Þegar þú byrjar í framhaldsskóla fylgir því oftast miklu meira frelsi en áður, en með því getur líka fylgt mikil ábyrgð. Flestir hætta að geta stólað á vasapening frá foreldrum eða finna yfirhöfuð meiri þörf til þess að eiga pening í félagslífið.
Einnig eru framhaldsskólaárin fullkominn tími til þess að byrja að spara fyrir framtíðinni. Safna fyrir fyrsta bílnum eða fyrstu íbúðinni. Það er alltaf persónubundið hvort það hentar hverjum og einum að vinna með skóla. Hér hef ég tekið saman ýmislegt um það að taka sín fyrstu skref inn á vinnumarkað.
Kostir og gallar
Eins og allt annað í lífinu þá fylgja bæði kostir og gallar því að vinna með skóla
Kostir:
Laun (að sjálfsögðu) þú færð loksins aðgang að þínum eigin pening sem þú mátt gera hvað sem þér dettur í hug með og þarft ekki alltaf að biðja um lán frá foreldrum
Reynsla. Það að hafa reynslu á vinnumarkaði er mjög dýrmætt þegar þú heldur af stað út í lífið.
Ábyrgð. Þú lærir að bera ábyrgð á sjálfri/sjálfum þér. Að mæta á réttum tíma, að hringja þig sjálf/ur inn veika/n og að standa sig í vinnunni eru allt hlutir sem krefjast ábyrgðar
Gallar:
Tími. Þú hefur ekki jafn mikinn tíma í félagslífið og áður og ennþá mikilvægar: þú hefur ekki jafn mikinn tíma til að sinna náminu.
Þú þarft að reyna að finna gott hlutfall sem hentar þér þegar kemur að því að höndla bæði fullt nám og hlutastarf.
Hvernig finnur þú vinnu?
Vinnumarkaðurinn er nýr og framandi staður sem þú hefur mjög líklega fengið litla sem enga fræðslu um. Þú veist líklegast ekkert hvar þú átt að byrja eða hvernig þú átt að fara að.
Fyrsta skref er að setja saman ferilskrá. Hún verður alls ekki löng ef þú ert að sækja um fyrsta starf. Ferilskráin skal innihalda starfsreynslu, þetta getur til dæmis innihaldið unglingavinnuna eðs félagsstörf í skólanum ef þú hefur tekið þátt í einhverju svoleiðis. Ef þú hefur alls enga starfsreynslu þá verður þú einfaldlega að sleppa þessum hluta ferilskránnar. Í staðinn getur þú til dæmis sett inn litla kynningu á sjálfum/sjálfri þér
Einnig skal ferilskráin innihalda námsferil. Þangað skaltu taka fram grunnskólan sem þú varst í, hvenær þú byrjaðir og hvenær þú útskrifaðist, framhaldsskólann sem þú ert í núverandi námi í og hvað þú ert að læra og eins öll önnur námskeið sem þú hefur lokið
Síðast en ekki síst skal vera skýr, smekkleg mynd af þér. Ekki er mælt með að setja inn ,,selfie” eða nota einhverjar dramatískar pósur. Þú getur beðið foreldra þína að smella af þér mynd, vertu snyrtilega klæddur og stattu fyrir framan hlutlausan bakgrunn, t.d hvítan vegg.
Hér fyrir neðan má sjá dæmi um ferilskrá. Þú getur fundið ýmis sniðmát á netinu
Staðir sem ráða ungt fólk í vinnu eru lang oftast þjónustu og afgreiðslustörf. Þú getur fundið netföng á verslunum, skyndibitastöðum, bakaríum o.s.fr í þínu nágrenni og sent þeim tölvupóst með ferilskránni þinni. Til eru líka nokkrar síður sem auglýsa laus störf. M.a visir.is, alfred.is og storf.is. Þú gætir þurft að sækja um á nokkrum mismunandi stöðum áður en þú færð boð í viðtal, og eins gætir þú þurft að fara í nokkur viðtöl áður en þér er boðið starf.
