Í september verður gengið til Alþingiskosninga og margir hafa eflaust velt því fyrir sér hvaða flokk eigi að kjósa. Flokkarnir eru margir og stefna þeirra er stundum óljós, þingmenn birtast í fyrirsögnunum étandi hrátt hakk, talandi um fjárframlög til Landspítalans eða á sífelldum heimsfaraldssnúningi að röfla um hagkerfið.
Þetta er oft ruglandi og það er freistandi að einfaldlega sleppa því að kjósa. Engum ber skylda að kjósa. Samt er þetta þitt mikilvægasta verkfæri til að hafa áhrif næstu fjögur ár. Þú færð ekki annað tækifæri til að kjósa til Alþingis fyrr en 2025 (nema þingrof eigi sér stað).
Hvað skiptir þig mestu máli? Eru það umhverfismálin? Viltu bættar samgöngur? Lægri skatta? Viltu hjálpa til við að vernda minnihlutahópa? Hvað þú kýst gæti haft áhrif á framtíð þína og annarra.
Kynntu þér alla helstu flokkana, jafnvel þá sem þú hefur heyrt talað illa um eða heldur að þú sért ósammála. Það gæti komið þér á óvart. En þú gætir fengið staðfestingu á því sem þú hélst áður. Fylgstu vel með fréttum en passaðu þig á því hvaðan upplýsingarnar koma. Margir fréttamiðlar eru ekki jafn óháðir og þeir segjast vera. Farðu á vefsíður flokkana og lestu um stefnumálin sem þér finnst mikilvægust. Finndu út úr því í hvaða kjördæmi þú tilheyrir og hvaða listar eru þar í framboði (þar sem þú kýst þingmenn á lista flokksins í þínu kjördæmi en ekki flokkinn sem heild).
Ef enginn flokkanna nær til þín má líka skila inn auðu. Þá ertu að sýna að þú hafir vilja til að kjósa en að enginn þeirra sé að standa sig að enginn eigi skilið þinn stuðning. Ef margir skila inn auðu getur leitt til þess að flokkarnir breyti stefnum sínum til að næla í þessi auðu atkvæði.
Lýðræði er ekki sjálfgefið. Það er fallvalt og til að það virki rétt þarf þátttöku sem flestra sem eiga hagsmuna að gæta í okkar samfélagi, þ. á m. nemendur og ungt fólk. Mættu á kjörstað og nýttu kosningaréttinn þinn!
Penni: Elís