Ótitlaður prósi

Það er ekki eins og ég reyni ekki að biðjast afsökunar. Á því sem ég sagði. Á því sem þú sagðir. Á því sem við gerðum af okkur. Að liggja samofin sænginni langt fram eftir degi. Að njóta þess að finna kölnarvatnslyktina af koddanum mínum þegar þú ferð í sturtu. Að stynja af gleði þegar alsælan fellur yfir okkur. Að koma saman niður eftir daga langa vímu. Að tala aðeins illa um mig fyrir framan vinina. Að kenna þér um lægðina. Að dangla aðeins í mig. Að hylja marblettina. Að gráta svo dögum skipti. Að eiga leynilega ástarfundi í hinum ýmsu portum borgarinnar. Að öskra aðeins á hvort annað. Að lykla bílinn þinn. Að henda mér í sófann. Að elskast samfleytt í heilan sólarhring. Að sækja þig í orgíupartý snemma á sunnudagsmorgnum. Að finna stubbinn brenna húðina við olnbogann. Að finna aðeins meira til. Að fara blindfull í sleik við eina strákinn sem kemur vel fram við mig. Að henda mér utan í steindan húsvegginn. Að sjá þig öskra á nýja kærastann. Að hringja í þig klukkan þrjú um nótt og grátbiðja þig að snerta mig. Að sjá eftir öllu daginn eftir. Að endurtaka leikinn að ári liðnu. Að festast í vítahring. Að komast ekki út úr húsi. Að sökkva aðeins lengra ofaní baðkerið. Að vonast til þess að hjartað byrji aftur að slá. Að biðjast afsökunar. Einu sinni enn.

Höfundur: Ragnhildur Björt Björnsdóttir

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search