Föstudaginn 20. september gengu þúsundir barna og unglinga úr skóla og út á götur til stuðnings við loftslagsverkfall sem gera má ráð fyrir að muni reynast ein stærstu fjöldamótmæli vegna loftslagsbreytinga fram að þessu. Boðað hafði verið til verkfalls í rúmum 163 löndum, í öllum 7 heimsálfum, og er talið að meira en 4 milljónir manns hafi tekið þátt. Framtakið þykir sérstaklega eftirtektarvert vegna hins mikla fjölda ungmenna sem knýr aðgerðirnar áfram, og þá sérstaklega vegna áhrifa einnar ungrar stelpu sem má segja að hafi borið þessa byltingu á baki sér. Stelpan heitir Greta Thunberg og kemur frá Svíþjóð, en þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára hefur hún komið af stað flóðbylgju um allan heim hvað varðar aðgerðir sem vinna gegn loftslagsbreytingum. Hvernig fór hún að því?
Greta hóf 15 ára að mótmæla fyrir utan þinghús Svía á föstudögum, í stað þess að mæta í skólann. Henni þykir asnalegt að hún skuli þurfa að mæta í tíma og undirbúa sig undir framtíð sína, þegar hún viti ekki einu sinni hvort hún muni eiga framtíð. Ekki leið á löngu þar til menn fóru að veita henni athygli og á innan við ári höfðu nemendur hvaðanæva að úr heiminum fylkt liði og skipulagt svipuð verkföll. Ungmenni kröfðust þess af stjórnvöldum að gripið væri til aðgerða, núna, vegna þess að brátt yrði það of seint. Í desember 2018 höfðu meira en 20.000 manns skipulagt loftslagsverkföll í minnst 270 borgum, og það var strax ljóst að raddir hinna ungu yrðu ekki hunsaðar.
Mannkynið stendur á krossgötum
Samkvæmt tilkynningu Sameinuðu Þjóðanna á síðasta ári verða náttúruhamfarir af völdum hlýnun jarðar orðnar óumflýjanlegar eftir 12 ár. Verði meðalhiti jarðarinnar meiri en 1,5°C mun það auka hættu á flóðum, þurrkum, ofsahita og fátækt um allan heim. Með hliðsjón af því er ekki skrýtið að unga kynslóðin vilji gera allt í sínu valdi til þess að koma í veg fyrir slíkt, þar sem við munum á endanum þurfa að upplifa þær hörmungar sem þá munu verða að veruleika. Embættismenn og annað fólk í stjórnarstöðum virðist ekki gera sér grein fyrir þeim gríðarlega kostnaði sem loftslagsbreytingar munu leiða af sér til lengri tíma litið. Svo virðist sem fólki standi á sama um komandi kynslóðir, svo lengi sem menn fái að njóta forréttinda sinna í friði. Endalaust er almenningur friðaður með málamiðlunum sem lofa öllu fögru, en breytingar virðast gerast svo hægt að það er ekki víst að menn verði enn á lífi þegar nýjar reglugerðir eiga að taka gildi. Þess vegna hefur ungt fólk tekið málin í sínar hendur, og eins og sjá má á verkfallsaðgerðum ætla þau sér ekki að hörfa fyrr en komist hefur verið að ásættanlegri niðurstöðu. Þann 20. september var mótmælt allstaðar frá París, í Seoul og til Buenos Aires. Hreyfingin er meira að segja orðin svo útbreidd að hópur manna á Suðurpólnum tók stuttlega þátt í aðgerðunum.
Við, unga fólkið, erum óstöðvanleg
Hvað getum við gert til þess að leggja málstaðnum lið? Byrjunarreiturinn er að vera meðvitaður, taka ábyrgð og sýna í orðum og verki að þér standi ekki á sama. Hver og einn getur vakið athygli á málinu í sínu umhverfi og þannig sýnt fram á að valdið liggi í raun og veru í krafti fjöldans. Þar að auki má nefna:
- Taktu þátt í verkföllum og/eða mættu á friðsæl mótmæli á föstudögum.
- Vertu meðvitaður neytandi og flokkaðu eða endurnýttu þegar varan hentar þér ekki lengur.
- Kynntu þér málið. Horfðu á heimildamyndir, lestu greinar, fylgstu með áhrifamiklum umhverfisverndarsinnum á samfélagsmiðlum.
- Gerðu ráð fyrir umhverfisvænum breytingum á þínum eigin lífstíl, hversu stórar eða litlar sem þær eru, svo þú getir lagt þitt af mörkum til stuðnings málstaðarins.
Greta Thunberg hóf byltinguna á eigin vegum, en milljónir manna munu standa með henni áður en yfir lýkur. Loftslagsbreytingar er vandamál sem kemur okkur öllum við og það verður erfitt að koma í veg fyrir þær nema við vinnum öll markvisst að því, saman. Tökum ábyrgð og verum næs við plánetuna okkar, vegna þess að eins og við þá á hún bara eitt líf.
Penni: Arney Íris E Birgisdóttir