Ritlist í Háskóla Íslands

Penni: Elís Þór Traustason

Hvað er ritlist?

Hefurðu gaman af því að skrifa? Fílarðu bækur, ljóð, smásögur, leiktexta, þýðingar eða útgáfu? Þá gæti ritlist verið fyrir þig. 

Mér finnst persónulega ritlist vera eitt merkilegasta og mest spennandi fagið í Háskóla Íslands. Það er listrænt og skapandi nám en að einhverju leyti bóklegra en hefðbundið listnám. Það er hægt að taka það með flestum námsleiðum á hugvísindasviði Háskóla Íslands sem aukafag. Þá er það tekið ásamt öðru fagi. 

Spurningar um ritlist?

Huldar Breiðfjörð, lektor við HÍ, gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum fyrir áhugasama. 

Hvernig nám er í boði?

Námið er 120 einingar nema nemandi hafi engan bakgrunn í bókmenntum, þá bætast við 30 einingar á grunnstigi. Ritlist er kennd sem aðalgrein á MA-stigi og aukagrein á BA-stigi.

Hvað er gert í tímum?

Tímar snúast mikið um endurgjöf á verkefni nemenda eða greiningar á hverskyns textum sem hafa verið settir fyrir. Það er líka eitthvað um fyrirlestra og við fáum mikið af skemmtilegum höfundum í heimsókn.

Það má segja að námið skiptist í þrennt. Smiðjur þar sem aðaláherslan er á skrif þátttakenda, lesnámskeið sem eru fræðileg námskeið tengd áhugasviði eða skrifum nemandans (til dæmis bókmenntanámskeið í íslensku) og svo MA-verkefni. Þau verkefni geta verið margvísleg, skáldsaga, leikrit, ljóðabók, kvikmyndahandrit eða hvað svo sem fólk kýs að skrifa. 

Er þetta fyrst og fremst listnám? Er þetta líka hagnýtt?

Útskrifaðir nemendur í ritlist hafa farið í margskonar störf önnur en ritstörf. Til dæmis á fjölmiðlum, í bókaútgáfu og mjög víða í menningargeiranum þar sem ritfærni er krafist. Það er líka algengt að inn í námið komi fólk með aðra menntun, t.d. í sviðslistum, myndlist eða hverju sem er og langi að byggja ofan á hana með því að styrkja sérstaklega ritfærni sína.

Er nokkuð skiptinám í boði?

Já, nemandi í MA-námi í ritlist getur sótt um að verða skiptinemi við erlendan háskóla í eitt misseri.

Geturðu komið með dæmi um einfalda ritlistaræfingu sem lesendur gætu gert heima?

Prófaðu að setjast niður í 10 mín og skrifa setningar sem byrja á „Ég man…“.  

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search