Penni: Embla Waage
Ef þú ert komin svona langt ber ég mikla virðingu fyrir þér. Þú last þennan titil og hugsaðir með þér: ,,glósutækni, þetta er eitthvað fyrir mig“. Ótrúlegt, hreint makalaust. Mögulega ertu sammála þeirri staðhæfingu að glósur séu ekki hjálpartæki, heldur lífstíll. Ef til vill hefur þú prófað margt og ekkert gengið eftir. Eftirfarandi verður upptalning og innsýn í lífsbrauð nemanda.
Nemandinn sem ekki tekur glósur:
Þessi nemandi óttast ekkert. Hann situr í tíma, sannfærir sig um að undirmeðvitund hans meðtaki upplýsingar og hugsar um Star Wars. Hann reynir ítrekað að sannfæra aðra nemendur að þetta sé meðvituð tilraun. Að þetta sé hans aðferð til að ganga sem best í sínu námi. Innst inni berst samviskan og Megas. ,,Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér“ (Megas, 2015). Þú veist að prófin nálgast óðfluga og þú skilur ekkert.
Kvöldið fyrir prófið kveikir þú á klassískri tónlist, hellir upp á kaffi og finnur quizlet á internetinu góða. Nóttin rennur frá í hálfgerðri leiðslu. Þú lofar sjálfum þér að læra fyrr fyrir næsta próf, en gerir það aldrei.
Þessum nemanda til varnar fær hann oftast hærri einkunnir en nemandinn sem alltaf hélt sér vakandi í tíma.
Nemandinn sem sefur með námsefnið undir púðanum:
Þessi nemandi er ógnvekjandi. Hann heldur sér gangandi á sjálfstrausti og ógurlegu magni af fæðubótaefnum. Líklega hefur einhver minnst á þessa aðferð í návist nemandans og hann dolfallið. Hann hugsar með sér: ,,ég sef hvort sem er allan sólarhringinn“.
Þessi nemandi þekkir ógurlegan mátt þess að trúa fyrirbæri í raunvöruleikan. Auk þess að öðlast vitneskju í gegnum sængurföt getur þessi nemandi þekkt stjörnumerki andstæðings á höfuðlagi hans. Nemandinn þekkir grunnatriði töfraheimsins og nýtir sér hann óspart. Kennarar í orlofum, skyndilegar hugdettur og ástarljóð. Þú skalt ekki halda í eina sekúndu að þetta séu tilviljanir.
Nemandinn sem gerir hugarkort:
Þessi nemandi hefur farið til námsráðgjafans ótal sinnum, alltaf með sama vandmálið. Hann reynir og rembist við námsefnið en skilur enn ekki hvernig hornklofar og logar geti skapað tækifæri fyrir hann. Hvernig virkar þetta? Af hverju þarf ég að læra þetta? Þó er þetta metnaðarfullur nemandi sem ætlar sér langt. Innan ótal tilrauna hefur hann fundið glósuaðferð sem virkar (að einhverju leiti). Hann getur loks spreytt sína listrænu hæfileika og lært, á sama tíma!
Nemandinn sem hengir glósurnar upp á vegg:
Þessi nemandi er ávalt eitt af tvennu: nemandinn sem nálgast kulnun og nemandinn sem lenti í kulnun. Á einhverjum tímapunkti þarf að sættast við núið. Þú hættir að grípa námsefnið eftir ákveðið margar tilraunir. Þreytan fer að segja til sín. Þessi nemandi heldur að hann sé yfir borin hið mannlega eðli. Að hann einn sé með heila svo máttugan að svefn sé undir honum kominn. Varastu að eiga í samskiptum við þennan nemandi á prófatörn, hann gæti bitið þig.
Nemandinn sem ekki skilur sína eigin skrift:
Þessi nemandi á allan heiminn skilið. Hann reynir af bestu getu að skapa pláss fyrir lærdóm og visku. Því miður skildi hann ekki eftir pláss fyrir sig. Það að skilja ekki sína eigin skrift þarf ekki að vera niðurlægjandi. Í versta falli er það hlutlaust. Því miður er mjög létt að gera lítið úr þessum nemanda. Það er aumkunarvert að sjá hann rembast við að lesa sín eigin svör í tíma. Þess vegna eru allir hvattir til þess að klappa þessum nemanda á bakið. Hann á það ósköp erfitt.
