Lyktin er komin aftur. Minnir helst á myglað kjöt. Ég fer út með ruslið bráðum.
Ég kveiki á katlinum og mæli kaffið. Samt ekki í nema hálfa könnu. Ég splæsti í góða kaffið í vikunni en ég tími ekki að klára það strax. Eþíópíska kaffið sem fæst bara í litlu búðinni í Laugardalnum. Formalað, því miður, enda hef ég ekki pláss fyrir kaffikvörn. Ég helli upp á og sætur ilmurinn fyll- ir litla herbergið. Þetta ætti að haldamyglufýlunni í skefjum.
Ef ég bara ætti kaffikvörn. Eða almennilegt eldhús ef út í það er farið. Það er varla að ég komi rúmi og kommóðu inn í þessa kompu svo drauma eldhúsið verður að bíða betri tíma. Í bili er það hitaketill og lítill ör- bylgjuofn úr góða hirðinum.
Ég halla mér aftur í skrifborðsstóln- um. Kaffibollinn í annarri hendinni og dags gamall moggi í hinni. Gamla konan á hæðinni fyrir neðan, sú sem leigir mér þetta herbergi, lætur mig alltaf fá hann eftir að hún hefur lokið sér af. Ég kemst í gegnum fyrstu síðurnar áður en skruðningarnir byrja fyrir utan. Eitt tekur við af öðru. Loksins búinn að losna við lyktina og nú þetta. Fjandans nágrannar alltaf með vesen.
Ég fylgist með í gegnum skráargatið og reyni að koma auga á nýju stelpuna. Tveir strákar basla við að koma rúmi inn um dyrnar hinum megin við ganginn. Á eftir þeim kemur stelpan með skrifborðsstól í fanginu.
Ég sá hana seinast þegar hún kom að skrifa undir. Litli vitleysingurinn hugsaði sig ekki um tvisvar. Hún sá kaffihúsið á horninu, útsýnið útum þakgluggann og leiguverðið gerði úts- lagið. Engar spurningar nema: Hvenær get ég flutt inn?
Hún er þriðji leigjandinn á árinu. Þær eru svo sem allar eins. Litlar, ljóshærðar háskólastelpur sem gef- ast upp á morgunumferðinni. Liggur endalaust á að flytja inn sem fyrst en hverfa svo fyrirvaralaust eftir nokkra mánuði. Alltaf einhver að flytja inn eða út hérna. Og ég fæ aldrei frið.
Dagurinn fer í þetta. Ég hef auga með mannaferðum og reyni að kynn- ast nýja nágrannanum eins og ég get. Ég læt vera að fara fram. Þá þarf ég að kynna mig fyrir henni og vinum hennar. Þeir staldra við eftir að allt er komið upp stigann. Skrúfa saman húsgögnin á meðan stelpan snýr sér að baðherberginu í sameigninni.
Þá liggur við að ég fari fram. Hún ræðst miskunnarlaust þangað inn með ruslapokann að vopni. Hendir öllu sem
henni mislíkar og bölvar sóðaskapnum. Ef hún væri ein hefði ég sennilega skipt mér af henni. Sagt henni að gjöra svo vel og láta baðmottuna mína vera. En strákarnir eru enn þá þarna. Ég fer ekki að vesenast í þeim.
Það er farið að dimma þegar þau koma sér út. Stelpan er þá búin að fara eins og heilagur hreinsunareldur um baðherbergið. Það eru varla ummerki um að nokkur hafi notað það. En í það minnsta er ilmvatnslyktin frammi svo yfirþyrmandi að ekkert þeirra tók eftir myglufýlunni.
Það kom ekki til greina að ég færi út með ruslið með þau þarna á vappinu. Ég skýst út með þetta eftir miðnætti. Þá ætti ég að sleppa við að mæta ein- hverjum.
Þetta er ekki hægt. Nýja stelpan hefur ekki verið hér í mánuð og ég er kominn með upp í kok. Það er aldrei friður fyrir þessari. Hún kemur og fer á öllum tímum. Vaknar ekki fyrr en um hádegið og er aldrei minna en klukkutíma inni á baði. Svo er það annar klukkutími á kvöldin áður en hún fer út. Síðan vakna ég milli fjög- ur og fimm þegar hún staulast upp töppurnar, ælir inni á baði og skríður inn til sín.
Svo eru það lætin í henni. Það hefur ekki verið þögn hérna í staka sekúndu síðan hún flutti inn. Alltaf einhvers- konar tónlist í gangi eða útvarpsþættir sem taka aldrei upp á neinu gáfulegu. Í kvöld heyrist mér það verra djass en ég get ekki verið viss í gegnum veggina. Það er þó skárra en margt annað sem hún hefur tekið upp á.
