefur æft sýninguna í þaula en það mátti varla sjá að neitt færi úrskeiðis. Bachelorið tekst á við áskoranir leikhússins á spennandi hátt, gerir gamalt konsept frumlegt á ný og það hittir alveg í mark.

Frúardagur, takk fyrir mig.

PENNI: Arney Íris E Birgisdóttir

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search