Penni: Elís Þór

(Mannfræðigrein úr framtíðinni) 

„Sú kynslóð sem nefnd er Zoomer-ar (ótengd Súmerum Mesópótamíu til forna) er fædd á árunum 2001 til 2004 og upplifði það að hafa gengið í gegnum sum mikilvægustu ár námsferils síns (framhaldsskóla) í heimsfaraldri. Hún er undirgrein Gen Z kynslóðarinnar. Nafnið kemur til vegna þeirrar aðferðar að kenna nemendum í fjarnámi sem, eins og vitað er, gekk alls ekki.

Allir meðlimir hennar eiga það sameiginlegt að hafa allt niður um sig. Þau misstu úr einu og hálfu til tveimur árum af framhaldsnámi sem þegar var alltof stutt og þá sérstaklega glötuðu þau mannlegri samskiptahæfni, því þeir sem hlýddu kallinu og einangruðu sig hlutu öll samskipti sín í gegnum netmiðla eða úr 2 metra fjarlægð. Fá ný sambönd mynduðust á þeim tíma þar sem erfiðara var að kynnast nýju fólki. Zoomer-kynslóðin öðlaðist þann hæfileika að þekkja fólk bara af augnsvipnum einum saman, þar sem þau notuðu bara grímur. Þau fóru á engin böll sem leiddi til þess að ball- og partímenning á Íslandi lagðist niður eins og víðar um heim.“

Nei djók. 

En í alvöru, mér hefur stundum liðið eins og þetta sé framtíðin. Það kæmi mér ekkert á óvart lengur. Hvílíkur rússibani sem þetta allt hefur verið. Ég sé mikið eftir því að síðasta árið mitt í menntaskóla hafi mest farið í það að hanga fyrir framan tölvuskjáinn. Ég hefði átt að nýta þann tíma til að kynnast fólki betur og njóta framhaldsskólalífsins meðan ég gæti. Ég hef misst af ótalmörgum tækifærum og lagt óendanlega miklu vinnu í verkefni sem fengu aldrei að líta dagsins ljós. Það getur verið einstaklega sárt. Og ég veit að flestir tengja sterkt við þetta. 

Ég hélt að ég vissi nokkurn veginn hvernig menntaskóla- og háskólaárin yrðu. Kannski verður heimskreppan í kjölfar faraldursins þannig að við munum ekki hafa sömu tækifæri og aðrir á undan okkur. Kannski fleiri. Kannski jafnmörg tækifæri en bara öðruvísi. 

Ég veit ekki hvort eða hvenær allt verður „normal“ aftur. Mögulega verður þetta alveg fullkomlega eins og það var nema með nokkrum undantekningum. Kannski allt öðruvísi. 

Sumir eiga eftir að springa af gleði við það að vera innan um stóran hóp en það mun taka aðra marga mánuði eða ár að geta verið aftur í alvöru fjölmenni. Sumir uppgötvuðu ný áhugamál, enduruppgötvuðu gömul, gerðu hitt, þetta og ekki neitt. Sumir hreyfðu sig meira, minna eða alveg jafnlítið og venjulega. Sumir eiga bara góðar minningar úr samkomubanni, aðrir bara slæmar, flestir sitt á hvað. 

En eitt er víst, þetta hefur verið ógleymanlegur tími og ég get ekki beðið að takast á við það kemur næst en þangað til ætla ég að vera í núinu. Taka einn dag í einu, minnka fjölmiðlastressið og standa mig í sóttvörnunum. Lifa og njóta. Vonandi mun okkur takast það að lifa og njóta. 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search