Hvers vegna siðfræði?

Penni: Embla Waage

Ungmenni eru sjálfmiðaðir drullusokkar. Þetta er að minnsta kosti staðalímyndin sem við eltum í blindni. Sum okkar hafa búið til þægilegar venjur til þess að lifa í samræmi við þessa hugmyndafræði. Hvenær ræddir þú við foreldra þína án þess að troða inn smávægilegri lygi? Hvenær borðaðir þú fimm lífræna ávexti á dag? Staðreyndin er sú að þessi staðalímynd byggist á raunveruleika. Þótt flestar áðurnefndu spurningarnar bitni mestmegnis á ungmenninnu sjálfu, finnast margar fleiri sem geta hæft á öðrum. Sem betur fer finnst lausn á þessum vanda. Lausn svo bersýnileg að fáir veittu henni eftirtekt. Að sjálfsögðu þurfa öll ungmenni að læra siðfræði!

Siðfræði getur ekki skapað góðmennsku í börnum Satans. Þó, getur hún leiðbeint þeim í rétta átt. Fyrir ungmenni sem kjósa raungreinar yfir hugvísindi getur þetta ferli reynst erfitt. Það fyrirfinnst ekkert rétt svar. Í staðinn skapar siðfræðin tækifæri til þess að spyrja sig spurninga. Er ég óræsti ef ég stel af ömmu minni? Ætti ég að setja á mig svitalyktareyði eða leyfa bekkjarfélögum mínum að kveljast? Sumir gætu jafnvel farið að spyrja sig enn mikilvægari spurningar. Þetta er fólkið sem viðheldur samfélagi manna.

Vilhjálmur Árnason, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar við Háskóla Íslands, segir hér frá sinni hlið. Hann er prófessor í heimspeki og hefur kennt við háskólan í tæp 40 ár. Auk þess hefur hann skrifað nokkrar bækur: m.a. Farsælt líf, réttlátt samfélag (2008) og Siðfræði lífs og dauða (1993/2003). 

María Árnadóttir | Neminn.is

Erfitt að segja hvort ungmenni séu sjálfmiðuð

Vilhjálmur segist ekki geta svarað þeirri staðhæfingu að ungmenni séu sjálfmiðuð í eðli sínu með einföldu svari. ,,Ég þekki ungmenni sem eru bæði sjálfmiðuð og alls ekki sjálfmiðuð.” Hann tekur þó fram að hann þekki ekki almennt til ungmenna. Auðvitað þekkir hann nemendur sína, sem hann telur afar félagslega meðvitað fólk. Hann nefnir einnig eldri barnabörnin sín sem hafi mikla samkennd með öðrum. Hann myndi því ekki segja, út frá sínum kynnum, að ungt fólk sé nauðsynlega sjálfmiðað. Þó auðvitað séu mörg dæmi um einmitt hið gagnstæða. ,,Ég held satt að segja að mér finnist oft fullorðið fólk sjálfmiðaðra heldur en ungt fólk. Mér finnst oft ungt fólk vera með ríkari réttlætiskennd og hugsjónir sem gleymast með aldrinum.”

Að áhrif siðfræðikennslu séu mikilvæg en stundum ofmetin

Þegar hann er spurður um áhrif siðfræðikennslu í framhaldsskólum segir hann að stundum séu áhrif siðfræðikennslu ofmetin. ,,Ég held að það skipti ennþá meira máli að alast upp við gott uppeldi og samfélag.” Þó getur vissulega siðfræðin aðstoðað við að vekja fólk til vitundar. Fólk getur velt fyrir sér hvernig manneskja það vill vera og hvers konar samfélagi sé æskilegt að stefna að. ,,Siðfræðin hvetur okkur til að hugsa virkilega um mikilvæg efni sem varða okkur sem persónur og borgara.” Þetta á við um fleiri efni, jafnvel tilgang lífsins. Einnig geti siðfræðinám unnið gegn svokallaðri siðfræðilegri blindu. Þegar fólk lætur sér ekki nægilega um hluti varða; siðferðilegar spurningar um ábyrgð og samábyrgð. ,,Ég held reyndar að Covid hafi haft góð áhrif í þessa veru. Við hugsum meiri um samábyrgð okkar.” Hann lýsir því hvernig við stöndum öll saman og berum ábyrgð á þeim sem standa höllum fæti. Þó má gagnrýna að helst virðist þetta vera bundið við landamærin. ,,Ég held að við þurfum að hugsa hnattrænt.” Hann tengir þetta allt saman í þeim skilningi að siðfræðin geti haldið öllum þessum spurningum opnum og vakandi. 

Ungt fólk ætti að láta lýðræði sér varða

,,Hvað er lýðræði? Hvað er mikilvægt við lýðræði?” Ungt fólk ætti að láta þessar spurningar mjög um sig varða. ,,Það er svo hættuleg þróun í samfélaginu í dag, til dæmis á samfélagsmiðlum.” Hér má nefna hinn svokallaða ,,logarithm:a” sem lokar okkur af í bergmálsherbergjum; okkar eigin hópa sem endurspegla einungis okkar eigið viðhorf. Þetta er afar vafasamt ef við ætlum okkur að móta lýðræðislegt samfélag. Þá þurfum við að vera upplýst, gagnrýnin í hugsun og reiðubúin að rökræða samfélagsmál. 

