Bókmenntasamfélagið er galopið, bankaðu á dyrnar

Ég fékk þann heiður að setjast niður með Fríðu Ísberg í vikunni og spyrja hana að ýmsu. Fríða er 26 ára rithöfundur og er staðsett í Reykjavík. Það var einstaklega ánægjulegt að spjalla við hana um skrif og hennar leið á staðinn sem hún er á. 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Hvenær byrjaðir þú að skrifa? Hvað var það sem þú skrifaðir helst um?

Ég var ung þegar ég byrjaði að lesa, sennilega um 6 ára gömul. Pabbi var náttúruljósmyndari og tók mig með sér og öðrum jeppakörlum hringinn í kringum landið á sumrin. Þá var ekkert annað að gera nema að lesa, þannig varð ég fljótt mikill lestrarhestur og fór að svara því. Maður fær innblástur frá einhverju og vill strax svara því með einhverjum hætti. Það sem ég skrifaði fyrst voru stuttar barnasögur og rímukvæði. Eftir því sem ég varð eldri fór ég að lesa erfiðari bækur og þar af leiðandi fór ég að skrifa flóknari texta. Harry Potter var til dæmis mjög stór fyrir mér. Ég byrjaði að lesa bækurnar þegar þær voru enn að koma út svo ég þurfti að bíða, ótrúlega spennt, eftir næstu. Þá byrjaði ég að skrifa fan fiction um allskonar senur og endi á bókunum. Það var mjög sterkt fan fiction samfélag á netinu og það var mjög skemmtilegt að fylgjast með því og vera partur af því. 

Hvernig var umhverfið í MH fyrir ritlist? Var eitthvað rými fyrir það?

Það var haldin ljóðakeppni Beneventum (skólablaðsins) og stundum líka smásögukeppni. Svo var auðvitað hægt að bjóða sig fram í ritstjórn blaðsins. Ég man ekki eftir ljóðakvöldum eða ljóðabókum sem voru gefnar út af skólanum eins og var gert fyrir mörgum árum. Ég man hins vegar eftir því að ritlist hafi verið kennd sem námskeið tvisvar á ári en ég fór aldrei á það, ég var upptekin af öðru. Ég útskrifaðist á þremur árum áður en það varð viðmiðið, svo það var mikið að gera hjá mér. Svo var ljóðið heldur ekki í tísku, það var ekki eins vinsælt og það er orðið núna. Meðgönguljóð voru ekki byrjuð, Partus var ekki byrjað, það var dauður tími í ljóðlist einmitt þegar ég var í menntaskóla. Upp úr 2000 – 2008 var mikil ljóðasena og hópur sem kallaði sig Nýhil var ráðandi en dó út um svipað leyti og hrunið skall á. Ég vissi að það væri annað fólk að skrifa og ég vissi hverjir það voru en við fundum aldrei hvort annað og töluðum aldrei um það. Svona eftir á að hyggja finnst mér ég hafa verið ein og útaf fyrir mig með skrifin. 

Hvenær fórstu að gefa út efni? Hvað var það?

Ég ætlaði mér alltaf að gefa út ljóðabók áður en ég varð 19 ára því Steinunn Sigurðardóttir gaf út sína fyrstu bók 19 ára. Það varð ekkert af því, hún brann inni. Ég var með mikla fullkomnunaráráttu og fannst að ef ég ætlaði að gefa eitthvað út þá þyrfti það að vera frábært. Ég skrifaði bók sem hét Bar 8 og bjó inni í Google Docs skjali hjá mér. Hún er þar ennþá en ég ætla mér ekki að fara að leita að henni. Eftir MH fór ég í heimspeki í HÍ og þar byrjaði ég á bók sem heitir Vindhani. Bókin fjallar um að finna áttina sína, finna sína leið. Það besta úr þeirri bók varð svo miðkaflinn í Slitförinni, fyrstu ljóðabókinni minni. Hún var gefin út þegar ég var 24 ára svo þetta voru átta ár sem liðu frá því ég ætlaði fyrst að gefa eitthvað út og þangað til Slitförin kom út. Að einhverju leyti finnst mér það leiðinlegt. Það er svo gaman að sjá unga krakka í dag dæla út efni því maður lærir svo ótrúlega mikið á því. Maður á að gera mistök, finna stílinn sinn og gefa skít í fullkomnunaráráttuna. 

