Af hverju Andabær?

Penni: Katrín Valgerður

Hver man ekki eftir Andrés Önd? Án efa skapsúrasta önd á gervallri jarðkringlunni sem skundar um í matrósafötum með sjóliðahatt. Andrésar blöðin hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér þó er samt eitt atriði sem hefur vafist fyrir mér öllum stundum síðan ég hóf lesturinn. Andrés Önd býr í Andabæ, eins og flestir vita, en hvernig getur þá staðið á því að Andrés og hans lið, eru einu endurnar á svæðinu?

 Ég hef eytt ófáum stundum að velta því fyrir mér hvernig á þessu geti staðið, að í Andabær, bæ sem kennir sig við endur sé nánast ekkert af öndum? Þetta er án efa með því fáranlegasta sem ég hef heyrt og er mér hulin ráðgáta. Það stóð ekki á milli mála að taka þetta málefni fyrir og komast til botns í því. 

 Nú kæru lesENDUR, þannig eru mál með vexti að Andabær er allegoría fyrir Bandaríkin. Endurnar eru innfæddir og öll hin dýrin, sem eru meirihluti íbúanna, eru innflytjendur og eru staðráðin í að útrýma öndunum. Innfæddir hafa þó möguleika á að lifa sínu friðsæla lífi í samfélaginu en einungis með því skilyrði að þeir aðlagist menningunni. 

Þetta er nokkuð sturluð pæling en skal hafa í huga að stofnandi Andabæjar var enginn annar en Kornelíus Blésönd. Þetta er án efa bein tilvitnun í Bandaríska iðnjöfinn Cornelius Vanderbilt, sem byggði auð sinn á skipum og járnbrautum. Má einnig færa rök fyrir því að mismunandi dýr sem búa í Andabæ tilheyri mismunandi bylgjum innflytjenda til Bandaríkjanna. Endurnar tilheyra fyrstu bylgjunni sem komu frá Skotlandi eins og t.d Jóakim Aðalönd, Hollandi eins og auðvitað hann Kornelíus Blésönd og svo Englandi. Önnur dýr koma svo frá Þýskalandi og Sviss og að lokum frá Suður-Evrópu eins og Ítalíu o.s.frv. Persónulega tel ég bjarnabófana vera Ítala.

Við má einnig bæta að Andrés Önd er holdgerfingur hins vinnusama verksmiðjuvinnumanns þar sem í fleiri en einni sögu kemur fram að Andrés vinnur í smjörlíksverksmiðju. Aftur á móti fær hann litlu framgengt þar sem hann getur varla haldið vinnunni og fær ekki einu sinni skilding frá sandríka frænda sínum. Boðskapurinn er einfaldur: ekki vera fátæk. Kapítalískur áróður upp á sitt besta.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search