Normelíserum að humblea MR-inga

Penni: Katrín Valgerður

Menntaskólinn í Reykjavík, Lærði skólinn, Latínuskólinn, Reykjavíkurskóli eða einfaldlega Menntaskólinn á rætur sínar að rekja alla leið til ársins 1056. Án efa virðulegasta menntastofnun landsins og viljir þú efla innri mann og gáfur skalt þú samtundis sækja þar um. Þar hafa fjölmargir þjóðþekktir íslendingar setið í kennslustofu og flestir sem þar stunda eða hafa stundað nám hafa lítinn sem engan annan persónuleika en að vera MR-ingur. 

 Það bókstaflega rignir upp í nefið á þessu liði. Þegar að þau eru ekki að tala um latínubeygingar eða eðlisfræðiformúlur, sitja þau og bíða spennt eftir tækifæri til þess að monta sig af orðspori skóla síns. Augu emeringsins ljóma í hvert sinn sem spurt er hvaða framhaldsskóli varð fyrir valinu og egóið fjórfaldast þegar hann fær að blaðra frjálslega um hversu strembið nám hans sé. 

Að því sögðu langar mig til þess að vekja athygli á gríska orðinu hybris (gr. ὑβρις). Íslenska þýðing þess skal vera ofdrambi, hroki, ofstopi eða ofmat á eigin verðleikum eða stöðu. Mér finnst þetta eiga ágætlega við þar sem ágætur fjöldi nemenda fyrrnefnds skóla er haldinn mismiklu hybrisi. 

Þar með segi ég að næst þegar þú mætir MR-ingi skaltu ekki leyfa honum að telja sig yfir þig vera hafinn vegna þess að hann segist vera klárari. MR-ingar hafa gott af því að vera „humbelaðir“. Til dæmis getur þú (sem ert ekki í MR) bent honum á að hann sé í svo gömlum skóla að örugglega ekki verði mikið eftir af aðalbyggingunni bráðlega ef núverandi jarðhræringar halda áfram á sama róli (þetta var skrifað fyrir gosið). Að auki ættu allir námsmenn skólans svo innilega að vona að sú staðreynd, að vítateigar íþróttahússins skerast á miðjum velli, komist ekki í almenna vitneskju.

Jújú, vertu sáttur með að vera ekki tossi en gott er að tileinka sér sið þann að horfa um stund í eigin barm og átta sig á því að þú ert ekki betri manneskja vegna þess að þú lærir heima fimm tíma af deginum. Samt er ákveðinn masókismi við þetta þar sem að engin manneskja algjörlega heil á geði myndi fara sjálfviljug í skóla þekktastur fyrir námslegar pyntingar. Lokapunkturinn er sem sagt sá að næst þegar þú hittir MR-ing skaltu ýtta honum hressilega niður af þessum háa hesti sem hann hefur plantað sér ofan á og segðu honum að öllum sé slétt sama að hann sé í MR.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search