Málsháttasafn Framhaldsskólablaðsins

Í dag taldi ég öll orðin sem komu fram í seinasta tölublaði okkar. Niðurstaðan fór sem eftirfarandi: ,það eru mörg orð í einu tölublaði.” Hvað áttu öll þessi orð sameiginlegt? Þau voru sum glæsileg, önnur ómerkilegri en rykrottann sem þú tínir ekki að fjarlægja undan rúminu. Mikið af þeim voru vegleg lýsingarorð og heimspekilegar hugsanir um það sem hefði getað orðið; önnur voru samtengingar og furðulegar sögusagnir um guðbarn Jeff Bezos. Öll eiga þessi orð sameiginlegt að tilheyra skrautlegasta blaði landsins; nefnilega Framhaldsskólablaðinu. 

En hvað er Framhaldsskólablaðið? Er það gagnasafn, sagnfræðirit eða sértrúaðarsöfnuður; kaffihús, blokkarhverfi eða hugarástand? Nei. Framhaldsskólablaðið er, fyrst og fremst, samfélag.

Næsta skref á dagskrá ætti hér með að liggja augum opnum. Við höfum lagt hörðum höndum á komandi verkefni og kynnum með stolti: Málsháttasafn Framhaldsskólablaðsins. Fyrst Framhaldsskólablaðið er fremur lítið samfélag, ætti smátt málsháttasafn að duga. Verði ykkur að góðu!

Það er skammvinn skemmtun að pissa í skóinn sinn, en það er langvinn skemmtun að pissa í skóinn þinn.

Þið þekkið þetta. Eflaust hafið þið flest gert eitthvað kjánalegt til þess að fá athygli eða virðingu annarra. Þið vitið þá hvað fylgir: skömmin mikla. Líklega hugsið þið ennþá um niðurlægjandi atvik sem þú stóðst fyrir í 3. bekk. Við þessu finnst einföld lausn: fylgstu með niðurlægjandi hlutum sem annað fólk gerir. Notaðu þessa hluti gegn þeim seinna, ef þú vilt. En bara það að taka eftir þessum hlutum hjálpar þér. Næst þegar þú færð kjánahroll yfir einhverju sem þú gerðir skaltu hugsa með þér: ,,að minnsta kosti pissaði ég ekki á mig í 9. bekk eins og Einar í 9. KA”. Einar, ef þú lest þetta, vil ég þakka þér innilega. Þú hefur komið mér í gegnum erfiða tíma. 

Hamra skal járnið á meðan það er heitt og lesa skal blaðið á meðan það er heilt

Fyrir þau ykkar sem búa undir steini, er Framhaldsskólablaðinu dreift í framhaldsskóla landsins við útgáfu. Það er gríðarlega gefandi að sjá samnemendur þína halda á fallegu eintaki. Eintak sem hópur af fólki hefur unnið að hörðum höndum í margar vikur. Það er ögn minna gefandi að sjá samnemandann snýta sér með forsíðunni og hendi henni í ruslið. Því er mikilvægt að lesa blaðið sem fyrst! Áður en þú veist af eru busarnir búnir að krota yfirvaraskegg og gleraugu yfir þau öll.

Oft er gott það er gamlir kveða, en oftar er gott það er ungir kveða.

Hversu oft hafið þið fengið sömu ráðin frá sama fólkinu? ,,Ekki vera í símanum rétt áður en þú ferð að sofa.” ,,Ekki bíða með lokaverkefnið fram að seinustu stundu” ,,Ekki skrifa skelfilegar greinar ef þær eru birtar undir þínu nafni.” Satt að segja, hef ég lítin áhuga á ráðum frá miðaldra hagfræðingi. Taktu frekar ráðum frá jafnöldrum þínum! Nei, þú munt líklega aldrei stofna fjölskyldu eða viðhalda stöðugu starfi í meira en ár. En, það sem þú færð í staðin er miklu betra; frelsi.

Penni: Embla Waage

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search