,,Hvað gerðir þú í sumar?”

Þessi spurning er glæpsamlega ofnotuð. Í meirihluta árs rembumst við í þögninni; vonum að kennslustofan leysist upp í glundroða. Okkur vantar einfaldlega umræðuefni. Er skyrta kennarans asnaleg eða heimavinna dagsins erfið? Allt er velkomið. Allt nema áminningar um óspennandi og tilgangslaus líf bekkjarfélaga þinna. Þessar stanslausu áhyggjur varðandi umræðuefni fá þó nokkrar pásur á hverri önn. Til dæmis er nóg um að ræða eftir páska, jól og, að sjálfsögðu, sjómannadaginn. Þó sumarið sé vissulega langur tími, ósnertur af hefðbundnu skólahaldi, fær það ekki sæti í þessari upptalningu. Hvers vegna? Nú, það getur engin sagt neitt um sumarið sitt.

Allir eru spurðir hvað þeir gerðu í sumar. Líkurnar eru að þú fáir svarið: ,,ég vann”, “ég fór til Kaupmannahafnar” eða “ég gerði ekkert”. Allt eru þetta lygar. Vissulega vannstu mikið í sumar, en það sem stendur upp úr er að sjá vinkonu þína detta í skurð í Hornafirði. Þú getur ekki sagt frá því, þú yrðir að sleppa nokkrum… óheppilegum atriðum. Engar áhyggjur. Eftirfarandi eru eintómar lygar sem þú mátt endilega nýta þér þegar þú færð spurninguna: ,,hvað gerðir þú í sumar?”.

,,Ég fór út í geim”:

,,Ég hef aldrei minnst á þetta áður, en Jeff Bezos er guðfaðir minn!”. Þann 20. júlí varstu vakin með miklum látum. Þú heyrir hróp, köll og hristist til. ,,Það eru 40 mínútur í flugtak! Taktu þig til litli ræfill.” Þetta er Jeff Bezos, guðfaðir þinn. Þú hafðir ekki séð hann í mörg ár. Minningarnar koma aftur til þín. Hann tók þig alltaf á hestbak, þú klappaðir bera skallanum hans og sást skælbrosandi andlit þitt endurspeglast á glansandi yfirborðinu. Nú gastu einungis séð samangrett og hrukkótt andlit við rúmgafl þinn. Herra Bezos, eða Jeffy, eins og þú fékkst alltaf að kalla hann, dró þig úr rúminu. 

Flugtakið var áfall. Þar sem alheiminum hefði blöskrað við tilvist tánings í geimnum, var flugsæti þitt lítil dökkblá ferðataska merkt Blue Origin. Ferðin var þó algjörlega þess virði. Bestu 10 mínútur lífs þíns.

,,Ég beið eftir Space Jam 2”:

Þú leist út um gluggan, saknandi körfubolta. Sem betur fer kemur Space Jam 2 bráðum út. Vonandi verður hún góð.

,,Ég fékk Nóróveiru”:

Á meðan lýðveldi alheimsins þrösuðu um sóttvarnaraðgerðir og almúgurinn barðist um sprittbrúsa, áttir þú við erfiðari mál að stríða. Að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður er áhugaverð lífsreynsla. Að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður í miðjum heimsfaraldri er ekki jafn áhugaverð lífsreynsla. Þú eyddir mestöllu sumrinu að stökkva undan fyrrnefndum faraldri; þú lagðir mikið púður í sóttvarnir. Þú varðst hrokafullur, óvarkár. Staðráin að komast undan einum djöfli hljópstu beint í fangið á öðrum. Að fá Nóróveiru var ekki viðbúið, svo mikið var víst. Að kasta upp fyrsta skiptið sem þú hittir foreldra kærasta þíns ekki heldur. Kannski er tími til kominn að safna magapestum? Líkt og Pokémon spjöldum?

,,Ég borðaði 6 skálar af hafrakoddum á hálftíma”:

Þetta var ekki þitt glæsilegasta augnablik, þú viðurkennir það fúslega. Þó, hver getur álasað þig?

Verði ykkur að góðu. 


Penni: Embla

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search