,,Vissir þú að Yahtzee hefur verið staðfest sem hvöt að morði?”

Ég íhugaði að endurtaka setninguna ögn hægar. Miranda leit á mig biðjandi. Það var ekki það að ég hélt að hún myndi skilja setninguna – þvert á móti. Það var ekkert betra en að sjá heilan hennar rembast við einfaldar setningar. Miranda skipaði mér aldrei fyrir. Í stað þess pírði hún augun, horfði á gólfið og kinkaði kolli skömmustulega. Ég glotti.

Við kynntumst á hádegi sem þessu fyrir nokkrum mánuðum. Miranda klæddist hárneti og svuntu sem var líklega hvít á einhverjum tímapunkti; ég klæðist enn agnarsmáum heyrnartólum og pússuðum skóm. Mögulega átti Mike Posner þátt í sambandi okkar tveggja. Ég var að undirbúa mig fyrir komandi vinnudag. Verkefni dagsins voru að kenna fátækum fiskvinnslumanni um farminn sem ég týndi. Ég þrammaði í fiskvinnsluna með sjóðandi kaffibolla og leit yfir verkamannahópinn. Frá svölunum virtust þau hvert öðru ómerkilegri, eins og ég gæti léttilega skipt þeim öllum út. Færiband þeirra gekk einstaklega vel þennan dag – leitt að þurfa að eyðileggja það. Þrátt fyrir að vera siðlaust, þá var ákveðin spenna sem fólst í þessari leit. Hver myndi glata ómerkilegu starfi sínu? Í raun var ég að gera þeim greiða. Nú gæti eitt þeirra hafið líf sem ekki yrði sóað.

Hið ótrúlega gerðist. Sæmilega popp-tónlistin hafði náð risinu þegar fölt andlit leit upp á við. Þetta var ágætlega myndarleg stúlka, þó ekkert minnisvert væri við hana. Hefði hún ekki litið upp hefði ég líklega aldrei veitt henni eftirtekt. En hún hafði litið upp.

Þegar hún var tekin upp á skrifstofu yfirmannsins virtist hún sek, það lá ljóst. Engum myndi nokkurn tímann gruna mína aðild í málinu. Þið megið þó ekki telja mig kjarklausan. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði ég viðurkennt mistökin; að ég hafði enga hugmynd hvar farmurinn væri þótt ég bæri ábyrgð á honum. Þetta var þó engin venjulegur fiskfarmur. Stærsta útboð ævi minnar var á húfi.

Eitthvert kínverskt frystivörufyrirtæki hafði lýst eftir miklu magni af eðalfiski. Sem fjórði mikilvægasti maður okkar fyrirtækis, var útboðið auðvitað á minni ábyrgð. Aðeins tvö fyrirtæki af þeim sem sóttu um, uppfylltu kröfur Kínverjanna: við og Aquino. Sjálfur hafði ég aldrei heyrt um þetta ómerkilega og litlausa félag. Þó ber mér skylda að taka mótframboðinu afar alvarlega. Því sendi ég hinn víðfræga Bjössa ljóta í leiðangur. Hann er dýr maður í rekstri, en skilar einungis góðum afköstum. Farmur hans var sá besti hingað til, það gat hann fullvissað mig um. Ýsan var eins fersk og hún getur orðið. En, einhvers staðar á leiðinni hafði farmurinn horfið jafn skyndilega og faðir minn. Þrír valmöguleikar komu til greina: játa sök mína, saka Bjössa ljóta um föðurlandssvik eða kenna fiskvinnsluverkamanni um verknaðinn.

Þótt hamingjuna vantaði ekki, fór samviskubitið að skríða inn. Grey stúlkan virtist ekki skilja að hún hefði misst það eina sem stóð milli hennar og götunnar. Í hausnum mínum var staðan að minnsta kosti svört. Ímyndaða fjölskyldan hennar grét og bað til allra guða sem þau gátu nefnt. Stúlkan þyrfti að selja sig í vændi og safna skítugum dósum úr ruslatunnum. Ég gerði það sem allar hetjur hefðu gert; ég tók utan um hana og bauðst til að skutla henni heim til sín. Þar sem ímyndaða útgáfan af henni var nú heimilislaus, tók ég þá ákvörðun að heimili mitt væri nú hennar.

