Raunveruleikinn við sjálfsvíg

Það er ekki öllum ljóst hversu algengar sjálfsvígshugsanir eru. Samkvæmt World Health Organization deyr ein manneskja á 40 sekúndna fresti af völdum sjálfsvígs á heimsvísu. 

Á Íslandi er sjálfsvígshlutfallið 14 manns af hverjum 100.000 manns á hverju ári. Sjálfsvíg eru algengari en fólk almennt gerir sér grein fyrir og eftir að hafa gengið sjálf í gegnum sjálfsvígshugsanir tel ég mjög mikilvægt að farið sé  út í hvað gerist þegar maður dettur í slíkar hugsanir. 

Þegar maður fellur í verulega vanlíðan fer allur vilji til að huga að sjálfum sér. Maður fellur í alla slæma vana sem maður hefur verið í áður og í mínu tilfelli þýðir það að ég hætti að fara reglulega í sturtu eða að bursta tennurnar. Ég byrjaði aftur að reykja sígó eftir að hafa verið í 10 mánuði bara með vape og hætti að fara út úr húsi til að hitta vini mína eitthvað almennilega. Ég hætti að vilja gera eitthvað umfram það allra nauðsynlegasta, bæði heima og í vinnunni. Mitt gífurlega mikla skipulag fór allt til fjandans og herbergið mitt hefur aldrei verið jafn slæmt og það varð þegar ég var í þessari vanlíðan. Ég átti erfitt með að sofna á kvöldin og þegar mér tókst loks að sofna þá svaf ég hræðilega. 

Hjá mér komu þessar alvarlegu hugsanir upp á kvöldin þegar ég var ein heima. Ég hafði dottið úr skóla vegna persónulegra erfiðleika og mér leið eins og draumar mínir hefðu varanlega brostið. Mér leið eins og framtíð mín væri ónýt. Ég byrjaði að finna fyrir gífurlegum einmanaleika og mér leið eins og ég hafði ekkert að gera yfir fyrirsjáanlega framtíð. Útlit mitt útávið hefur alltaf skipt mig mjög miklu máli. Ég hef alltaf viljað að fólk sem þekkir mig ekkert haldi að ég hafi tök á öllu sem ég hef verið að berjast við og á sama tíma viljað að vinir mínir horfi á mig og segi: ,,Hvernig nærðu að halda andliti svona vel með allt þetta í gangi?”

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Ég reyndi að sækjast eftir að hafa einhver samskipti við einhverja af vinum mínum en án þess að segja þeim nákvæmlega hvað væri í gangi. Það gekk ekkert upp hjá mér og ef ég athugaði hvort einhverjir vinir gætu hitt mig og gert eitthvað þá voru allir uppteknir. 

Stuttu seinna fór ég að hugsa um tattúið sem ég er með á vinstri úlnliðnum mínum, sem er nafn mitt og fæðingardagur minn. Ég fór að hugsa það þannig að á meðan tattúið væri þarna, yrði ég áfram til staðar. Allt í einu fór ég að hugsa um að skera tattúið í tvennt með þeim skilaboðum að ég væri ekki lengur. Sú hugsun var svo gífurlega sterk að ég var tilbúin til að standa upp, taka einn af hnífunum sem ég nota í vinnunni til að opna kassa og gleymdi alltaf að skila, skera tattúið í sundur og gera langa rifu á húð mína í leiðinni. 

Ég gerði mig klára að standa upp og ákvað að athuga á símann minn enn einu sinni, hvort einhver hafi sent mér einhver skilaboð. Ómeðvitað hringdi ég í einn mjög góðan vin minn, hann vissi strax að eitthvað væri ekki í lagi þegar hann svaraði símanum. Ég gat ekki sagt hvað væri að vegna þess að orðin komust ekki út, en hann vissi samt nákvæmlega hvað væri að og hvernig mér leið. Að auki vissi hann nákvæmlega hvað ætti að gera í þessari stöðu.

Á meðan ég var að berjast út úr allri þessari vanlíðan, sem tók mig einn og hálfan mánuð, gerði ég og sagði ýmsa hluti sem ég sé eftir í dag. Til að byrja með þá einangraði ég mig verulega frá öllum vegna þess að ég vildi ekki gera neinum neitt. Ég hafði eiginlega eingöngu samskipti við eina vinkonu mína úr skólanum sem ég vissi að væri slæm hugmynd. Ég reyndi að hætta samskiptum við hana en það gekk ekkert vegna þess að þegar ég hætti samskiptum við hana þá hafði ég nánast engin samskipti við neinn og mikill einmanaleiki drepur fólk. 

Eitt kvöldið sagði ég þessari vinkonu minni hvernig mér líði og lét það hljóma eins og það væri allt henni að kenna. Ég veit ekki hvort ég var að reyna að enda öll samskipti fyrir full og allt eða hvort ég vildi auka samskipti mín við aðra. Kannski var það blanda af hvoru tveggja. Nokkru seinna fór ég með vinum mínum að reykja gras í þeirri von um að hætta að geta talað, ég lenti í því þegar ég reykti gras áður, og það tókst. Ég hætti að geta talað. Ég gat þar af leiðandi ekki sagt eitthvað vitlaust við neinn eða sagt eitthvað án þess að hugsa eins og ég gerði við þessa vinkonu mína.

Þetta er alvarlegur vítahringur sem allir þurfa aðstoð við að komast úr. Hægt er að fá aðstoð meðal annars hjá Píeta samtökunum. Það er alltaf von fyrir alla sem leita sér aðstoðar og leggja fram þá vinnu sem þarf til að komast út úr þessari stöðu. Vinnan er ekki lítil en hún er virkilega mikilvæg fyrir bæði líkama og sál. Það sem kemur eftir svona vanlíðan er ekkert annað en nýtt upphaf.

PENNI: Elín Ósk Þórisdóttir

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search