Hvaða innihaldsefni í grænmetislasanja ert þú?

Penni: Embla Waage

Sum okkar eru heil af geði. Aðrir velta fyrir sér: ,,ef ég væri innihaldsefni í grænmetislasanja, hvað væri það?” Fyrir þau ykkar sem eru komin svo langt fyrirfinnst engin von. Ef litið er á björtu hliðarnar, færð þú að minnsta kosti svar við þessari blessuðu spurningu.

Kláraðu setningarnar.

Ég er…

a) hörð hveitiplata

b) bítari úr kúr

c) sósa úr tómat

d) sæla úr kota

 2. Mér finnst best að vera í…

a) lokuðum skáp

b) kæliskáp

c) opnum skáp 

d) ruslinu

3. Besti vinur minn kynnir mig sem…

a) elskhuga sinn

b) óvin sinn

c) besta vin sinn

d) kunningja sinn

4. Mér finnst…

a) að við ættum að setja upp borgarlínuna

b) að sumir eiga ekki skilið mannréttindi

c) föstudagar ofmetnir

d) nákvæmlega það sama og þér finnst

Flest A: Lasanja (pastaplöturnar)

,,Kæra Lasanja, hvar værum við án þín?” Þetta er setning sem þú hefur oft heyrt um ævina. Sama hvert þú ferð taka allir eftir þér. Í hvert skipti sem þú gengur inn um dyrnar safnast hópur áhangenda í kringum þig. Engu máli skiptir hvað þú segir, því er ávallt mætt af ýmist hlátri eða döprum augabrúnum. Þó, hefur þú vissulega unnið þér inn þessa virðingu. Þú ert lasanja. Án þín væri hluti Ítalíu enn (líklega) nýlenda Grikkja. Það segir þú að minnsta kosti við sjálfa þig.

Auk þess ertu stoð og stytta fyrir vini þína í ofninum. Þú ert það eina sem stendur á milli lasanja og kássu. Eldfasta mótið kæmi út úr ofninum sem fljótandi réttur. Þú einsömul kemur í veg fyrir stjórnleysi samfélagsins. Þú einsömul skiptir máli í þessum heimi.

Flest B: Kúrbítur

Ekki nóg með það að þú sért umdeildur bekkjarfélagi, heldur ertu einnig umdeildur meðlimur í grænmetislasanja. Í besta falli ber fólki virðingu fyrir því að þú standir með þér. Engum finnst það sem þér finnst, að kúrbítur sé nauðsynlegur í lasanja. Þegar heimurinn virðist svartur og dapur skaltu muna eitt, elsku Kúrbítur; nokkkrum manneskjum finnst þú svo sem ágætur.

Flest C: Tómatsósa

Þú, tómatsósa, ert svo sannarlega vanmetin. Þó þú sért grunnurinn í flest öllum vinsælum réttum Evrópu, hugsar fólk til þín í formi sykurleðju. Það er sárt, þessi einskis nýtta eftirlíking af þér fær allan heiðurinn. Sem betur fer ólstu upp á heimili þar sem þér var kennt að bera virðingu fyrir sjálfri þér. Innst inni veistu að margir standi með þér. Þú ert frumritið; ekkert toppar frumritið. 

Flest D: Kotasæla

Þú átt ekki heima í lasanja. Farðu. Mér þykir vænt um þig eitt og sér, en þú ert á röngum stað á röngum tíma. Flestum líkar við þig, en bara sem vin. Vinsamlegast haltu þér í góðri fjarlægð.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search