Penni: Embla Waage
Frakkar eiga það til að flakka og þá sérstaklega þessi. Hvernig vitum við að hér sé um hreinræktaðan og veluppalinn Frakka að ræða? Nú, hann segir okkur það auðvitað. Að þessu sinni ferðast hann einsamall um stræti Reykjavíkur og talar hvorki við vegfarendur né gallíska hana. Þess í stað má, með mikilli nákvæmni, greina nokkur atriði sem benda á að móðurmál hans samanstendur af óskiljanlegum kokhljóðum. Í fyrsta lagi er hann í síðum, sorglega gráum Frakka sem snertir við ökla hans. Auk þess er hann á hjóli. Rauðu hjóli. Hver sem er getur fyllt í þessi viðmið. Þó, er eitt eftir sem slær hinum gersamlega út af laginu. Fremst á hjólinu er fléttuð karfa sem heldur baguette-brauði í prísund sinni.
Frakkar geta líka verið skemmtilegir. Þessi er með bréfaklemmu í vasanum. Þar sem hann þekkir enga aðra Frakka en foreldra sína (og neitar að sjálfsögðu að tala við einstaklinga af skítugu ætterni) getur hann einungis hrekkt þau tvö. Ótrúlegt að þau hafi ekki ákveðið að gera sig reiðubúin 31. mars. Brellur hans voru undraverðar. Í fyrra sneri hann öllum bókunum í bókahillunni öfugt og árið þar áður þóttist hann vera með heilaskaða. Þetta ár yrði þó öðruvísi. Það yrði ekki undravert, heldur stórfenglegt.
Fyrir framhaldið er mikilvægt að þið þekkið helsta eiginleika föður Frakkans; hann var einfaldur maður. Engin leyndarmál, engin áhugamál og engin millimál. Eftir þrjár máltíðir og átta klukkustundir af starfi sem han ber enga virðingu fyrir sest hann niður og horfir á tennis. Þessi rútína er hvernig hann kýs að lifa lífinu. Ótrúlegt hve mikill lífsvilji hans er í dag.
Síðan Frakkinn var lítill snáði hefur aðeins ein regla verið föst í húsi foreldra hans: ekki fara inn í skrifstofuna. “Pabbi er að vinna,” “Þú mátt gera hvað sem þú vilt, nema að koma nálægt skrifstofunni,” “Mon dieu! Ekki koma nær!”. En nú var hann stór strákur, 48 ára gamall. Hann var því með hljóðupptöku af sér að segja: “Pabbi! Pabbi! Papa! Papa!” og stillti það á endurtekna lykkju. Hann kom því fyrir í fatahenginu fyrir mörgum vikum síðan. Þetta átti sér stað þegar Frakkland vann Írland í einhverri íþrótt (tennis?). Nú vantaði einungis snæri, límband og aðra bréfaklemmu til að hengja þetta í vinstra horn skrifstofunnar. Papa kemur hlaupandi inn og gerir sig að fífli af hendi myndarlegs sonar síns. Þegar hann loksins næði að” Græjum og Tólum Gubba Sigurðs.™” myndu endalokin nálgast fyrir stollt pappa hans. Þá sæi hann loks besta hrekk sem franski hrekkjalómurinn sjálfur hafði útbúið. Það er, um leið og veðrið yrði betra.
Það snjóar aldrei í Frakklandi. Þar gátu þau setið úti og mulið brauð með safaríkri olíu og étið snigla svo ferska að þeir sungu enn um litlu hafmeyjuna. En þetta var ekki Frakkland. Hann sat uppi með að ferðast á 7 km/klst á móti snjóbil sem reyndi að éta hann. Frakkinn vissi að hann væri ekki ferskur snigill, svo hann hélt för sinni áfram. Þó mun hægar en hann hafði vonast eftir.
Þegar Frakkinn steig fætur inn í ” Græjur og Tól Gubba Sigurðs.™” leið næstum yfir hann af viðbjóði. Blendingar og hreinræktaðir Íslendingar hópuðust saman og æptu hluti sem ekki má nefna í þessari frásögn (Frakkinn vill taka það fram að hann vilji ekki vera dreginn fyrir dómstóla af miðaldra mæðrum fyrir óbrúklegan málskap).
“Ég bið ykkur, herrar mínir og frúr,” sagði Gubbi Sigurðs á hinum enda skítuga afgreiðslukassans, “þetta var einungis hrekkur í anda apríls.”