Segðu mér aðeins frá svikaskáldum.

Við erum sex konur sem erum allar í ritlist og vorum allar þjakaðar af fullkomnunaráráttu og svikaraheilkenninu þegar við hittumst. Við stofnuðum hópinn um vorið 2017, áður en ég gaf út mína fyrstu bók. Við ákváðum að fara saman upp í bústað, skrifa þessa bók yfir helgi og gefa hana út á mánuði. Þetta átti ekki að vera fullkomið, þetta átti að vera pönk. Þetta átti að gefa okkur frelsi til þess að vera og taka pláss í ljóðasenunni. Þessi mánuður varð svo að þremur mánuðum en hún kom samt út á stuttum tíma eins og við höfðum ætlað okkur. Bókin heitir Ég er ekki að rétta upp hönd og vísar bæði í svikaraheilkennið og það að þora ekki að rétta upp hönd, en segir líka „ég er ekki að bíða eftir því að þú gefir mér orðið“. „Ég ætla að taka orðið, taka pláss“. Við höfum gefið út ljóðabók á hverju ári síðan. Önnur bókin okkar heitir Ég er fagnaðarsöngur og við gáfum út þriðju bókina okkar, Nú sker ég netin mín, þann 19. september síðastliðinn. Svikaskáld er hreyfing. Hún er rými til þess að gera tilraunir. Þetta þarf ekki að vera fullkomið, þetta á bara að vera gaman. 

Hvað finnst þér skemmtilegast að skrifa um?

Mér finnst mikið atriði að hafa gaman að því sem ég skrifa og að mér líki við karakterana mína. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að skrifa um kvenkyns vitleysinga, mér finnst þá vanta í íslenskum bókmenntum. Á sama tíma finnst mér nýja narratívan innan kvennabókmennta einstaklega spennandi. Hún er ljóðræn, vitsmunaleg og leitar inn á við. Ljóðið er hins vegar meiri andardráttur. Það kemur til manns með einhverjum innblæstri. Þegar maður er að ganga, vaska upp eða í strætó. Ég sest ekki niður til þess að skrifa ljóð eins og ég geri þegar ég skrifa prósatexta. 

Hvar finnst þér best að skrifa?

Við í Svikaskáldum erum með rými í Gröndalshúsi og ég fer þangað um það bil tvisvar sinnum í viku. Mér finnst samt best að skrifa þegar ég sit við eldhúsborðið heima hjá mér í ró og næði. Þar er ísskápurinn minn og kaffivélin. Ég er sparsöm á orkuna mína. Ég er með frumorku sem varir í 3-4 tíma á hverjum degi sem ég kýs að nýta í skrif. 

Ertu með einhver ráð fyrir ungt fólk sem er að byrja að skrifa og er að reyna að koma sér á framfæri?

Mitt fyrsta og helsta ráð er að lesa, venja sig á það. Hálftíma á dag. Því meira sem þú lest, því betri rithöfundur verður þú. Fyrst kemur lesturinn, svo koma skrifin. Ég uppgötvaði það mjög seint að lestur er skapandi og hvað hann hefur mikil áhrif.

Ég mæli líka með því að finna hvort annað, hlusta eftir því hvort einhver annar sé að skrifa. Það er hægt að mynda rithring eða að hittast reglulega til þess að deila verkum og ræða þau. Mæta síðan á ljóðakvöld og aðra upplestra og biðja um að fá að lesa. Þetta bókmenntasamfélag er galopið. Langflestir eru spenntir að taka við nýliðum. Bankaðu bara á dyrnar. 

Penni: Jana Björg Þorvaldsdóttir

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search