Kvöldið líður án þess að ég velti henni mikið fyrir mér. Sjaldgæfur frið- ur þessa dagana. Svo kemur að því að djassinn hættir, eitthvað annað tekur við og hún hækkar í látunum. Lagið kanast ég við úr útvarpinu en hávað- inn er ærandi. Enn verra er þegar hún byrjar að syngja með og ekki er sú lagvissasta. Þetta gengur ekki lengur.
Ég bíð þangað til ég heyri í henni fara. Ef henni er treystandi fyrir einhverju þá er það að koma ekki heim fyrr en sólin kemur upp aftur. Ég opna rifu á hurðina mína, heyri í útidyrahurðinni niðri skellast og fer fram á gang.
Ég nota gamalt bókasafnskort til að opna hurðina hjá henni. Ráð sem gamla konan kenndi mér einu sinni þegar ég læsti lyklana mína inni. Það hefur enginn skipt um lása hérna uppi síðan byggingin var reist svo þetta virkar á allar hurðirnar.
Hún má eiga það að hún er snyrti- legri en stelpan á undan henni. Það er búið um rúmið og fölbleikt rúmteppi dregið yfir. Úti í horni er blómapottur en blómið er greinilega plast. Svo er skrifborðið hennar laust við allt drasl en það kemur ekki á óvart. Ef hún er námsmaður yfir höfuð geri ég ráð fyrir að bækurnar séu ekki hennar fyrsta forgangsatriði.
Ég virði herbergið fyrir mér. Eld- húsaðstaðan hennar minnir á mína fyrir utan bauk af instant sem kemur í staðinn fyrir kaffi könnu.
Þá fýkur virkilega í mig. Þessar stelpur eru allar eins. Vilja bara fá koff- ínið en engin hefur fyrir því að hella upp á almennilegan bolla. Að fólk skuli ekki hafa metnað fyrir neinu lengur.
En ég kom víst ekki hingað til að skipta mér af kaffi venjum stelpurn- ar. Stærðarinnar hátalari stendur við endann á rúminu. Þrátt fyrir lætin verð ég að viðurkenna að þetta er ágætis gripur. Marshall hátalari eftir klassíska sniðinu. Brún og gyllt litasamsetningin minnir á betri tíma. Tíma sem hún man ekki eftir.
Ég fálma með annarri hendinni eftir bakhliðinni og finn rafmagnssnúr- una. Tek hana úr sambandi og dreg fram eldhússkærin mín. Ég klippi á þar sem snúran mætir hátalaranum. Ysta lagið klofnar við fyrstu tilraun. Nokkrar atrennur í viðbót og snúran hangir saman á örfáum vírum. Því næst geng ég frá öllu eins og það var, sting snúruleifunum aftur í samband og læt mig hverfa. Þetta ætti að halda henni í skefjum… í bili.
Þögnin dugir í nokkrar vikur. Stelp- an virðist öll hafa róast við þetta inn- grip mitt. Hún kemur minna heim og þegar hún er hérna þá fer minna fyrir henni. Í fyrsta skiptið í tæpan mánuð fæ ég smá vott af frið. En ekkert varir að eilífu.
Ekki löngu eftir að ég losaði okkur við hávaðann sé ég hana dröslast upp með nýjan hátalara í fanginu. Þessi er að vísu minni en ég efast ekki um að hann skili sínu í hennar eilífu herferð gegn ró og næði.
Með tilkomu nýja hátalarans er eins og ýtt hafi verið á takka. Allt sem hafði breyst seinustu vikurnar hverfur aftur í fyrra horf. Hún fer aftur í gömlu stundatöfluna. Vekjaraklukkan í gang þegar ég er að fá mér hádegismat. Læs- ir sig inni á baði þegar ég ætla að vaska upp. Út um dyrnar þegar ég reyni að sofna og inn með látum löngu áður en ég vil vakna.
En í þetta skiptið bíð ég ekki eins lengi. Ég er búinn að átta mig á því að þetta er ekki að fara að skána.
Eins og seinast bíð ég fram á kvöld og læt til skara skríða þegar hún er farin. Nýi hátalarinn er á skrifborðinu hennar þegar ég kem inn. Það er engin rafmagnssnúra á þessum en ég verð hvort eð er að senda skýrari skilaboð. Ég tek hann upp með annarri hendi og grýti honum í gluggann af öllum kröftum. Rúðan mölvast, hátalarinn svífur úr augnsýn og ég fæ aftur að vera í friði.