Páll Rafnar Þorsteinsson er verkefnastjóri við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Hann segir hér frá sinni hlið.

María Árnadóttir | Neminn.is Páll Rafnar Þorsteinsson

Siðferðisveran verður til í kjölfar þroska

Það er í eðli barna og ungmenni að vera sjálfmiðuð. ,,Ég er nú tiltölulega nýr faðir. Ég fæ að upplifa mjög sterkt hvað lítið kornabarn er fókuserað á sínar þarfir og langanir.” Á sama tíma finnst honum gaman að fylgjast með hvernig þessi gagnkvæmni verður til. ,,Þessi viðleitni og vilji til þess að sýna væntumþykju.” Þá er í raun hægt að sjá hvernig siðferðisveran birtist. Þetta þróast síðan í gegnum leik og með þroska. Við förum að sýna öðrum meiri áhuga og tillitssemi. Páll tekur einnig fram að siðferði veltur auðvitað líka af aðstæðum og uppeldi. 

Þó segist hann ekki sammála þeirri staðhæfingu að ungmenni séu sjálfhverf. ,,Sumir læra betur en aðrir að taka aðra með í reikninginn… Aðrir virðast fara á mis við það.” Siðferðisvitund er hluti af þroskaferli manneskjunnar. Svo þroskumst við misvel en flest alveg ágætlega.

Að vera ekki sjálfhverfur

Góð manneskja er tillitsöm, réttsýn og sanngjörn. Þetta eru dygðir sem byggjast allar á athöfnum. ,,Það sem einkennir góða manneskju er kannski ekki bara það að gera hlutina, heldur að gera hlutina af ákveðinni ástæðu.” Að gera hlutina með ákveðnum vilja og af glöðu geði. Ekki vegna þess að við upplifum það sem skyldu eða væntingu samfélagsins. ,,Góð manneskja er sú manneskja sem hefur tileinkað sér ákveðna tegund af breytni, gerir hana viðstöðulaust og gerir hana af gleði.” Þessir mannkostir lýsa allir manneskju sem tekur tillit til hagsmuna, tilfinninga og upplifana annarra. Í raun er verið að lýsa manneskju sem ekki er sjálfhverf. 

Mikilvægt er að hugsa um siðferði

,,Fyrst og fremst er gagn á því að hugsa um siðferðilega þætti.” Við erum öll siðferðisverur sem búum við ákveðin siðferðislegan veruleika. Við lærum að horfa á veruleikan frá sjónarhorni annarra eða með tilliti til víðari hagsmuna. Við þurfum að hugsa um siðferði til þess að henda reiður á okkar upplifanir. ,,Það sem við upplifum sem kröfur frá samfélaginu [og] væntingar til okkur sjálfra.” Þó lærum við í gegnum samtal við aðra. Alveg eins og við lærum um sjálf okkur með því að bera okkur saman í skynsamlegu samtali. ,,Siðfræðin er síðan viðleitni til þess að skilja þessa siðferðilegu þætti á skipulagðan hátt.” Að leita eftir samhengi á milli ólíkra þátta siðferðis: t.d. verðmæta, siðaboða og dygða. ,,Þetta auðvitað hjálpar okkur í samtali. Að fara yfir skipulega viðleitni til þess að skilja þetta fyrirbæri.” Að lesa siðfræði í framhaldsskólum væri því mjög gagnlegt að hans mati. 

Hann bætir við að auðvitað sé mikilvægt að vera meðvituð og gefa gaum að siðferðilegum hliðum tilverunnar og lærum þannig í verki; en við lærum líklega mest á því að orða siðferðileg efni í samtali með öðrum. Þannig kynnumst við fleiri hliðum, sjónarhornum og upplifunum. Svo er fræðilega nálgunin ákveðinn “bónus”, sem hjálpar okkur að öðlast skilning og getur t.d. verið efniviður í spurningar og samtal. 

Traust þessarra manna á ungmennum kemur eflaust mörgum á óvart. Auk þess að líta á ungmenni sem fólk, telja þeir að munur siðferðis milli kynslóða sé ekki marktækur. Að minnsta kosti ekki jafn mikill og margir bjuggust við. Það er vissulega engin skaði í bóklegu námi. Þó benda þeir á mikilvægi þess að hugsa um siðfræði og beita gagnrýnni hugsun í daglegu lífi. Sem betur fer fyrir flest okkar, þarf einungis viljan til þess að koma því ferli af stað. Að innleiða þennan vilja í líf þitt getur aðstoðað þig að takast á við hin ýmsu verkefni. Eða það sem mikilvægari er, aðstoðað aðra við þau.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search