Lífið á jörðinni byggist á hringrásum. Í náttúrunni er eins dauði annars brauð. Slíkt kerfi kemur í veg fyrir rusl og stuðlar að algjörri endurnýtingu.

Hagkerfið okkar byggist á græðgi og gróða. Til þess að hagkerfi nútímasamfélags gangi upp þarf að vera hagvöxtur á milli ára. 

Meiri framleiðsla, meiri sala, meiri peningur.

Slíkt hagkerfi veldur lélegri nýtingu hluta og óhemjumikils rusl, endurnýtingin er nánast engin og ástandið versnar á milli ára.

Áframhald hefðbundins hagvaxtar þýðir meiri og hraðari loftslagsbreytingar en við gerum okkur grein fyrir. 

Þess vegna ættum við að vilja hringrásarhagkerfi.

Hagfræði og vistfræði þurfa að renna saman í sameiginlega framtíð.

Við þurfum vistvænt hagkerfi sem byggir ekki á hagvexti heldur endurnýtingu auðlinda jarða og hringrásum. 

Með áframhaldandi aðgerðarleysi verður engin framtíð. Það er sannleikurinn. Þetta er veruleikinn.

Vaknið.

Ég er spurð:

Hvað eru stjórnvöld að gera? 

Veistu það?

Af hverju ertu að mótmæla ef þú veist það ekki?

Í seinni heimsstyrjöldinni, þurfti maður að vita hvað stjórnvöld voru að gera?

Voru börnin spurð að því?

Er ekki nóg að vita að það er stríð?

Er ekki nóg að vita að líf okkar og framtíð er í húfi?

Er það mitt að vera með allar lausnirnar?

Nei, það er mitt að þrýsta á stjórnvöld til aðgerða.

Það er mitt að sjá til þess að fólkið sem er menntað í umhverfismálum og vistvænu hagkerfi og fólkið sem stjórnar þessu landi taki höndum saman til að finna vistvænar lausnir og eyða peningunum okkar í framtíð mannkyns.

Það er kominn tími til að mannkynið hætti að vera gráðugt og taki ákvarðanir út frá kærleika, samúð og hagsmunum plánetunnar okkar, því slík hugsun er það eina sem getur bjargað okkur núna.

Það er kominn tími fyrir nýjan hugsunarhátt, því ekki einungis er sá gamli óraunhæfur, heldur er hann beinlínis skaðlegur fyrir umhverfið.

Við erum í þriðju heimsstyrjöldinni.

Við erum að heyja stríð á móti okkur sjálfum, mannkynið gegn mannkyninu.

Núna erum við að eiga við afleiðingar gjörða síðustu kynslóða, tryggjum að komandi kynslóðir þurfi ekki að eiga við afleiðingar okkar.

Vaknið.

Loftslags neyðarástandið er ekki orðið jafnslæmt og seinni heimsstyrjöldin…ennþá.

Öll stríð byrja einhvers staðar, og veruleikinn sem við lifum í núna er upphaf styrjaldar, á heimsvísu.

Ég veit að stjórnvöld eru að gera ýmislegt gott, ég veit að stjórnvöld eru að reyna að leysa vandamálið. 

En þau eru að reyna að slökkva eldinn með vatnsglasi. Það þarf meira til. Pólitíski viljinn er til staðar, en viljinn til að breyta er ekki nóg.

Aðgerðirnar þurfa að vera stærri og róttækari en nokkru sinni fyrr.

Ég veit að stjórnvöld eru að eyða 70 milljörðum í loftslags aðgerðir á fimm árum, í stað þess að eyða 70 milljörðum i aðgerðir á ári, eins og er nauðsynlegt.

Er ekki nóg að ég viti það?

Ég er barn. Ég er ekki einu sinni með kosningarétt, og það er ég sem á að vera með öll svörin.

Þegar ég sé heiminn veslast upp og deyja fyrir framan mig, á ég þá að skrifa lista af aðgerðum sem stjórnvöld eiga að framkvæma? Það er auðvitað frábært ef ég geri það, en það er ekki mitt hlutverk, það er ekki mitt að vinna vinnu ábyrgðaraðila landsins.

Hlustum á börnin og grípum til aðgerða núna! Ekki bráðum, ekki á morgun. Ekki þegar það er orðið of seint. 

Því við viljum ekki aðgerðir núna, við krefjumst aðgerða núna!

Penni: Eyrún Didziokas

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search