„Ég ákvað að fara í íslenskuna vegna þess að íslenska var uppáhaldsfagið mitt í grunn- og framhaldsskóla“


Penni: María Árnadóttir 

Ég ákvað að fara í íslenskuna vegna þess að íslenska var uppáhaldsfagið mitt í grunn- og framhaldsskóla

Ég tók viðtal við Karítas M. Bjarkardóttur sem útskrifast núna í febrúar með B.S.- gráðu í íslensku og stefnir beint í meistaranám. Ég spurði hana velvaldar spurningar um námið og ráð sem tengjast upplifun hennar af háskólanáminu. Einnig um hvað tekur við hjá henni að námi loknu.

Hvaða menntaskóla stundaðir þú nám við? 

Ég var á Nýsköpunar- og listabraut í Versló.

Hvaða grunnnám valdirðu í Háskóla og hvað hafði áhrif á val þitt? 

Ég ákvað að fara í íslenskuna vegna þess að íslenska var uppáhaldsfagið mitt í grunn- og framhaldsskóla. Ég vissi svo sem ekki alveg hvað mig langaði að gera í framhaldinu, en vissi að ég var góð í þessu og hafði gaman af því. Ég hef aldrei viljað horfa svo á að nám þurfi að vera gagnlegra en það er skemmtilegt, hver nennir eiginlega í leiðinlegt nám?

Var ákvörðunin þér erfið um val á námsleið í háskóla? 

Mér fannst hún ekki erfið, en ég var mjög heppin að uppgötva þennan framtíðardraum strax í unglingadeild grunnskóla. Það er samt svo ótrúlega margt í boði þarna úti og ég hef alla trú á því að ég verði elífðarstúdent, mig langar að læra svo margt. 

Hvernig finnst þér námið í háskóla frábrugðið námi í menntaskóla?

Ég held að það sem er mest frábrugðið mennstakólanum sé stærðarskalinn og kennslufyrirkomulagið. Íslenskan er að vísu mjög lítið fag, svo ég hélt áfram að vera í 20-30 manna áföngum þar sem kennararnir þekktu nánast alla með nafni og kennitölu, en hef heyrt af fólki sem fer í stærri fög (verkfræði, sálfræði og lögfræði, sem dæmi) og finnst mesta breytingin að vera allt í einu með 200 manns í áfanga. 

Hvaða áfangi/ar fannst þér standa upp úr? 

Vá, ég er búin að læra svo ótrúlega margt skemmtilegt. En ég komst fljótt að því að þvert á það sem ég hélt þegar ég kom inn í námið átti bókmenntafræðin mun betur við mig en málfræðihluti námsins. Ég tók til dæmis valáfanga í barnabókmenntum sem mér fannst gjörsamlega dásamlegur og skylduáfanga í samtímabókmenntum. Kennari þess námskeiðs endaði svo einmitt á að vera leiðbeinandinn minn. Ég ákvað eftir eina önn að taka ritlist sem aukagrein og tók fullt af skemmtilegum áföngum innan hennar, til dæmis fékk ég að læra að skrifa kvikmyndahandrit eftir bók í einum áfanga, læra þýðingafræði í öðrum og skrifa kvikmyndagagnrýni í þeim þriðja. Ég útskrifast með fjölbreytta reynslu og þekkingu á bakinu, það finnst mér vera helsti kostur námsins.

Hvað reyndist þér erfiðast í þínu námi?

Hljóðkerfisfræðin, og þessi málfræði sem snerist ekki bara um að vera með sæmilega „rétta“ máltilfinningu. Þetta voru þeir áfangar sem voru eflaust líkastir einhvers konar náttúru- eða stærðfræði í menntaskóla að því leyti að ég þurfti að hafa mjög mikið fyrir þeim og kunni ekki almennilega að meta þá fyrr en eftir á. Ég er engin prófamanneskja, með mikinn próf- og frammistöðukvíða meira að segja, svo það tók mikið á. 

Fannst þér þú vera nógu undirbúinn fyrir háskóla, komandi beint úr menntaskóla? (sérstaklega út af þriggja ára kerfinu).