Það er, þangað til hún kemur heim um nóttina. Klukkan er farin að ganga fimm og sólin farin að láta sjá sig. En það stoppar ekki litla helvítið. Ég vakna fyrst þegar hún reynir að opna hurðina inn til mín. Hamast á húninum eins og enginn sé morgundagurinn þangað til hún áttar sig loksins. Ég er nánast sofnaður aftur þegar hún opnar rétta hurð en þá er allur friður úti.
Hún öskrar og gargar eins og brjálæðingur. Ákallar guð og skratt- ann og allt þess á milli. Síðan heyri ég í hurðinni skella aftur. Hún er enn frammi á gangi og mér heyrist hún vera grátandi. Ég stend upp og legg eyrað upp að hurðinni. Ef ég þarf endi- lega að vera á fremsta bekk get ég allt eins fylgst með sýningunni.
„Hæ … þetta er ég,“ segir hún en kemur varla orðunum upp. „Það var … það er einhver … þú verður að koma…“
Þá fer röddin að fjarlægjast. Ég heyri fótatak í stiganum og síðan skell- inn í útidyrahurðinni.
Ég hef gefist upp á að sofa. Í staðinn helli ég upp á kaffi og kem mér fyrir í skrifborðsstólnum. Ég fer að hugsa um næstu skref varðandi stelpuna. Ég hef nú þegar þurft að þola hana hálfum mánuði lengur en þá seinustu. Ég hlít að geta losað mig við hana bráðum.
Ég legg aftur við hlustir þegar ég heyri í einhverjum koma upp stigann. Þrjú… nei! Tvö saman. Eftir því sem þau nálgast verður kjökrið í stelpunni greinilegra.
„Ertu viss um að það hafi engu verið kastað inn?“ Spyr stráksrödd.
Ég fer að hurðinni og virði hann fyrir mér í gegnum skráargatið. Þetta er annar þeirra sem hjálpuðu henni að flytja inn. Sá lágvaxnari. Hún getur ekki verið hrædd fyrst hún hringir í þessa renglu.
„Kastað inn um glugga á fimmtu hæð? Hvernig á það að vera hægt?“
„Það veit ég ekki,“ tautar hann. Ég býst við að hann sé ekki sáttari en ég að vera vakinn á þessum tíma nætur.
„Dróni kannski.“
„Ég er ekki að búa þetta til. Það var
einhver inni hjá mér!“
Hún opnar hurðina og ég missi út-
sýnið þegar þau ganga inn. Þau muldra eitthvað sín á milli en ég næ ekki nema staka orði þangað til þau koma aftur fram á gang. Þá er hann komin með handlegginn utan um hana. Svo það er þá þannig.
Eftir þetta sést ekki mikið meira af henni. Eigandinn kemur til að gera við gluggann og skipta um lás. Ann- að en það verð ég ekki var við neinar mannaferðir.
Það eru liðnar tæpar tvær vikur þegar hún lætur aftur sjá sig. Ég velti fyrir mér hvað þurfi að gerast til að þessi flytji út en kæri mig ekki um að fá svar við því. Þetta er komið gott hjá henni. Hún fer ekki að ónáða mig eða neinn annan framar. Ég sé til þess.
Það er liðin vika þegar ég heyri næst í mannaferðum frammi á gangi. Það er full snemmt fyrir nýjan leigj- anda hefði ég haldið. Venjulega líður allavega mánuður á milli þeirra.
Í gegnum skráargatið sé ég eigand- ann og með honum strákinn sem kom um daginn. Litlu rengluna sem stelpan hafði hringt í.
„Takk fyrir að hleypa mér inn. Þetta er bara svo ólíkt henni að hverfa svona.“
„Minnsta málið. Ég er ekki vanur að gera svonalagað en eftir atvikið þarna um daginn þori ég ekki öðru. Svo hef ég ekkert orðið var við hana sjálfur. Annars hefði ég viljað að við hringdum á lögregluna sem fyrst.“
Ég hefði mátt vita. Ég sá hvolpa augun í honum frá fyrsta degi. Að sjálfsögðu kemur litli kjölturakkinn að leita að tíkinni sinni. Ég vona bara að hann verði ekki með neitt vesen.
Á meðan eigandinn leitar að lykl- inum lítur strákurinn í kringum sig. Hann virðir fyrir sér hurðina mína og mér finnst hann næstum því sjá mig í gegnum skráargatið. Síðan segir hann eins og upp úr þurru:
„Þú hefur aldrei viljað gera neitt í lyktinni hérna? Hún er alveg að fara með mig.“
„Það er lítið hægt að gera í svona gömlum byggingum. Annars er hún ekki alltaf svona slæm. Það er eins og hún komi og fari.“
Það er svo sem rétt hjá stráknum. Þessi virðist lykta meira en sú seinasta. Ég fer út með ruslið bráðum.