Ráð handa framhaldsskólanemendum

Insennd grein: Helga Arnardóttir, félags- og heilsusálfræðingur

Eins of flestir framhaldsskólanemendur þekkja getur það verið mikið álag og valdið talsverðri streitu að vera í framhaldsskólanámi. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því, bæði er námið meira krefjandi en í grunnskóla en einnig er þetta tími í lífinu þar sem við erum að breytast hratt og nálgast fullorðinsárin. Það er því mikið að gerast innra með okkur sjálfum á þessum tíma sem hefur með sjálfsmynd okkar að gera, félagsleg tengsl, ástarmálin og ýmislegt fleira.

Þess vegna er ekki skrítið að líðan margra á þessum tíma sveiflist mikið og að einstaklingar finna oft fyrir vanlíðan. Það er þó ýmislegt sem við getum gert sjálf til þess að ýta undir aukna vellíðan og tilfinningalegt jafnvægi en það getur svo í kjölfarið haft jákvæð áhrif á námið hjá nemendum og getu til þess að sinna því vel. En ef líðan er mjög slæm og ekkert virðist hjálpa okkur að líða betur er mikilvægt að leita sér aðstoðar t.d. hjá skólasálfræðingi eða námsráðgjafa.

Hér eru nokkur góð ráð sem hægt er að temja sér sem öll hafa vísindalegan grunn á bak við sig og rannsóknir sem sýna fram á að þau virka vel til að efla andlega heilsu okkar og vellíðan:

Góð svefnrútína

Ég veit að við höfum öll heyrt þetta áður en ég held við áttum okkur oft ekki á því hversu mikil áhrif svefninn (eða svefnleysið) hefur á okkur. Langvarandi svefnskortur getur ýtt undir einkenni þunglyndis og kvíða og valdið því að við eigum erfiðara með að einbeita okkur að náminu og öðru sem krefst athygli okkar.

Nokkur góð ráð til að koma svefninum í gott horf:

·  Mikilvægast er að fara alltaf á fætur á sama tíma á hverjum morgni, ekki leggja sig yfir daginn og fara uppí á sama tíma á hverju kvöldi.

·  Forðast að horfa á skjá (sími, tölva, sjónvarp) síðasta klukkutímann fyrir svefn.

·  Forðast drykki með koffíni yfirhöfuð og sérstaklega eftir kvöldmat.

Hreyfing

Þetta er líka eitthvað sem flestir vita að er gott fyrir þá en ég held að margir átti sig ekki á hversu öflug áhrif reglubundin hreyfing getur haft á geðheilsuna. Til dæmis getur 30 mín daglegur göngutúr dregið úr einkennum þunglyndis og aukið hamingju og vellíðan verulega. Hér skiptir mestu máli að velja hreyfingu sem þú hefur ánægju af, þetta getur verið hvað sem er eins og t.d. göngutúrar, sund, dansa, hjóla, fjallgöngur eða hvað sem þér finnst gaman að gera. Hreyfing utandyra í góðum félagsskap er einstaklega góð fyrir geðið.

Núvitundaræfingar

Gerðar hafa verið fjölmargar rannsóknir á áhrifum þess að iðka núvitundaræfingar (mindfulness meditation) og komið hefur í ljós að þær geta haft jákvæð áhrif á líðan okkar og heilsu á fjölbreyttan hátt, meðal annars með því að efla ónæmiskerfið, draga úr streitu, kvíða og þunglyndi og auka jákvæðni og lífsgleði.

Best er að taka eina hugleiðsluæfingu á dag og hafa þær bara stuttar til að byrja með. Það eru til mörg öpp með núvitundaræfingum þar sem við getum hlustað á þægilega rödd leiða okkur í gegnum æfingarnar.

Dæmi um slík öpp eru Headspace, Smiling mind og Calm. Einnig er til íslenskt app með nokkrum núvitundaræfingum sem heitir Happapp.

Vingjarnlegt sjálfstal

Að lokum langar mig að minnast á hvernig við tölum til okkar sjálfra í huganum en við eigum það flest sameiginlegt að vera mun harðari og gagnrýnni við okkur sjálf en við þá sem okkur þykir vænt um. Við eigum það til að rífa okkur niður fyrir hluti sem eru eðlilegur partur af því að vera mannvera eins og að vera ekki með fullkominn líkama, ekki góðu klár, sniðug, fyndin, áhugaverð, smart o.s.frv. Við eigum það líka til að rífa okkur of mikið niður fyrir mistökin sem við gerum eins og þegar við segjum eitthvað asnalegt, föllum á prófi eða finnst við gera okkur að fífli á einhvern hátt. Þá rúlla stundum endurteknar hugsanir um hugann þar sem við ráðumst á okkur sjálf með hugsunum eins og „af hverju sagði ég þetta?!“, „ Hvað er að mér!“ og „ Hver þóttist ég eiginlega vera að reyna þetta, ég get þetta aldrei“ o.s.frv.

Það er gott og gilt að reyna að bæta sig á uppbyggilegan hátt og hvetja sjálfan sig áfram en að rífa sig niður með ljótum orðum og skamma sjálfan sig aftur og aftur í huganum fyrir mistök veldur streitu og getur með tímanum ýtt undir þunglyndi og kvíða.

Það er því mikilvægt fyrir okkur öll að vera með vituð um hvernig við komum fram við okkur sjálf í huganum. Hvernig talar þú til þín þegar þú gerir mistök eða verður vör eða var við galla í eigin fari? Það getur verið gott að spyrja sig: Myndi ég segja þetta við bestu vinkonu mína eða besta vin minn? og ef svarið er eitthvað á þessa leið: Úff nei ég myndi aldrei segja neitt svona við hann/hana, þá er þetta líklega eitthvað sem þú ættir heldur ekki að segja við sjálfa(n) þig. Reyndu þá að snúa harkalegum setningum yfir í setningar sem einkennast af meiri umhyggju og þolinmæði og beina þeim að sjálfum/sjálfri þér á erfiðum stundum. Og munum að það er eðlilegur hluti af lífinu að vera ófullkomin og gera mistök en ekki eitthvað til að refsa okkur sjálfum fyrir.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search