“Þegiðu og gefðu okkur köttinn fávitinn þinn!” öskraði þátttakandi í rifrildinu. Hún benti á stórt plakat við vinstri öxl Gubba Sigurðs. Á plakatinu var lítill kettlingur umkringdur skærum litum og undir honum stóð: “kjellin vill fá þig! fyrir hvern hlut sem þú kaupir færð þú kisu (litla kisu)”
Frakkinn var afar mótfallinn öllu sem átti sér stað næsta hálftímann: öskrin, slagsmálin og ruddalegu innkomu lögreglunar. Hann komst þó loks að afgreiðsluborðinu. Þó var hann óviss um að sálinn greri nokkru sinni framar. Hann hélt af stað. Sætið á hjólinu enn blautt. Blautari en framtíðar eiginkona hans mundi nokkurn tímann verða.
Hjólreiðin var brött og sneisafull af örvæntingastundum um afdrif hans. Þó komst hann á leiðarenda. Sprettir fuglsunga á eftir foreldrum sínum sem yfirgáfu hann í hreiðri sínu fyrir sakir veiklyndi hans var lítið miðað við sprettinn sem Frakkinn tók að húsi foreldra sinna. Það var ótrúlegt að þrátt fyrir hrakfarir dagsins væru foreldrar hans enn ókomnir. Drullugum skónum var kastað í andirið og fallega kápan hans lá endlöng á stól. Enginn tími fannst til að vera virðulegur á þessari æsispennandi svaðilför. Höndinn hans nánast sveif að hurðarhúninum að skrifstofunni og greip í hana með föstum tökum.
“Pierre?” kallaði papa úr andyrinu. Þegar Frakkinn leit á föður sinn og móður voru þau í blautum fötum við andyrið, nýkomin.
“Papa! Gott að sjá þig!” svaraði Frakkinn með bjartari rödd en hann hafði verið með í barnaskóla. Á andlit föður hans var svipur sem hann gleymdi aldrei. Reiði. Hræðsla. Tilfinningar sem Frakkinn taldi föður sinn ekki hafa.
“Ég ætlaði að gera aprílgabb en heimurinn leyfir mér það ekki. Það átti að vera tilbúið þegar þið komuð heim,” bætti Frakkinn við í vonlausri tilraun til að létta stemninguna.
“C’est la vie ma chére,” sagði móðirinn vongóð á meðan hún horfði á eiginmanninn sinn með áhyggjusvip.
“Ekki fórst þú inn í skrifstofuna Pierre? Ég hef verið þér góður, vonandi hefur þú ekki brotið þessa eina reglu?” Faðir Frakkans stóð ráðvilltur. Eftir þetta kom löng, ærandi þögn.
“Aimeriez vous du café, Pierre?” spurði móðirinn loks eftir að Frakkinn játaði sig sigraðan í störukeppninni og leit skömmustulega í gólfið. Hann kinkaði kolli án þess að líta upp og elti móður sína inn í eldhúsið.
Faðir Frakkans fylgdist með mæðgunum hverfa fyrir hornið og gekk rólega að sléttum hurðarhúni skrifstofunnar. Hann lokaði og læsti herberginu rækilega á eftir sér, sem er furðulegt miðað við innihald þess. Þetta var ósköp venjuleg skrifstofa. Að arineldinum fráskildum var herbergið nánast sorglegt ásýndum. Faðirinn settist við skrifborð og reyndi að opna skúffu sem var læst. Hann gaf frá sér andúð af létti. Því næst tók hann lykil úr vasanum, opnaði skúffuna og teygði sig varlega í stakt blað. Það tók dágóða stund að lesa yfir innihaldið. Hann renndi fingrunum mjúklega yfir orðin og eyðurnar sem þau höfðu fyllt í fyrir 48 árum. Hann og Adrienne. Þó hún sé stödd inn í eldhúsi væri hún líklega sammála ákvörðuninni sem hann var í þann mund að taka. Glóðin úr arineldinum vermdi hann. Það að arineldurinn hafði verið kveiktur allan þennan tíma virtist valda honum litlum áhyggjum. Í stað þess að haga sér eins og þjóðverji, sem hefði slökkt á eldinum, henti hann blaðinu í eldinn. Blaðið dó svo hratt að það gleymdi hvernig það væri á litinn. Faðir Frakkans átti erfitt með að sjá neitt skondið við þetta augnablik. En hann gat að minnsta kosti huggað sig við það að þótt Frakkland hafi tapað, unnu andstæðingarnir ekki.