Tilgangur heimanáms

Heimanám er afskaplega eðlilegur þáttur í lífi nemanda. Fæstir nota þó sönnunina „Talan 2 er ekki ræð tala“ í sínu daglega lífi. Margt er óþarft veganesti. Gerir menntakerfið þetta til þess að við göngum með ísskáp af veganesti á bakinu eða er einhver önnur ástæða á bak við aðgerðirnar? Hver er hinn raunverulegi tilgangur með heimanámi? 

Vissulega þarf fólk almenna þekkingu meðferðis inn í háskólann og lífið almennt. Atriði svo sem sannanir og flokkun holufyllinga eru hins vegar ekki lykil inntökuskilyrði í flesta háskóla. Þegar valið er sérhæft háskólanám má búast við að efni sé kennt frá byrjun, þar sem ekki sé gerð krafa um meira en almenna þekkingu efnisins.  Sérhæfður fróðleikur í kennsluáætlunum þeirra ýmsu faga framhaldsskólanna gerir það að verkum að við lærum námsefni langt umfram það sem gerð er krafa til. Við lærum of mörg smáatriði í ýmsum fögum. Sá fróðleikur mun ekki gagnast okkur í háskólanámi. 

Hins vegar er viska sem nemendur tileinka sér um forgangsröðun, viska sem skiptir öllu máli í háskólanum. Þetta er dæmi um staðhæfingu sem flestir vita en fæstir tileinka sér. Oft getur skólinn orðið að heimi nemandans, nýjum veruleika, þannig að hann hættir að skilja raunveruleikann. Nemandinn sér þá aðeins stutt fram á veginn og tekur einn dag í einu. Heimur skólans er gríðarlega krefjandi. Of mikið er að lifa bæði í honum ásamt raunveruleikanum.  

Við veljum að sökkva okkur frekar inn í heim skólans vegna þess að við erum sífellt hvött til þess að setja námið í 1. sæti. Staðreyndin er sú að það að klára allt heimanám fyrir næsta dag skiptir ósköp litlu máli þegar á heildina er litið. Það að koma sér í kvíðaástand, vaka fram eftir til þess að passa það að kennarinn hafi ekkert út á að setja o.s.frv. kemur í raun í veg fyrir það að við lærum að forgangsraða. 

Kennarar gera sér illa grein fyrir því að „samviskusömu nemendurnir“ eru í raun á kolvitlausri leið. Kennarar ýta undir þessa meðvirkni nemenda. Frekar ættu kennarar að hrósa fyrir milliveginn. Kennarar ættu að setja fyrir og ætlast til þess að nemandi forgangsraði. Nemandi þarf að skilja til hvers heimanám er sett fyrir. Tilgangur heimanáms er forgangsröðunarhæfni! 

Með forgangsröðun finnum við milliveginn. Jafnvægi í lífinu. Margir nemendur finna það að þeir brenna út við að setja skólann alltaf í 1. sæti. Þeir fara þá oftast að gefa gleðinni veigameiri sess. En ekki allir. Við erum aldrei hvött til þess. Alltaf er haldið upp á dugnað fram yfir andlega heilsu. Hvað verður um þá nemendur? Og með þá sem eru á hinum endanum? Þeir sem vanræktu skólann algjörlega. Hvernig eiga þeir að finna milliveginn? 

 Penni: Gabriella Sif Bjarnadóttir

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search