Mér fannst Versló undirbúa mig mjög vel fyrir þá hluta námsins sem sneru að kynningum, ritgerðum og greinargerðum. Ég hafði fengið góða æfingu í því í menntaskóla og stóð betur að velli en til dæmis krakkarnir sem komu beint úr MR. Aftur á móti þurfti ég svolítið að læra upp á nýtt að læra fyrir próf, hafði engan grunn í hljóðritun og lítinn í miðaldabókmenntum og þurfti svolítið að hafa meira fyrir þeim námskeiðum en krakkar úr MR og MH. Ég held ekki að einn framhaldsskóli geti undirbúið mann fyrir allt það sem koma skal en ég er mjög þakklát fyrir grunninn minn í Versló. Að hluta til er það auðvitað líka sjálfri mér að þakka því ég vissi í hvaða átt mig langaði að stefna og valdi mér framhaldsskólanám í samræmi við það.

Hefur þú einhver góð ráð fyrir verðandi háskólanemendur? 

Mitt allra, allra besta ráð er að lyfta brúnum og anda hægar. Það er enginn heimsendir þó maður fari í háskólanám sem kemur í ljós að hentar manni illa og hætta. Fyrsta valið þarf ekki að vera fullkomið og annað valið ekki heldur og ég vil líka ítreka það að (allavega að mínu mati) það skiptir miklu meira máli að námið sé skemmtilegt og áhugavert en hagnýtt. Það verður alltaf nóg af viðskiptafræðingum og verkfræðingum þarna úti til fólk þurfi að stressa sig á að puða í gegnum eitthvað sem höfðar ekki til þeirra. Nema auðvitað að það sé það sem því finnst skemmtilegt og áhugavert, þá er það bara frábært.

Hvað er þitt draumastarf? 

Mig langar að gera ótrúlega margt. Mig langar að vinna í bókaútgáfu, blaðaritstjórn, fréttamennsku, útvarpi, mig langar að kenna, skrifa bækur, lesa ljóð og prófarkalesa. Meginatriðið er: mig langar að vinna með tungumálið. Ég elska íslensku, hún er nördalega ástríðan mín og ef ég fæ að vinna við nördalegu ástríðuna mína þá er ég bara ótrúlega sátt. 

Hvað tekur við hjá þér eftir BA gráðuna þína? 

Ég er nú eiginlega bara strax byrjuð í meistaranámi, ég er svo spennt týpa að ég get aldrei notið þess að klára neitt ef ég er ekki byrjuð á öðru. Þetta er 90 eininga meistaranám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og inn í því er 20 eininga starfsnám sem ég ætla að taka í sumar, og er mjög spennt fyrir. Mig langar svo einhvern tímann að taka kennsluréttindin, en það væri 120 einingar meistaragráða ofan á íslenskuna, því ég held að það sé alltaf sniðugt að kunna að kenna.

Hver eru þín helstu áhugamál? 

(Var að hugsa að þú myndir skrifa um þau verk sem þú hefur skrifað) 

Ég er orðin algjör prjónakerling og hef rosalega gaman af handavinnu og áhugamálum sem gefa af sér einhverja afurð. Var til dæmis ein af þeim sem fékk súrdeigsæðið í Covid. Svo skrifa ég stundum og þá helst ljóð og hef gefið út fjórar ljóðabækur í sjálfsútgáfu. Það áhugamál hefur svolítið legið í dvala í Covid en ég vona að fari að vakna upp af værum blundi fljótlega.

Ertu að vinna að verki núna?

Það er ekkert eftir sjálfa mig en ég er í mikilli skapandi vinnu í skólanum og meðal annars í áfanga sem gengur út á það að gefa út bók í samstarfi við meistaranema í ritlist. Hún mun koma út í lok maí og verður frumraun mín í að ritstýra skáldverkum. Við erum fjórar sem ritstýrum tæplega tuttugu skáldum og þetta er mikill skóli í samvinnu og fagmennsku. Í fyrra kom bókin Möndulhalli út úr þessum áfanga sem einhverjir heyrðu eflaust af, og það verður spennandi að sjá lokaafurðina í ár, ég hvet alla til að fylgjast með því. Í mínum einkafrítíma var ég, ásamt nokkrum góðum vinum, að endurvekja verkefnin Hráka og Hrækjanda í samstarfi við post-dreifingu. Við héldum fyrsta Hrækjanda ljóðakvöldið 9. febrúar og munum fljótlega gefa út yfirlýsingu um það hvernig Hráka verður háttað í vor, hafi einhverjir áhuga á því að fylgjast með því.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search