Hvað er kona af konu fædd?

Fyrstu helgina í janúar héldu vinkonurnar Melkorka, Iðunn og Guðný listasýningu með feminísku þema. 

Sýningin heitir ,,Hvað er kona af konu fædd?” sem er tilvitnun í Sölku Völku fyrir þá sem hafa lesið þá bók. Melkorka Gunborg Briansdóttir, Iðunn Gígja Kristjánsdóttir og Guðný Margrét Eyjólfs stóðu að sýningunni. Stöðugur straumur af fólki var á sýningunni þrátt fyrir brjálað veður og appelsínu gula viðvörun. Stelpurnar segja að það var ekki einu sinni hægt að segja að það hafi verið ,,vel mætt miðað við veður”, því það hefði verið vel mætt í góðu veðri líka.

Sýningin var haldin í Gallerí Stundum sem er staðsett við heimili Melkorku á Seltjarnarnesi. ,,Þetta rými, sem er stundum gallerí, er í raun tilraunaverkefni sem er nýfarið af stað. Þetta rými á að vera vettvangur fyrir fólk sem vill gera eitthvað skapandi, hvort sem það er myndlist, tónlist, sviðslist eða ritlist, bara hvað sem er.” Það er hægt að fylgjast með sýningum sem eru haldnar í galleríinu á Instagraminu galleri_stundum fyrir áhugasama.

Pressan getur verið skemmtileg

Fyrsta sýningin var haldin í fyrra og þá datt Melkorku í hug að fá Iðunni til að sýna í rýminu.

,,Mig langaði svo mikið að Iðunn fengi að sýna teikningar sínar hérna. Þær eru kveikjan að sýningunni. Svo vatt sú hugmynd upp á sig og við fengum Guðný Margréti til liðs við okkur. Ég ákvað svo að vera með vídjóverk og ljósmyndaþátt sjálf.”

Iðunn segir að hún hafi lengið verið með þá hugmynd að halda sýningu með þessu þema, en það var ekki fyrr en stelpurnar ákváðu að kýla saman á þetta núna rétt fyrir jól sem eitthvað fór að gerast. ,,Það var rosalega lítill fyrirvari. En pressan sem fær mann til að drífa í hlutunum er mjög skemmtileg. Svo kom Guðný óvænt inn og kláraði verk fyrir sýninguna á tveimur dögum.”

Plastmálverk og málverk á lak

Melkorka segir að það eina sem þær gengu út frá við listsköpunina var þemað ,,Hvað er kona af konu fædd?”, þannig listverkin eru öll með feminískum blæ. ,,Annars vorum við algjörlega frjálsar í því sem við vorum að gera. Við vorum bæði með teikningar, ljósmyndaþátt, vídjóverk, plastmálverk, málverk á lak og klippimynd. Þannig við vorum að vinna með allt mögulegt en út frá sama þemanu.”

Aðspurðar hvort stelpurnar ætli sér að sýna aftur saman segja þær að það sé aldrei að vita. ,,Ég er að læra bókmenntafræði á meðan bæði Iðunn og Guðný stefna á áframhaldandi listnám,” segir Melkorka. ,,Þannig það er spurning hvort að leiðir liggja saman aftur. Það er aldrei að vita.” Bæði Iðunn og Guðný stefna á að sækja um nám í Listaháskóla Íslands, en Guðný er í fornámi í Myndlistaskólanum í Reykjavík. ,,Svo sér maður bara hvert lífið leiðir mann.

PENNI: Sólrún Freyja Sen

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search