Nemandinn sem gerir glósur í tíma og fínpússar þær eftir tímann:
Þessi nemandi er ekki til. Þetta er einfaldlega ljúfur dagdraumur kennara. Yndisleg alda sem skvettir volgum dropum á gangandi vegfarendur. Þetta er nemandinn sem færir kennurum epli í upphafi tímans og kyssir þá undir lokin. Hann grætur aldrei yfir náminu. Þvert á móti, það fær hann til þess að orga úr hlátri! Hver hefði haldið að málshættir gætu veitt mannveru slíka hamingju? Uppáhaldslitur þessa nemandi er hvítur og uppáhaldsmatur hans eru þurrir hafrar. Til þess að undirbúa nánar samvistir við þennan nemanda getur vika í hesthúsi skilað góðum árangri.
Nemandinn sem gerir litla minnismiða:
Þessi nemandi virkar, úr sjónarhorni ókunnugra, saklaus og metnaðarfullur. Þetta er þó aldrei raunin. Í fyrsta lagi hefur hann fórnað óþarflega miklu fyrir hæstu einkunn í grunnskóla. Hann missti allt: tómstundir, gleði og dverghamsturinn sinn. Slíkar þolraunir breyta fólki og er þessi nemandi engin undantekning. Í öðru lagi er lesefni hans af vafasömu siðferði. Frekari útskýring ætti ekki að gerast þörf. Í þriðja lagi býr hann yfir leiklistarhæfileikum sem flestir myndu nýta í fallegan starfsferil. Þess í stað notfærir nemandinn sér það í daglegu lífi. Í neyðartilvikum hefur hann grátið fyrir framan kennara til þess að öðlast þessi 0.35 stig sem vantaði upp á.
Námsferill þessa nemanda vekur aðdáun og ótta í senn. Hafið varan á.
Nemandinn sem tekur glósur á fartölvu:
Þessi nemandi er hávær í tíma. Fyrir tímann tekur hann upp glansandi bleiku fartölvuna sína. Hann lyftir henni jafnvel aðeins upp í loftið. Það er mikilvægt að allir taki eftir henni. Ef nemandinn þarf að endurskapa atriði úr Konungi Ljónanna til þess að ná því fram, gerir hann það. Glósurnar eru slegnar inn af gífurlegum hraða. Nemandinn er auk þess með þunga fingur og getur ekkert af því gert. Hvers vegna ætti hann að hafa hljótt í tíma? Hinn möguleikinn er að vera afskaplega svalur.
Nemandinn með límheila:
Þessi nemandi er allt sem þú gætir óskað þér. Hann hefur ekki tekið bækurnar úr plastinu og veit varla hvernig á að halda á blýanti. Samt sem áður getur hann þulið upp yfir 400 fuglategundir. Ótrúlegt en satt, er svona fólk til. Fyrir þá sem enn ekki vilja trúa, gakktu inn í sögufyrirlestur í Háskóla Íslands. Þessi nemandi glósar ekki en fylgist grannt með.
Þetta er að minnsta kosti það sem hann vill að þú haldir…
Nemandinn sem tekur ,,Cornell-glósur“:
Þú veist að þessi nemandi tekur ,,Cornell-glósur“ því hann segir þér það. Engir feluleikir, ekkert spaug. Þú reynir að forðast nemandann eins og heitan eldinn. Ef þú verður honum fyrir bráð mun hann útskýra allt við þessa ómerkilegu glósuaðferð. ,,Þessi glósuaðferð hefur gjörbreytt lífi mínu. Ég skil ekki hvernig ég gat lifað áður en ég kynntist henni!“ Þú veist ekki hvernig þú átt að segja nemandanum að þessi umræða svæfir þig. Að þetta sé ástæða þess að nemandinn eigi enga vini og að foreldrar hans elski hann ekki.
Til þess að eiga við þennan nemanda er afar mikilvægt að þú prófir ekki að glósa með þessari aðferð. Þótt hún sé bæði skiljanleg og hjálpleg; mun hún aldrei verða þess virði. Um leið og nemandinn sér sköpunarverk þitt ættleiðir hann þig. Hvað verður rætt innan veggja þessa ættleiðingjar? Þú getur rétt ímyndað þér.
Nemandinn sem tekur glósur á ritvél:
Þessi nemandi hefur aldrei verið fjarverandi frá skólahaldi. Jafnvel þótt hann mætir daglega skjálfandi í beinunum. Varanleg heilsufarsvandamál fylgja þessum nemanda. Hann hefur enn ekki vanist augngotum samnemenda sinna þegar ritvélin er dregin upp úr bakpokanum. Óvinsældin er farin að ná til hans. Það að hann bjóði sætisfélögum alltaf upp á heyrnatappa virðist ekki bæta neitt upp. Hvað er ætlast til þess að hann geri? Noti eðlileg skrifæri?