Atvinnuviðtöl
Loksins kemur að því að þér er boðið í þitt fyrsta atvinnuviðtal. Þetta getur bæði verið spennandi og stressandi á sama tíma. Hér eru nokkur ráð um hvernig þú skalt haga þér í atvinnuviðtali
Vertu snyrtileg/ur til fara. Þú þarft ekki að mæta í glænýjum jakkafötum og pússuðum skóm, en það er gott að passa að vera búinn að fara í sturtu, greiða hárið og bursta tennur. Það að vera snyrtilegur gefur atvinnurekandanum góð fyrstu kynni og eins getur það gefið þér meira sjálfstraust í viðtalinu. Vertu með síman á airplane mode. Það er ekkert ófagmannlegra en að vera með síma sem er endalaust pípandi og getur það fælt viðtalanda frá því að vilja ráða þig.
Vertu opin/n og róleg/ur í viðtalinu. Svaraðu öllum spurningum, brostu og reyndu að spjalla aðeins við viðtalanda. Þótt þú sért örugglega að deyja úr stressi er best að reyna að leyfa því ekki að eyðileggja viðtalið. Æfðu þig fyrir viðtalið með vini eða foreldri og vertu vel undirbúinn. Algengar spurningar eru: ,,Af Hverju ert þú hæf/ur í starfið?”, ,,Hverjir eru þínir kostir og gallar?”, og ,,Hver eru áhugamálin þín”. Þú verður örugglega einnig spurð/ur hvort þú hafir einhverjar spurningar, reyndu að hafa einhverjar spurningar tilbúnar, það sýnir áhuga af þinni hálfu á starfinu og þá eru meiri líkur á að þú verðir ráðin/n.
Að jafna vinnu, skóla og félagslífi.
Þegar þú byrjar að vinna með skóla getur verið erfitt að reyna að halda öllum boltunum á lofti. Að reyna að vera með góðar einkunnir, hafa tíma fyrir vini og vera góður starfsmaður getur verið of mikið fyrir marga. Reyndu að passa að vinna ekki of margar vaktir á viku til að byrja með. Önnur hver helgi getur til dæmis verið mjög gott hlutfall, eða tveir virkir dagar eftir skóla á viku. Reyndu að passa að hafa alltaf einhverja heila frídaga þar sem þú ert hvorki að vinna né í skólanum svo þú náir almennilegri hvíld. Það er ekki hollt að vinna hverja einustu helgi plús einhverja virka daga.
Reyndu að komast á vinnustað í nágrenni við heimili þitt eða skóla til þess að halda ferðartíma í lágmarki, sérstaklega ef þú ert að ferðast með strætó. Tími eyddur í strætó getur bæst upp í marga klukkutíma á viku ef þú þarft endalaust að vera að ferðast á milli bæjarhluta.
Að vera góður starfsmaður
Þú berð 100% ábyrgð á sjálfum/sjálfri þér þegar þú mætir á vinnumarkað. Ef þú stendur þig ekki í vinnunni og berð ekki virðingu fyrir starfinu þínu þá ber yfirmaðurinn þinn ekki heldur virðingu fyrir þér.
Mættu tímanlega á allar þínar vaktir og vertu tilbúin/n til vinnu áður en vinnutími hefst. Ef þú ert veik/ur þá þarft þú að hringja sjálfur. Það er illa séð að láta foreldri hringja fyrir sig og það er alls ekki nóg að senda sms. Ef ekki er um veikindi að ræða og þú af einhverjum ástæðum getur ekki mætt í vinnu þarft þú sjálf/ur að finna einhvern annan starfsmann til þess að redda vaktinni þinni eða skipta um vakt. Reyndu að halda því í lágmarki að fá annað fólk til að vinna fyrir þig. Það að nenna ekki að vinna er ekki næg afsökun til að mæta ekki.
Númer eitt, tvö og þrjú er bara að vera kurteis og sveigjanlegur í vinnunni, við samstarfsfólk, yfirmenn og viðskiptavini. Gott starfsfólk fær góð meðmæli sem geta gagnast vel þegar kemur að því að sækja um störf annars staðar í framtíðinni.
Gangi þér vel og góða skemmtun! Það eru spennandi tímar framundan.
Penni: Ingveldur