Það tók mig nokkra daga, en loks barst mér til eyrna að stúlkan skildi víst enga íslensku. Hún var frá Filippseyjum og hét Miranda. Eftir þrjár vikur af samvistum hafði Miranda reynst mér afar vel. Ég þekkti nú til nafns hennar og þjóðernis; hún þekkti mig. Ætli við séum sálufélagar? Það var aldrei að vita. Þótt vinir mínum fannst hún ósköp ómerkileg var hún fullkomin fyrir mig. Allir gátu séð að ég væri betri en hún. Móðir mín grætur sig í svefn. Ég fagna.

,,Ef þú væri blóm, værir þú fífill,” þetta sagði ég við hana á hverjum morgni. Þarna sat hún, ómáluð og mygluð. Hún sagði aldrei orð. Móðir mín sagðist aldrei hafa hitt manneskju sem hefði upp á svo lítið að bjóða. Þó hittust þær einungis tvisvar. Í fyrra skiptið þegar móðir mín þvoði þvottinn minn. Í það seinna þegar hún braut hann saman. Hún tók það meira að segja upp að fela skrautmuni mína. Að hennar gildishlaðna mati ætti ég að auka trygginguna. Að öðru leiti var heimurinn bjartur. Fiskfarmurinn hafði fundist aftur – ýsan heil á húfi. Yfirmenn mínir voru afar sáttir og lofuðu mér launahækkun fyrir vel unnin störf. Fyrirtækið hafði átt erfitt uppdráttar. Nú leituðum við nýs húsnæðis og fórum að ræða um tígrisdýr á vinnutíma. Við vorum óstöðvandi.

Á þessum tíma varð ég hrokafullur. Það var óþægileg upplifun að vera vondi karlinn. Sérstaklega eftir að hafa verið góður alla mína ævi. Einn þriðjudagsmorguninn, rétt fyrir spinningtímann minn, fékk ég hugdettu. Ég pakkaði í tösku og tók Miröndu til Filippseyja. Þetta átti að vera rómantísk stund. Allar stelpurnar myndu elta mig uppi og ég myndi svara: ,,sorry guys, I have a girlfriend.” Þetta var skothelt plan – að ég hélt.

Ég áttaði mig á því við morgunmatarborðið á sæmilega hótelinu okkar. Í fyrsta skiptið á ævi minni gat ég ekki bætt við staðhæfingum sem allir við borðið vissu þegar. Tungurnar við borðið voru ólíkar minni. Ég neitaði að reyna. Miranda hafði frá nægu að segja. Oftar en einu sinni orgaði borðið af hlátri yfir einhverju sem hún sagði. Í fyrsta skiptið fór ég að efast um samband okkar. Í annað skiptið lokaði ég mig inn á baði og grét. Þetta var mögulega versta augnablik lífs míns.

Það sem hófst í stöku augnabliki varð að heilum degi. Eftir að hafa forðast Miröndu og nýju vini hennar fékk ég símtal frá yfirmanni mínum. Greinilega hafði farmur af ófrystri ýsu ekki gert útslagið hjá kínverska fyrirtækinu. Við höfðum reynt að bæta mál okkar, en Aquino varð fyrir valinu. Þetta boðaði ekki einungis slæma hluti fyrir mig, heldur fyrir allt fyrirtækið. Við vorum á barmi gjaldþrots. Ég skyldi Miröndu eftir á Filippseyjum án þess að kveðja.

Tröppurnar að húsinu virtust óvenju háar. Ég dró ferðatöskuna mína slapplega. Þótt allt væri svart, beið mín lítill hvítur pakki í dyraþrepinu. Áður en ég hafði rænu til að lesa utan af kassanum hafði ég rifið hann upp. Það fyrsta sem kom upp var lyktin. Annað voru svikin. Í kassanum lá einsömul, úldin ýsa. Hver hafði sent pakkann? Miranda Aquino.

Penni: Embla

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search