Það er ekkert betra en þetta: dauði, eymd og volæði. Þú nýtur þess að finna lyktina af rotnandi viði og slyddu. Í fjarska falla tár nemanda sem hafa áttað sig á tilvist jólaprófa. Hinir eiga það eftir. Þú ert í hópi hinna síðarnefndu, en þú gerir þér grein fyrir því (og með vitund þinni, ert þú sjálfkrafa betri en þau öll).

,,Ég elska haustið!” segir þú við vinkonu þína sem grátbiður gangandi vegfarendur um trefil, eða úlpu eða teppi, hvað sem er. Þú dregur ýlfrandi hund á eftir rennblautu malbikinu. Hann vildi svo gjarnan verða eftir heima. Nú fær hann kvef, rétt eins og allir höfðu varað hann við. 

Þegar þú færð spurninguna: ,,hvað er hið fullkomna stefnumót?”, stingur þú upp á lautarferð, í Nauthólsvík, í nóvember. 

Þú hefur ekki tölu á því hversu margir hafa kallað þig sadista. Þau skilja ekki og munu aldrei skilja. Haustið er einfaldlega besta árstíðin. Helsta markmiðið þitt er að komast á færi við leðurblöku. Þú hvæsir á sólina til þess að undirbúa þig. Þú trúir ekki á vampírur. Það er margt við þig sem engin skilur. Þú ert einfaldlega einsdæmi. 

Ein morgunin vaknar þú við yndislega myrkrið sem kallar svo fallega til þín. Þú veist að stundin nálgast, þú glottir.

Þú dettur loksins niður, dautt eins og fúið laufblað. Þú trúir því varla, því þér tókst það loksins. Öll þessi bið, öll þessi eftirvænting, allir sem efuðust um þig; þetta var allt þess virði. Þú ert hún.

Þú ert Haustskvísan. 

Penni: Embla Waage

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search