Ungt fólk er í viðkvæmari stöðu á vinnumarkaðinum. Ungt fólk treystir oft á það að fólk sé heiðarlegt og fylgi lögum við ráðningar en því miður er algengt að brotið sé á réttindum ungs fólks. Ástæðurnar eru margþættar, ungt fólk hefur ekki mikla reynslu, vinnur ekki lengi á hverjum vinnustað fyrir sig og er ekki upplýst um réttindi sín í upphafi ráðningar.
Efling hvetur ungt fólk, sem hefur verið brotið á að deila því með öðrum. Reynslusögur verða birtar á vef Eflingar og Facebooksíðu þeirra. Ef fólk hefur áhuga á að deila sögu sinni skal viðkomandi hafa samband við Eflingu í gegnum [email protected].
Algengt er að brotið sé á eftirfarandi réttindum ungs fólks:
- Allir eiga að fá skriflegan ráðningarsamning og að það sé samið um hlé á vinnutíma. Ef ekki fæst tími til þess að taka hlé á vaktinni á að greiða fyrir það.
- Allir eiga að fá launaseðil eftir hvert launatímabil og sniðugt er að renna yfir hann og sjá hvort allt stemmir.
- Allir sem hafa unnið einhvern hluta af árinu eiga að fá orlofsuppbót í júní og svo desemberuppbót í desember.
- Vinnuveitandi á alltaf að greiða fyrir prufuvaktir.
- Ef þú getur ekki mætt á vakt vegna veikinda er það á ábyrgð yfirmanns að finna afleysingu en aldrei á þinni.
- Þú átt rétt á að vinna alla vaktina þó að það sé lítið að gera og atvinnurekandi stingur upp á að þú farir fyrr. Ef þér er sagt að fara fyrr af vakt áttu rétt á að fá alla vaktina greidda.
- Minnst 10.17% eiga að vera greidd ofan á launin þín sem orlof. Orlofið er lagt inn á reikning í þínu nafni.
- Starfshlutfall er ávallt tala en ekki bil, til dæmis 70-80%.
Á síðu Eflingar standa eftirfarandi upplýsingar og þar er ungt fólk hvatt til að leita til þeirra svo hægt sé að koma í veg fyrir að einstaklingar/fyrirtæki svindli frekar á fólki.
Ef þú nýtur ekki þessara réttinda á þínum vinnustað, eða þarft aðstoð við lestur launaseðla, getur þú fengið aðstoð á skrifstofu Eflingar.
Hafðu meðferðis:
● Ráðningarsamning, ef þú ert með hann.
● Launaseðla frá síðustu mánuðum.
● Vaktaplanið þitt.
● Þína eigin tímaskýrslu yfir hvað þú vannst mikið hvern vinnudag.
PENNI: María Árnadóttir