Hvítt súkkulaði

Það er bara eitthvað við súkkulaði; flest höfum við skoðun á því. Sumt fólk hatar það. Annað fólk hatar fólkið sem hatar það. Fátt liggur þar á milli. Súkkulaði býður upp á margar spurningar. Hvort er betra: dökkt eða ljóst? Hvaða fyrirtæki framleiðir besta súkkulaðið? Er siðlaust að kaupa kinder-egg? Þetta eru dæmi um spurningar sem vakna í sögufyrirlestri á fimmtudagsmorgni. Þó er ein spurning sem krefst frekari einbeitingar. Ekki einu sinni glærur um Catullus mega hóta athygli þinni. Þessi spurning er umdeild og hötuð af mörgum. Þó, er hún nauðsynleg. Er hvítt súkkulaði í raun súkkulaði?

Þú hefur eflaust heyrt rifrildi sem fór á eftirfarandi hátt. Einstaklingur sem ber enga virðingu fyrir samtalinu segir hvítt súkkulaði vera ,,fitu- og sykurleðja” – ómeðvitaður um tengsl þess og mjólkursúkkulaðis. Hinn einstaklingurinn höndlar ekki dökkt súkkulaði og vil helst vera barn að eilífu. Hann heldur því fram að hvítt súkkulaði sé jafngilt og lífrænar kakóbaunir. Að sjálfsögðu hafa báðir einstaklingarnir rangt fyrir sér. Ekki vegna þess að rétt svar finnst við þessari spurningu; heldur vegna þess að þau eru bæði fórnarlömb áróðurs. Það er verið að beina fólki frá hinni raunverulegu spurningu. Spurningunni sem öll þessi spilltu fyrirtæki óttast: ,,hvers vegna er mér ekki sama?”.

Raunverulega veltu fyrir þér tilgangnum með því að velta hlutum fyrir þér. Við þurfum ekki að hugsa. Við getum setið kyrr og starað út í loftið. Ímyndaðu þér veruleika þar sem þú upplifir ekki minnimáttarkennd fyrir að hafa ekki skoðanir á tilgangslausum spurningum. Væri sá veruleiki ekki bjartari? Fallegri? Meiri eggjandi? Eru þetta þínar skoðanir eða er ertu að segja eitthvað til þess að virðast hafa skoðanir um lífið og tilveruna? Ég veit ekki með ykkur en ég er ósköp þreytt að hafa skoðanir á hlutum. Hvernig væri að sleppa leikaraskapnum? Næst þegar einhver reynir að draga upp úr þér ferska skoðun um hvítt súkkulaði skaltu svara með skipun sem þú getur raunverulega rökstutt: ,,Láttu mig og fjölskyldu mína í friði.”

Penni: Embla

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search