“Það þarf að vera miklu meira en að vera bóklega klár til þess að komast inn í þessa skóla”

“Það þarf að vera miklu meira en að vera bóklega klár til þess að komast inn í þessa skóla”

Viðtal við Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur, verðandi Harvard nema

Fimmtudaginn 16. febrúar settist ég niður með Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur, sem mun setjast á skólabekk við Harvard í haust. Við fórum yfir umsóknarferlið, afhverju hún ákvað að sækja um háskóla erlendis og hvað hún er búin að vera að gera í vetur.

Áhuginn kviknaði þegar hún fór í sumarprógram í Bandaríkjunum

“Ég fór í sumarprógram í Bandaríkjunum þar sem ég kynntist bandaríska skólakerfinu og við vorum á stúdentagörðum og mér fannst bara pínu krúttlegt hvernig þetta er bara svona staður þar sem það er allt félagslíf á sínum stað og þú borðar með fólkinu, þú gistir með þeim og þú skapar bara miklu meiri tengsl svona” segir Gunnhildur. Hún sagði bandarísku vini hennar sem hún kynntist í sumarprógramminu hafa kvatt hana til þess að sækja um og segist líka hafa pælt mikið í þessu síðan hún var 15 og að hún hafi bara ákveðið að láta vaða og sjá hvað myndi gerast.

Umsóknarferlið alveg þess virði 

Gunnhildur sótti um háskóla í gegnum Common App, þar sem hún gat gert eins margar umsóknir og hún vildi. Hún sótti um inngöngu í þrjátíu og þrjá háskóla, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

“Ferlið var langt, ég þurfti að taka SAT og TOEFL próf, svo þurfti ég að fá mikið af meðmælendum, ég þurfti að skrifa fullt af ritgerðum, svona amerísku ritgerðum þar sem ég þurfti að tala um tilfinningar og drauma og eitthvað svona.” Gunnhildur fór í mörg viðtöl á zoom og segir það hafa verið mjög stressandi en að þetta hafi allt gengið upp. Gunnhildur þurfti að sækja um skólastyrki og segir það hafa verið mikið vesen, sérstaklega þegar hún þurfti að þýða skattskýrslur sínar og skattskýrslur foreldra sinnna. Hún sagði þessa tvo mánuði sem hún eyddi í þetta vera í móðu en að þetta hafi verið þess virði og að hún myndi gera þetta aftur. 

Þarft að vera meira en bara bóklega klár til þess að komast inn í þessa skóla

Gunnhildur var fyrsti nemandi Tækniskólans sem hafði sótt um í bandaríkjunum og segir hún sig hafa þurft að kenna námsráðgjafanum á ferlið á sama tíma og hún var að læra á það sjálf.

Hún segir að skólarnir úti pæli ekki bara í bóklegum gáfum. “ Þeir horfa á svo miklu meira en einkunnir, horfa bara á hvað við gerum í skóla, þar var ég t.d. Forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema.” Hún segir klárt fólk vera í öllum skólum, hún var á tækni- og vísindabraut sem henni fannst mjög skemmtileg. Hún segir marga segja við hana að 8 í tækniskólanum sé ekki það sama og 8 í MR og segi hún bara, “okei mér er alveg sama, þú mátt alveg segja það ef það lætur þér líða betur en hérna ég er farinn.”

Búin að taka u-beygju varðandi áhuga sinn í námi

Gunnhildur ætlar ekki að halda áfram í tækni og vísindanámi. “ Ég er alveg búin að taka u-beygju varðandi áhuga minn í námi en það er líka einn af kostunum við bandaríska kerfið. Þá sækiru bara um skólann og svo seinna meir þá ákveður þú hvað þú vilt læra. Það er meira segja hægt að taka allt fyrsta árið í að ákveða og prófa allskonar áfanga og þá tekur þú líka grunnáfanga í t.d. siðfræði og heimspeki og svona borgarlegri menntun,” segir Gunnhildur. Hana grunar samt að hún endi í heimpeki og umhverfisfræði, eða einhverri blöndu af þeim fögum. “Kannski tek ég eitthvað tungumál með eða eitthvað þannig, það getur allt breyst.”

Hellingur að gera á Íslandi

Gunnhildur ætlaði ekki að fresta náminu, henni langaði að vera jafnaldri allra nemendanna. Hún hafði tekið sér árspásu en var líka einu ári á undan í námi. “Ef ég hefði byrjað fyrra haust þá hefði ég verið jafngömul bandaríkjamönnum og mig langaði ekki að fresta, ég var búin að taka hálft ár í pásu því ég útskrifaðist fyrr og mig langaði bara í nám strax. En svo kemur Covid og Trump lokar fyrir landsvistaleyfisumsóknir og eitthvað bull og við vorum bara að horfa upp á það að ég hefði byrjað í skóla á netinu á kvöldin, á meðan allir ameríkanarnir fengu að byrjaon campus. Þannig mér fannst það ógeðslega ósanngjart og ég var geðveikt leið.”

Hún ákvað þá að fresta náminu og fór á útivistabraut í Lýðskólanum á Flateyri. “Mér fannst það mjög skemmtilegt, pínu svona covid búbbla, við vorum bara öll saman á heimavistinni og fengum bara að gera það sem við vildum og vorum ekkert að hitta neinn annan. Við vorum bara svona tengdur hópur, lærðum á kayak og fjallamennsku og eitthvað svona skemmtilegt.

Nú er Gunnhildur búin að skrá sig í fjallamennskunám hjá framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu og er á leiðinni á Eskifjörð í fjallaskíðanáms. “Ég hafði séð svo marga taka árspásu og fara í Asíureisur eða eitthvað þannig og ég vildi ekki fara í árspásu og vera bara á Íslandi. Það voru margir sem sögðu mér að ég hefði ekkert betra að gera en að byrja í námi og að það væri ekkert annað að gera á Ísland en svo er bara helling að gera hérna og það er búið að vera svo gaman.” Gunnhildur segir sig hafa uppgvötað Ísland miklu meira. “Ég er búin að lesa fullt að bókum, búin að vera að læra á harmoniku sem er bara mjög skemmtilegt og ég ætla ekki að segja að ég sé sátt að covid kom en ég er samt bara frekar sátt með niðurstöðuna.”

Penni: Stefán Árni

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search